16.04.1937
Neðri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í C-deild Alþingistíðinda. (1966)

109. mál, viðreisn sjávarútvegsins

*Jóhann Jósefsson:

Herra forseti! Góðir hlustendur! Þegar við sjálfstæðismenn fórum fram á það, að opinberar umr. færu fram í útvarpið um þetta frv., gerðum við það til þess, að hægt væri að fá fram skýra afstöðu flokkanna og til að auglýsa stefnu þá og till., er við sjálfstæðismenn höfum undanfarin ár borið fram í málum sjávarútvegsins. En ég býst ekki við, að við höfum vænzt þess, að þetta yrði til þess, að hér færi fram stórpólitísk uppgerð milli hv. stjórnarflokka. Ég mun láta heimiliskrít þeirra, sem allir vita, að er sannkallað kærleiksheimili, vera mér óviðkomandi við þessar umr.

Það verður að teljast einkennilegt fyrirbæri, hve hv. sósíalistaflokkur leggur nú mikið á sig til að hamra í gegn þetta frv. um viðreisn sjávarútvegsins, þar sem það er borið fram viku fyrir vantanlegt þingrof, því að það, sem frv. inniheldur til viðreisnar sjávarútveginum, eru umskrifaðar till. sjálfstæðismanna. Ég hefði vænzt þess, að hæstv. ráðh. hefði gefið skýringu á því einkennilega fyrirbæri í sjávarútveginum, sem við höfum verið vottar að undanfarna mánuði, að settur er fótur fyrir, að fyrirtæki hér í landi fái að setja upp síldarverksmiðju á Hjalteyri, sem getur unnið úr 25000 málum, þegar vitað er, að síldarafli á Norðurlandi var í sumar meiri en svo, að hægt væri að taka á móti honum, svo að fiskimenn misstu mikið af eðlilegum ágóða sínum vegna verksmiðjuskorts.

Jón Baldvinsson, forseti Alþýðusambandsins, sagði í Ed. á dögunum, að það þýðingarmesta af öllu hér á landi væri nú síldin og frystihúsin. Þetta er rétt. En hví er flokkur hans þá að eyðileggja það, að sjómenn á Norðurlandi fái bætta afkomumöguleika og að verkamenn á Hjalteyri fái að njóta þeirrar atvinnu, sem verksmiðjubyggingin myndi veita þeim? Þegar maður heyrir, hve mikinn áhuga sósíalistar segjast bera fyrir sjávarútveginum, er óskiljanlegt, að þeir skuli hafa fengið sig til að bregða fæti fyrir það, að þessi nýja síldarverksmiðja á Hjalteyri kæmist á fót.

Í fyrri ræðu minni sýndi ég fram á ýmsar firrur, er fram hefðu komið hjá hv. 6. landsk., Jónasi Guðmundssyni. Í svarræðu sinni hélt hann því fram, að það, sem ég og hv. 6. þm. Reykv. sögðum, hefði verið skætingur og grobb. Ég bið hann að athuga það, að í sinni frumræðu dæmdi hann svo gersamlega alla æru af Sjálfstfl. í málum þeim, er snerta sjávarútveginn, að það sem ég svaraði, var ekki nema lítið af því, sem hann átti skilið. Annars er ekki ástæða fyrir okkur sjálfstæðismenn til að lengja umr. um þetta mál, enda læt ég nú máli mínu því sem næst lokið. Við fögnum þeirri stefnubreyt., sem sýnilega hefir orðið hjá báðum stjórnarflokkunum í veigamiklum málum, er við lögðum fram áður hér á þingi. Ég hefi hlustað á yfirlýsingar hæstv. fjmrh. og atvmrh. um, að heppilegt væri að hætta að innheimta útflutningsgjald af sjávarafurðum fyrir ríkissjóð, en verja heldur fénu til þessarar atvinnugreinar sjálfrar. Þessu fögnum við, því að við höfum fyrstir lagt til, að þessi leið yrði farin. Við höfum ekki haft valdaaðstöðu til að koma þessum málum fram, og því frekar er það okkur ánægjuefni, er grundvallarhugsanir okkar í þessum efnum fá slíka viðurkenningu sem þær hafa fengið í kvöld hjá hv. stjórnarflokkum. — Góða nótt.