08.03.1937
Efri deild: 16. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (197)

20. mál, fjárforráð ómyndugra

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Allshn. hefir athugað þetta mál og leggur til að það sé samþ. Reyndar hefir einn nm. nokkra sérstöðu og hefir skrifað undir nál. með fyrirvara, sem hann mun gera grein fyrir.

Við 1. umr. var spurt, hvort n. vildi ekki athuga, hvort ekki væri rétt að gera fleiri breyt. á núgildandi lögum en felast í frv. N. kynnti sér efni tilskipunarinnar frá 1847, sem er allumfangsmikið. Ýmsu í henni hefir verið breytt, og þörf á að breyta fleiru. En n. taldi svo mikið verk að kryfja þetta mál til mergjar, að þingnefnd væri það ofvaxið í hjáverkum. N. er á þeirri skoðun, að setja þurfi heildarlöggjöf um þetta efni, en telur þess varla að vænta, að það verði gert á þessu þingi.