08.04.1937
Neðri deild: 33. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í C-deild Alþingistíðinda. (1979)

111. mál, alþýðutryggingar

*Flm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Á þessu stigi málsins sé ég ekki ástæðu til að fara ýtarlega út í að svara hv. þm. V.-Sk., sem hér hefir haldið langa ræðu um málið, ekki sízt fyrir þá sök, að við ræddum nokkuð um það við framkomu hans frv. fyrr á þinginu. Ég vil aðeins minnast á örfá atriði, sem ég tel rétt að drepa á, áður en málið fer til n.

Þeir tveir hv. þm., sem talað hafa. hafa lagt nokkra áherzlu á, að mikil þörf væri á að laga ákvæði í alþýðutryggingarl. um greiðslu dánarbóta. Það er gert í því frv., sem ég flyt hér og þessum hv. þm. þykir ekki fullnægjandi. Mér virðist, að gagnrýnin hjá þeim báðum, sérstaklega hv. þm. v.-Sk., sé að sumu leyti ekki réttlát. Það er sem sé gengið framhjá atriði, sem er undirstaðan undir þeim breytingum, sem gerðar voru á reglunum um dánarbætur með alþýðutryggingarl., frá því, sem var í slysatryggingarl., en það er, að með þeim var lengra gengið í því, að taka tillit til ómegðar hins látna, svo að dánarbæturnar hækka til muna, eftir því sem ómegðin er meiri. Þetta verður bezt skýrt með því, að tilgreina dæmi, sem samið er af forstjóra tryggingarstofnunar ríkisins og fylgir sem skýring á l. um alþýðutryggingar, og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa það upp:

„Setjum svo, að tveir menn farist með sama skipi. Annar þeirra lætur eftir sig ekkju og tvö börn á 1. og 3. ári og átti auk þess fyrir öldruðum foreldrum að sjá, sem voru á framfæri hans. Hinn maðurinn hafði fyrir engum að sjá, en átti uppkomin systkini. Dánarbætur hins fyrrtalda hefðu orðið 4200 kr., en 3000 kr. fyrir hinn síðari, eftir gömlu l. Eftir alþýðutryggingarl. hefðu engar dánarbætur verið greiddar fyrir hinn síðari, en eftirlifandi vandamenn hins fyrrtalda hefðu fengið dánarbætur, sem hér segir: Ekkjan 3000 kr., hvort barn 100 kr. fyrir hvert heilt ár, sem vantar í 16 ára aldur. eða 1500 kr. fyrir yngra barnið o g 1300 kr. fyrir það eldra, og foreldrar 2500.kr., eða dánarbætur samtals 8300 kr.“

M. ö. o. hafa eftir breytingu í alþýðutryggingarl. verið greiddar dánarbætur fyrir þá, sem fellu frá af slysförum og skyldu eftir sig jafnmarga menn á ómagaaldri, 8300 kr. eftir alþýðutryggingarl., en eftir slysatryggingarl. 4200 kr., eða nærri helmingi minna. Framhjá þessu er alltaf gengið í gagnrýninni á alþýðutryggingarl., að því er snertir reglur um dánarbætur. En þetta atriði er sannarlega ekki veigalítið, og á það vildi ég benda sem sönnun þess, hve gagnrýnin á fyrirmæli l. um dánarbætur er einhliða.

Eins og ég sagði áðan, þá sé ég ekki ástæðu til að fara út í almennar rökræður um tryggingar, um tilvist þeirra hér á landi og ástæðuna fyrir setningu alþýðutryggingarl. Til þess er ég reiðubúinn við betri tíma og tækifæri en á þessum fundi, þar sem ég fyrir mitt leyti vildi leggja aðaláherzluna á að koma þessu máli áleiðis, ef mögulegt væri að fá það afgreitt í einhverri mynd. Ég tók það líka fram, að ég væri reiðubúinn til samninga við alla þá menn, sem einhverjar endurbætur hafa fram að bera á því frv., sem ég flyt. Hinsvegar er nokkur skoðanamunur á millí mín og hv. þm. V.-Sk. um, hvað séu endurbætur á tryggingarlöggjöfinni, en út í það atriði hirði ég ekki heldur að fara á þessu stigi málsins. Mér finnst, að hv. þm. V.-Sk. geri fulllítið úr þeim endurbótum, sem frv. það, sem ég flyt nú, hefir vissulega að geyma, en ég sé ekki heldur ástæðu til að endurtaka og benda á þær endurbætur, sem ég benti á í fyrri ræðu minni. En það eru óvefengjanlega stórkostlegar endurbætur á öllum þáttum tryggingarl., sem felast í frv. mínu. — Til þess að tefja ekki umr. þessa máls frekar en orðið er, þá mun ég á þessu stigi málsins láta nægja að vísa til fyrri ræðu minnar um þetta atriði og endurtaka, að ég er reiðubúinn til að ræða um endurbætur á frv., einnig með hliðsjón af frv., sem aðrir hv. þm. hafa flutt og liggja fyrir þessari hv. d.