08.04.1937
Neðri deild: 33. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í C-deild Alþingistíðinda. (1980)

111. mál, alþýðutryggingar

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Ég mun segja örfá orð um eitt atriði, sem hv. flm. frv. vék að, en ég sé enga ástæðu til að endurtaka það, sem ég hefi áður sagt, og eins og hann, vil ég styðja að því, að þetta mál komi til rækilegrar athugunar. Það er eitt atriði, sem ég ætla að minnast á, og bæði ég og hv. 1. landsk. höfum talað um.

Það er ekki í sjálfu sér og undir öllum kringumstæðum, að ætlunin í alþýðutryggingarl. sé sú, að það lægju alltaf bætur til foreldra og vandamanna, sem misst hafa uppkomna syni sína í sjóinn eða af slysförum, því að þar með væri nokkuð mikið sagt. En það er svo áberandi misrétti í þessari löggjöf frá því, sem áður var, að það er ekki hægt við það að hlíta, og það er misrétti, sem krefst þess, að það verði endurbætt. Ég tek dæmi, sem gerðist síðastl. sumar, þessu máli til stuðnings, og að vísu í mínu héraði, og sem hv. flm. kannast við, því að það urðu skrif um það á víxl. Ég taldi, að því máli hafi verið alltof illa tekið af tryggingarstofnuninni, sem hv. flm. stendur að. Foreldrar, sem eiga heima í mínu héraði, áttu uppkominn son, sem drukknaði. Foreldrarnir eru nokkuð við aldur, en eiga þó börn í ómegð, og vitaskuld var þessi eini uppkomni sonur, sem á sjónum var, þeirra eina stoð og stytta, þótt ekki geti talizt, að þau séu öryrkjar, en þau hafa ekki ofan af fyrir sér nema með aðstoð. Þegar þessi maður drukknar, lítur tryggingastofnunin á hann sem einhleypan mann og skeytir þessu ekki, en heldur sér við ákvæði l. og telur ekki sannað, að foreldrarnir hafi verið á framfæri þessa sonar síns. Þetta er hróplegt ranglæti og algert réttarrán, frá því sem áður var, og maður skilur ekki vel, hvers vegna þessir hv. þm., sem þykjast vilja styðja að jafnrétti og réttaraukningu alþýðunni til handa. vilja halda slíku við. Ég gerði tilraun til að skýra þessa lagagrein á annan veg og benti tryggingarstjóranum á, að það mætti komast undan þessu ákvæði á ærlegan hátt með því að taka það til greina, sem hlaut að vaka fyrir mönnum, sem báru þetta fram, en því var ekki skeytt. Frv. það, sem ég og fleiri bárum fram, fer fram á, að þetta misrétti sé að fullu bætt og fært í sama horf og áður var, enda má ekki minna vera. Ég veit, að hv. flm. sér þetta nú, þótt honum hafi ekki tekizt í frv. sínu að ráða á þessu bót. Ég vil því skora á hann, þar sem hann á sæti í þeirri n., sem fjallar um málið, að hann taki málið upp á réttan hátt og geri á því fulla bragarbót, ekki aðeins með auknum ákvæðum um, að greiðslan verði svo, að misréttið verði ekki eins hróplegt og verið hefir, heldur færa ákveðin saman við eða frá, svo að enginn verði réttlaus milli vega.