10.04.1937
Neðri deild: 35. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í C-deild Alþingistíðinda. (1999)

126. mál, húsmæðrakennaraskóli og húsmæðraskóli í Reykjavík

*Flm. (Pétur Halldórsson):

Herra forseti! Það stendur svo á um húsmæðrakennslu hér, að fyrir kennslunni er lítt séð á Suðvesturlandi og í Reykjavík. Hér í bæ eru að vísu margir skólar, og mætti segja, að ekki væri ástæða til að fjölga þeim. En hér er sérstakt mál á ferðinni, og mætti um það segja, að það, sem að er, sé, að skólarnir í þessari grein hafi ekki nógu hagnýta kennslu. Yrði sérstaklega að sjá kvenþjóðinni fyrir þeirri fræðslu, sem konur þurfa á að halda. er verða húsmæður og mæður barna. Í þessu efni er mikill skortur hér í Reykjavík. Bæjarstj. hefir mjög fundið til þessa og hefir ætlað nokkurt fé fyrir árið 1937 til að bæta úr þessu. Er það gert vegna þess, að ekki hefir enn verið fyrir þessari fræðslu séð af löggjafarvaldinu. En það er skylt, að ríkissjóður taki þátt í þessu, og því er frv. þetta á þskj. 203 borið fram, að ekki er viðunandi skipun gerð um þetta mál fyrr en teknar hafa verið upp þær ráðstafanir, sem það fer fram á. Nú eru til nokkrir húsmæðraskólar hér á landi, en ekki hefir verið séð fyrir því, að kennslukonur í þessari grein geti fengið menntun sína hérlendis. Færi vel á því, að í sambandi við húsmæðraskóla hér í höfuðstaðnum yrði haldið uppi kennslu fyrir kennara húsmæðraefna. Þær þurfa að hafa sérstaka þekkingu á íslenzkum staðháttum, að því er þetta snertir, og er því ekki fullnægjandi, að þær hafi erlenda menntun.

Ég tel víst, að hv. þm. geti fallizt á aðalefni þessa frv., þó að ég telji ekki líkur til, að málinu verði komið fram á þessu þingi. En það er þá komið af stað, og er mikill áhugi fyrir því meðal kvenfólks í Reykjavík, að framkvæmd þess dragist ekki lengi. Menn munu sjálfsagt verða sammála um nauðsyn þessa máls, en hitt er annað mál, hvort það þykir fært að gera þetta að l., þar sem því hlýtur að fylgja nokkur kostnaður.

Að síðustu vil ég óska þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og menntmn. þessarar deildar.