10.04.1937
Neðri deild: 35. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í C-deild Alþingistíðinda. (2001)

126. mál, húsmæðrakennaraskóli og húsmæðraskóli í Reykjavík

Sigurður Einarsson:

Það mun ekki þykja vonum meira, að Alþingi geri nú ráðstafanir til að bæta úr ástandi því, sem ríkir hér í Reykjavík og nærliggjandi héruðum um húsmæðrafræðslu. Því verður ekki neitað, að síður hefir verið séð fyrir þessum málum hér í Reykjavík en víða annarsstaðar á landinu. Er því gott að fá nú frv. þetta um fræðslu húsmæðra og húsmæðrakennara. Hinsvegar er margt í þessu frv., sem hv. flm. ættu ekki að taka illa upp, þó að brtt. kæmu við. Ég vil stuttlega geta þess, hvað ég finn frv. til foráttu, og er það þó allt þann veg, að bæta má úr með samkomulagi.

Ég held, að hinn tvöfaldi tilgangur frv., að veita konum verklega og bóklega fræðslu, sé fyllilega réttmætur, og í öðru lagi fagna ég því, að húsmæðrafræðslan fær hér það form, sem nauðsynlegt er, að húsmæðrakennarar hljóti fræðslu sína hér á landi. En þó er ýmislegt í þessu frv., sem er þess eðlis, að það er óþarft eða gæti orðið til að tefja málið, ef það væri látið standa óbreytt. Ég get t. d. ímyndað mér, að til mála geti komið, að mönnum þyki ástæða til að byrja þessa starfsemi, áður en búið er að koma upp skólahúsum og slíku. Í 2. gr. er t. d. ýmislegt, eftir að 1. málsgr. er lokið, sem orðið gæti til að tefja framkvæmdir, vegna þess að gert er ráð fyrir, að skólinn verði reistur fyrst. Að skólinn skuli búinn öllum nauðsynlegum tækjum til kennslunnar o. fl. slíkt, er algert reglugerðaratriði. Sumu í 1. gr. er og sjálfsagt að breyta, eins og þar sem stendur, að skólinn skuli „veita konum þá kunnáttu, sem gerir þær færar um að takast á hendur o. s. frv.“ Það getur verið álitamál, hvar látið skuli staðar numið, ef sagt er, að skólinn skuli gera konurnar færar um þá hluti, sem þarna eru taldir. Væri nær að segja, að skólinn eigi að veita þá menntun, sem hæfileg þykir til að gera konur færar um að takast á hendur o. s. frv. Þá segir á einum stað í frv., að stjórnarráðið skuli hafa íhlutun um forstöðu skólans, en á öðrum stað er kennslumrh. falin svipuð íhlutun. Virðist eðlilegra, að þar sem sagt er, að stjórnarráðið skuli skipa eina konu í skólaráð, sé því breytt í kennslumrn. — Þá er 3. gr. nokkuð óljós. þar sem segir, að skólinn skuli hafa umráð yfir 5 ha. af landi, því að þar er ekki tiltekið, hver skuli leggja honum til þetta land. við síðari umr. mun ég bera fram brtt. við þessa gr., þar sem lagt verður til, að Reykjavíkurbær leggi skólanum til allt að 5 ha. af landi, ef stj. skólans fer þess á leit, til að geta stundað þar þann búskap, sem hún telur ástæðu til.

Það, sem fyrir mér vakir, er tvennt; bæði það, að stofnun slíks skóla hlýtur óhjákvæmilega að verða allmikil útgjöld fyrir ríkið, og sérstaklega að verulegu leyti rekstur hans, þegar hann er kominn á nokkurn rekspöl, og hinsvegar tel ég, að stofnun slíks skóla sé allmikið hagsmuna- og menningarmál fyrir það hérað, sem hlut á að máli, svo að það sé ekki ósanngjarnt að ætlast til, að það sýni, að það meti þessar aðgerðir hins opinbera með því að leggja honum til land. Víða annarsstaðar hafa bæjarstjórnir og bæjarsjóðir lagt land ríkulega til menntastofnana, því að þótt þær séu almennar, þá verða þær alltaf að meira eða minna leyti framar öðru til góðs fyrir þá, sem þær eru settar niður hjá. Akureyri lagði t. d. myndarlega fram land til skólans þar, þegar kom að því, að gera á honum breytingu, og gera hann að menntaskóla.

Fyrir nokkrum árum, þegar talað var í fjvn. um framlög til skóla og annars slíks, þá kom fram hjá mér og fleirum nm. sú skoðun, að það væri einn starfandi skóli hér í Rvík, sem hefði í raun og veru að verulegu leyti lokið hlutverki sínu sem skóli, og það er Kvennaskólinn í Rvík. Þegar Kvennaskólinn var stofnaður, þá hagaði svo til, að konum var ákaflega torvelt að komast í skóla og njóta almennrar menntunar, hvað þá heldur sérmenntunar, sem fremur mætti kallast kvenleg menntun. Skólinn var stofnaður með það fyrir augum að bæta úr báðum þessum þörfum, og hann hefir alla tíð síðan verið rekinn sem nokkurskonar sambland þessa tvenns. Þar er verulegur hluti af náminu venjulegt gagnfræðaskólanám. Nú er okkur öllum kunnugt, að fjöldi skóla hefir orðið til síðan, sem eru samskólar fyrir pilta og stúlkur, svo sem menntaskólar, gagnfræðaskólar og héraðsskólar, sem stúlkur þær, sem hafa hug á að afla sér almennrar menntunar, sækja ekki síður en aðra skóla. Hinsvegar hefir þetta tvöfalda hlutverk Kvennaskólans gert það að verkum, eins og kemur hér fram, að hann hefir aldrei getað orðið eiginlegur húsmæðraskóli.

Ég geri ráð fyrir, að það mundi ekki verða lífið svo á, um leið og gerðar eru víðtækar ráðstafanir til þess að koma fótum undir húsmæðrafræðsluna með stofnun slíks húsmæðraskóla og húsmæðrakennaraskóla, að kreppt sé að möguleikum kvenna til að afla sér almennrar menntunar, þótt Kvennaskólinn í Rvík legðist niður um sama leyti. Ég vildi, að það mál væri tekið sérstaklega til athugunar, því að við hlíðina á fullkomnum húsmæðraskóla og húsmæðrakennaraskóla er ekki ásfæða til að reka í bænum sérgagnfræðaskóla fyrir konur með þeim skólakosti, sem annars er völ á í bænum. En sá möguleiki, að svo yrði litið á sem Kvennaskólinn hefði í raun og veru lokið hlutverki sínu um leið og húsmæðraskóli yrði stofnaður, gæti orðið til þess, að ef til vill mætti byrja þessa starfsemi með nokkru minni tilkostnaði og nokkru fyrr heldur en ella, ef að einhverju leyti mætti stofna hann á grunni Kvennaskólans, sem hér hefir starfað og starfar enn.

Þetta eru aðeins nokkrar aths. við 1. umr. þessa máls. Ég vil taka það fram, að þær eru bornar fram af velvilja til málsins. Ég álít þetta mál þess eðlis, að það sé algerlega ófært af löggjafarvaldinu að taka ekki vinsamlega á því. Við verðum að líta á það sem hlutverk næstu ára, að sjá til þess, að höfuðstaður landsins og nærliggjandi héruð eigi við sama kost að búa í þessu efni og önnur héruð. Það verður aldrei ofsögum sagt, sem segir í grg. þessa frv., að praktísk menntun kvenna í þeim störfum, sem verða aðalstörf þeirra í lífinu, er svo stórkostlegt, þjóðhagslegt og menningarlegt atriði, að því er allur gaumur gefandi, að gera þar sitt ýtrasta.