12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í C-deild Alþingistíðinda. (2010)

129. mál, fasteignaskattur

*Flm. (Hannes Jónsson):

Aðeins örfá orð. Ég hefi borið þetta frv. fram á undanförnum þingum, en málið hefir ekki verið afgr. Síðan hafa verið flutt frv. um tekjuöflun sveitar- og bæjarfélaga. Nú hefi ég heyrt, að hvorugt þessara frv. muni ná fram að ganga á þessu þingi. Þessi frv. liggja nú sitt fyrir hvorri deild. Þykir mér því ekki vonlaust um, að hv. þm. geti sameinað sig um að vilja þó eitthvað starfa til viðreisnar fyrir sveitarfélögin, þó í smáum stíl sé. Hér er um smáupphæð að ræða, sem farið er fram á að komi sýslusjóðum til tekna, en tiltekið, að hækka megi þá upphæð um helming.

Ég ætla ekki að fjölyrða um málið, en vænti þess, að hv. þd. fáist til að samþ. frv. sem spor í áttina til að leysa vandamál, sem tafizt hefir fyrir Alþ. að leysa. Þessi úrlausn á málinu getur ekki talizt nema rétt aðeins byrjunarlausn. En ég hygg, að það mundi þó flýta fyrir því, að greiðari lausn fengist á málinu á næstu þingum, ef þetta spor væri stigið nú. Vil ég svo mælast til þess, að frv. verði að umr. lokinni vísað til allshn.