09.04.1937
Neðri deild: 34. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í C-deild Alþingistíðinda. (2022)

132. mál, friðun hreindýra

Páll Zóphóníasson:

Það kom eitt fram í ræðu hv. flm., sem mér finnst ég verða að leiðrétta strax, þó málið komi væntanlega til þeirrar n., sem ég á sæti í. Hann talaði um það, og hæstv. fjmrh. tók það upp eftir honum, að ekki mundu vera til nema um 40 hreindýr á landinu nú. Það er náttúrlega erfitt að segja nokkuð ákveðið um þetta efni. Ég hefi spurt menn úr þeim sveitum, sem liggja að afréttinni, þar sem hreindýrin halda sig, en hún er svo víðtæk, að það tekur 8 daga að smala hana til réttar. Þeir segjast sjá marga hreindýrahópa; sumir gizka á, að dýrin séu nokkur hundruð, sumir jafnvel nokkur þúsund. Hvað sem rétt er í þessu, þá er a. m. k. fjarstæða að vera að tala um ein 40 dýr. Ástæðan til þess, að e. t. v. hefir sézt minna af dýrunum tvo síðustu árin getur verið sú, að tvær ár, sem falla austan úr hálendinu, niður í Jökulsá að vestan, runnu saman í eina á, sem Kringilsá er kölluð. við það varð hún ófær. Í afréttarland það, sem þarna króaðist of — Kringilsárranann— og Jökuldælir höfðu áður smalað, hefir enginn komið síðan, nema menn, sem fóru á ís þangað í vetur til að sækja sauðkindur, sem sézt höfðu yfir ána. Þegar þessi breyting varð, króaðist þarna af hópur af hreindýrum, sem fara framhjá gangnamönnum á haustin, nema ef þeir sjá þau yfir ána. Það má vel vera, að hv. þm. V.-Húnv. hafi heyrt frá einhverjum, sem verið hefir í réttunum síðustu ár og ekki séð eins mikið af hreindýrum og áður, af því þessi dýr hafa farið framhjá þeim.

Ég vildi leiðrétta þetta strax, og í öðru lagi vil ég benda á, að það mundi, held ég, verða erfitt að koma við veiðitúrum og eftirliti með þeim, eins og hv. þm. hugsar sér. Ég held, að hann geri sér ekki grein fyrir, um hvaða vegalengdir er að ræða á þessum slóðum. Ef farið er inn í öræfin upp undir Snæfell, er það meir en viku ferðalag. Í slíkt ferðalag mundu menn varla leggja til þess að skjóta einn eða tvo hreintarfa. En ef það væri gert, yrði víst eftirlitsmaðurinn að vera með í hverjum túr til þess að gá að, hvort menn skjóta ekki kýr eða kálfa, eftir till. hv. þm.