27.02.1937
Efri deild: 11. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í C-deild Alþingistíðinda. (2038)

27. mál, ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Ég ætla að leyfa mér að fylgja frv. þessu úr hlaði með fáum orðum.

Á síðasta þingi voru samþ. l. um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla. Það hefir komið í ljós, að við framkvæmd þeirra laga muni allmikil og þungbær gjöld leggjast á sveitir og bæjarsjóði. Hafa því mörg þeirra nú þegar kvartað undan álögum þeim, sem á þau leggjast vegna laga þessara, og telja, að þær muni verða þeim óbærilegar, enda þótt þau eigi ekki að greiða nema 1/5 hluta af kostn. við framfærslu sjúklinganna. Í kjördæmi mínu voru því samþ. einróma áskoranir um það, að þetta væri lagfært. a. m. k. á þá leið, að berklasjúklingar nytu þó alltaf sama styrks úr ríkissjóði og áður. vegnu þessara áskorana hefi ég því flutt frv. þetta, ásamt hv. þm. N.-Ísf.

Það hefir verið álitið hingað til, að berklaveikin væri sá sjúkdómur, sem þyrfti alveg að taka sérstökum tökum, og hefir um nokkurt skeið verið beitt líkri aðferð gegn þeim sjúkdóm og beitt er jafnan gegn næmum farsóttum, að sóttvarnir hafa beinlínis verið fyrirskipaðar gegn honum og ríkið látið taka á sig stórar byrðar til þess að reyna að koma í veg fyrir útbreiðslu hans. Eins og kunnugt er, var sýslunum fyrst ætlað að taka á sig nokkurn hluta af framfærslukostnaði berklasjúklinga sinna, en síðar var þessu ákvæði breytt þannig, að þeim var gert að greiða 2 kr. á hvern sýslubúa, upp í berklavarnakostnaðinn. Eftir lögunum frá í fyrra verður aftur sú breyting á þessu, að nú verða þeir sjúklingar, sem styrk þurfa, að kljást við hreppsnefndirnar. Þeir eru með lögunum beinlínis gerðir að þurfalingum, a. m. k. virðist mér það. Getur jafnvel svo farið, að hrepparnir verði að leggja hverjum einstökum styrkþega 400–500 kr. ári., en með því verða þeir allmjög háðir eftirliti sveitarfélags síns, en slíkt eftirlit getur haft ýmsa örðugleika í för með sér, bæði fyrir sjúklinginn og hlutaðeigandi sveitarfélag. verður það að teljast mjög óheppilegt.

Þá leiðir það og af þessari breytingu á lögunum, að berklavarnagjaldið kemur mjög misjafnt niður á hreppunum. Sumir þurfa jafnvel ekkert að greiða, en aðrir, sem hafa kannske 3–4 sjúklinga, þurfa að greiða svo þúsundum skiptir, sem mörgum þeirra getur orðið alveg um megn. Ég fæ því ekki annað séð en að þeir hreppar, sem þungt verða úti í þessu efni, verði að fá einhverja hjálp eða nýja tekjustofna, verði lögum þessum breytt, þá getur svo farið, að sumir hreppur komist í hreint og beint fjárhagslegt öngþveiti. Reynslan mun verða sú, eins og jafnan vill verða, að skilamennirnir borga, en hinir sleppa, sem láta reka á reiðanum um greiðslur sínar. Að endingu vil ég svo óska þess, að frv. þessu verði vísað til allshn.umr. lokinni, og hún mun að sjálfsögðu lagfæra það, ef með þarf.