27.02.1937
Efri deild: 11. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í C-deild Alþingistíðinda. (2039)

27. mál, ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég mun að sjálfsögðu ekkert hafa á móti því, að mál þetta fái að ganga til n. og verði athugað þar. Hinsvegar get ég sagt það strax, að ég mun greiða atkv. gegn því, að það nái fram að ganga. Mér finnst það nefnilega óhæft bráðlæti, ef nú þegar ætti að fara að breyta lögum þeim, sem hér ræðir um.

Á síðasta þingi var berklavarnagjaldinu breytt þannig, að tveggja króna nefskatturinn var felldur niður, en héruðunum í þess stað gert að greiða 1/3 hluta af framfærslukostnaði sjúklinga sinna, og mun láta nærri, að um sömu upphæð verði að ræða fyrir héruðin í báðum tilfellunum. Nú hefir berklavarnakostnaðurinn, eins og kunnugt er, lækkað nokkuð hin síðari árin, og kemur það þá sveitunum til góða skv. breytingunni frá í fyrra. Að sjálfsögðu var það öllum ljóst í fyrra, að vegna þessarar breytingar á berklavarnalögunum, myndi kostnaðurinn koma nokkru misjafnara niður en áður, en til þess að draga úr því, var samtímis gerð veruleg breyting á fátækralögunun, sem fór í þá átt, að gera jöfnuð fátækraframfærslunnar á milli sveitarfélaganna fyllri en áður. Jafnast því kostnaður sá, sem lendir á hinum einstöku sveitarfélögum vegna berklasjúklinga þeirra, nokkuð með jöfnunarfé ríkissjóðs. Annars hygg ég, að sveitirnar verði yfirleitt betur úti vegna þessarar breytingar á berklavarnalögunum en kaupstaðirnir, sem verða skv. sjúkratryggingarlögunum að sjá um berklasjúklinga sína.