02.03.1937
Efri deild: 12. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í C-deild Alþingistíðinda. (2042)

35. mál, bændaskólar

Flm. (Þorsteinn Briem):

Það er undirstaða allra framfara í búnaði og trygging fyrir því, að nýjar framkvæmdir komi að notum, að menn eigi kost á nægilegum leiðbeiningum um framkvæmd framfarafyrirtækja. Búnaðarfél. Íslands og búnaðarsamböndin hafa því undanfarið reynt að vanda til slíkra leiðbeininga eftir mætti. En jafnframt því, að búnaðarsamböndunum hefir fjölgað mjög og þau fært út verksvið sitt, hefir orðið tilfinnanlegur skortur á mönnum með nægilegri menntun til þess að taka að sér þessi störf.

Fyrir þremur árum var bent á þessa nauðsyn á búnaðarþingi. Þá var gerð á þingi ályktun þess efnis, að Alþingi athugi möguleika um framhaldsnám í búfræði. Þessu máli hefir verið haldið vakandi síðan. Á búnaðarþingi 1935 var gerð samþykkt í því formi, að mæla með frv., er lá fyrir því þingi og var hér um bil samhljóða því frv., sem ég flyt nú hér.

Þörf á aukinni búnaðarmenntun fer sívaxandi með breyttum búnaðarháttum. Hingað til hafa þeir menn, sem viljað hafa fullnægja þessari þörf, orðið að leita til erlendra búnaðarháskóla. En slíkt nám er fyrst og fremst allt of dýrt í hlutfalli við kjör þeirra, er það stunda, og auk þess kemur það ekki að fullum notum, þar sem það er miðað við erlenda staðhætti, sem eru frábrugðnir vorum. En innlend þekking hefir einmitt aukizt mjög hin síðari ár fyrir rannsóknir og tilraunir, og áríðandi, að hún komi bændum landsins að notum.

Þetta frv. er borið fram með þessa nauðsyn fyrir augum: að þörf búnaðarsambandanna fyrir menntaða leiðbeinendur verði fullnægt og innlend reynsla megi koma að sem fyllstum notum í starfi Bí. Ísl. og búnaðarsambandanna.

Því er full þörf á því að bæta við verklegu námi í búnaðarskólunum og gefa mönnum kost á að kynnast vinnubrögðum og nýjungum á fyrirmyndarbúum, og að stofnað verði til framhaldsnáms við annanhvorn búnaðaskólann. vegna þess að þetta mál hefir verið rætt talsvert hér áður, þótt það hafi ekki hlotið afgreiðslu, þar sem það hefir aldrei orðið útrætt, mun ég ekki fara nánar út í það nú. En ég vil enn minna á það, að búnaðarþing hefir hvað eftir annað ítrekað þá ósk, að bætt verði úr þessari brýnu þörf í samræmi við ákvæði frv.