03.03.1937
Efri deild: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í C-deild Alþingistíðinda. (2049)

44. mál, drykkjumannahæli

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég vildi aðeins taka það fram í sambandi við ummæli hv. flm., sem ekki vill blanda lögreglunni í þessi mál, vegna þess að þau séu ekki afbrotamál, að það má náttúrlega deila um það, hvað séu afbrotamál. En þetta á a. m. k. að varða frelsisskerðingu, svo að árum skiptir, og það eru ekki í okkar löggjöf til svo víðtæk ákvæði, að engin tímatakmörk séu fyrir því, hvað má setja mann langan tíma á drykkjumannahæli. (GL: Það er reglugerðarákvæði). Svo að hér er um meiri refsingu að ræða heldur en fyrir nokkurt almennt lögbrot, og náttúrlega er það aðalatriðið í hverju máli, að frelsisskerðingin er fyrst og fremst refsingin.

Frelsisskerðingin er tilfinnanleg fyrir hvern mann, tilfinnanlegri en menn almennt gera sér grein fyrir. En lögreglan fæst við mál í einkalögregluréttinum, sem ekki eru beinlínis refsimál, t. d. ágreiningsmál milli meistara og sveina, hjúamál og einstaka sifjamál eru rekin þar. Þar er lögreglustjóra lögð sú skylda á herðar að leita allra upplýsinga frá báðum hliðum, sem hann telur þörf til þess að fá rétta niðurstöðu í málinu.

Það er lögð víðtækari rannsóknarskylda á hann þar heldur en í nokkrum öðrum málaflokki. Það er vegna þess, að t. d. í málum milli meistara og sveina er annar aðilinn miklu veikari. Þannig er einnig í barnsfaðernismálum, sem farið er með á sama hátt. Mér finnst því rétt, að þessi drykkjumannamál séu rekin í einkalögreglurétti, því að drykkjumaðurinn verður alltaf veikari aðilinn í þessari málssókn. Það sjá því allir, hversu hættulegt væri, ef framfærslunefndirnar hefðu dómsvaldið í þessum málum. Ég tók þetta ekki nógu skýrt fram áðan, en ég vil undirstrika, hvað þetta væri hættulegt, úr því að menn láta sér slíkt til hugar koma.