18.03.1937
Efri deild: 21. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í C-deild Alþingistíðinda. (2063)

53. mál, Háskóli Íslands

*Magnús Jónsson:

Það er kannske óþarfi að tala mikið um þetta mál, úr því að hv. flm. hefir lýst því yfir, að þetta sé aðeins fyrsta bindið af stóru verki, sem kemur út smám saman. En þar sem hv. flm. sagði, að óþarfi væri að tala um frv., af því að í grg. væri tekið fram allt viðvíkjandi þessu frv., þá vil ég benda á, að þetta er eitt af þeim frv. þessa hv. þm., þar sem er eitt í frv., en annað í grg. Það er í raun og veru ekkert í grg. um þetta frv. Ef það er grg. fyrir einhverju, er það grg. fyrir einhverju væntanlegu frv., því að í þessu frv. er ekkert sagt annað en að rektorinn skuli kosinn til eins árs í stað þriggja og kosningin fari í fyrsta skiptið fram í vor. En grg. er nálega öll um aðra skipun á háskólanum, um skipun kanslara.

Það er einkennilegt þetta frv. vegna þess, að hér er verið að fara fram á breytingu á lögum, sem eru alveg ný, og meira að segja svo ný, að fyrsti rektorinn, sem kosinn var eftir þeim lögum til þriggja ára, er ekki búinn að vera nema hálft skólaár. Það er einkennilegt, þegar hv. flm. segir, að sá tilgangur hafi ekki náðst, sem átti að nást með lögunum frá því í fyrra. Ég vil spyrja hv. flm., hvaða reynsla sé komin um þennan fyrsta rektor, sem ekki er búinn að starfa nema í hálft ár? Ég verð að segja, að það þarf spádómsgáfu til þess að segja að tilgangurinn hafi ekki náðst, því að reynslan er ekki komin á það. Annars var það lítilfjörleg breyting, sem var gerð með lögunum 1936 og var ávöxtur talsvert langra hugleiðinga um þetta mál. — Það var upphaflega þannig ákveðið, að rektor skyldi kosinn u hverju ári. Það voru ýmsir, sem væntu góðs af þessari tilhögun, því að það er í hæsta lagi demokratískt, að háskólakennararnir komi saman á aðalfundi háskólans og kjósi úr sínum hópi rektor, og það er ekkert á móti því, að sami maður geti verið rektor æfilangt, því að það má endurkjósa hann. Það var samt ekki gert. Rektor var kosinn á hverju ári, en það kom ekki að sök, því að háskólakennaraembættin eru yfirleitt þannig skipuð, að prófessorarnir geta gegnt störfum rektors. Samt voru ýmsir, sem töldu að meiri festa mundi komast á stjórn háskólans, ef rektorinn væri kosinn til lengri tíma, og sumir vildu láta kjósa deildarforsetana til lengri tíma. Það varð svo úr, að þetta var gert í reyndinni, að rektor var endurkosinn, og svo var farið fram á breytingu á l. og hún samþ. á þinginu 1935, þó að lögin séu frá 1. febr. 1936.

Ég verð að segja, að í þessum umr., sem urðu ár eftir ar um þetta fyrirkomulag háskólans, hafi öllum komið saman um, að það væri mjög óheppilegt fyrirkomulag, ef skipa ætti einhvern yfirmann við háskólann, sem væri háskólanum svo og svo óviðkomandi, en það væri fast embætti, þar sem sæti kannske einhver gamall karl, sem að ýmsu leyti væri kominn út úr samneyti við háskólann og þann hugsunarhátt, sem þar ríkti. Reynslan af þessu er alþekkt annarsstaðar. Það eru háskólar til, sem hafa kanslara, og það eru oft merkir vísindamenn, sem eru „honoreraðir“ með þessu embætti. Þar sitja þeir, en eru vitagagnslausir menn í sínu embætti, nema til þess að njóta þessa einskonar heiðursmerkis, sem háskólarnir veita þeim.

Það má vera, að það megi koma þessu kanslaraembætti þannig fyrir, að það mætti synda fyrir þessa örðugleika, en ég er ekki farinn að sjá, að það verði nein bót á stjórn háskólans, að setja þar fastan starfsmann.

Stjórn háskólans er, eins og vera ber, ákaflega einföld. Deildirnar kjósa hver sinn forseta, og þeir komu saman á háskólaráðsfund, sem svo kýs rektor, sem er forseti háskólaráðs og stjórnar starfi þess. Víða við háskóla er þetta fyrirkomulag flóknara, og ég hefi talað við marga erlenda háskólamenn, og þeir öfunda okkur af þessu einfalda fyrirkomulagi.

Ég verð að segja, að ég veit ekki, hvað það er í stjórn háskólans, sem hefir komið svona mikið að sök, að ástæða sé til að breyta þessu af þeim sökum. Ef deildirnar væru fleiri, kæmu þær hver með sinn forseta, og það fyrirkomulag er einfalt og fljótvirkt. Að fá meiri festu í stjórn háskólans fæst með því að kjósa rektorinn til nokkurra ára, þannig að hann venjist við stórfín og fái tóm til að flytja fram sín áhugamál. Ef hann sýnir sig á þessum 3 árum að vera góður maður í sínu starfi, verður hann vafalaust endurkosinn. Þá verður hann 6 ár. En ég er ekki viss um, að það sé heppilegt, að sami maðurinn og sama stefnan sé lengur ríkjandi við háskólann en það. Annars er frjálst að kjósa sama manninn oftar. Það er hinsvegar annað, sem gerir festuna og gerir háskólaráðinu auðvelt að starfa. Það er háskólaritarinn. Það er fast skipaður maður, og hann vitanlega man og veit, hvað fram hefir farið við háskólann, svo að hann getur séð um samræmi í störfum ekki flóknari stofnunar en háskólinn er. Mér virðist aftur á móti hitt fyrirkomulagið ákaflega einkennilegt, ef fyrir það fyrsta á að skipa fastan forstöðumann, sem á að hafa embættisaðstöðu í háskólahverfinu til þess að annast fjárhagslega og uppeldislega stjórn háskólans. Það er misskilningur, af því að háskólinn er í raun og veru fleiri skólar. Enda þótt háskólinn komi fram út á við sem ein heild. þá er hver deild raunverulega sjálfstæð. Það mætti alveg eins sameina t. d. verzlunarskólann og kvennaskólann eða ýmsa aðra sérskóla og setja þá undir sameiginlega yfirstjórn, en það mundi bara alltaf verða þannig, að hver einstök deild mundi halda sínu sjálfstæði. Það kyndugasta við frv. þetta finnst mér þó vera hugmyndin um kanslarann, sem ætlazt er til, að verði skipaður. Ég sé satt að segja ekki, hvað þetta nýja embætti á að þýða. Mér skilst helzt, að það muni vera einskonar virðingarstaða fyrir háskólakennara, þessi kanslari; hann á ekki að vera kennari neinnar sérstakrar deildar, — hvað á hann þá að gera? Ef hann á að koma fram fyrir háskólans hönd t. d. við móttöku erlendra gesta og háskólasetninguna, ja, hvað á þá að þýða að vera að hafa háskólarektor? Mér skilst satt að segja, að þetta embætti sé gersamlega óþarft og ekki þess vert, að mynda heilan lagabálk utan um það.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri að sinni, en að lokum vil ég aðeins segja það, að enda þótt ég sjái ekki annað en það sé tilgangslaust, að frv. þetta gangi til n., þá sé ef til vill ekki rétt að leyfa ekki athugun á því í n.