18.03.1937
Efri deild: 21. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í C-deild Alþingistíðinda. (2064)

53. mál, Háskóli Íslands

*Flm. (Jónas Jónsson):

Það er mikið ólán fyrir háskólann, að þessi hv. þm., sem nú settist niður, er oft heldur ógiftusamlegur í till. sinni, þegar um er að ræða málefni háskólans. Ég skal ekki fara langt út í þetta, en ég vil aðeins minna á, hvað þungt þessum hv. þm. var um að hræra tunguna, þegar byggingarmál háskólans var á döfinni, og hvað hann var algerlega trúlaus á það mál, enda þótt það hafi nú sýnt sig, að málið var vel framkvæmanlegt. Annað dæmi um óhappaverk þessa hv. þm. í garð háskólans er það, þegar nokkrir miður velviljaðir menn háskólanum, en ráðamenn hér í þessum bæ, vildu fara að óvirða stofnunina með því að leggja svokallaðan grútarveg inn á háskólalóðina. Ég hygg, að það hafi verið núv. form. Alþfl. og ég, sem fluttum þá tili. um, að skora á stj. að reyna að verja réttindi háskólans og hans fríðindi fyrir þessum grútarvegi. Ég get satt að segja ómögulega skilið það, að hv. 1. þm. Reykv. telji það neina goðgá, þó að þessar till. komi hér fram á Alþ., sem fengu svo góðar viðtökur, þegar ég hreyfði þessu máli í ræðu, sem ég hélt, þegar hornsteinninn var lagður að háskólabyggingunni. Þar var fjöldi manns viðstaddur, og mér virtist eins og orð mín væru töluð út úr hugum flestra viðstaddra. Það verður kannske að afsaka hv. þm. með því, að það sé ekki gaman að gefa mönnum áhuga á málum, sem þeir ekki hafa fyrirfram, eins og það gengur erfiðlega að koma þekkingu inn í þá menn, sem ekki hafa greind né áhuga til að nema. Hv. þm. hefir gott af því að skilja, að það eru menn utan háskólans, en ekki innan hans, sem hafa getað gefið honum lífsmark, útvegað honum möguleika til að fá sína eigin byggingu og nú í haust gefið þessum góðu starfsbræðrum hv. þm. ráðningu, þegar sumir þeirra voru að fara villigötur. Þegar einhver stofnun er svona veik eins og þessi stofnun hv. þm., þá er svo sem ekki ástæða til að hlaupa til að spyrja hana ýtarlega um alla skapaða hluti. Hv. 1. þm. Reykv. virtist vera mjög hneykslaður yfir þeirri uppástungu, að kalla forstöðumann þessarar stofnunar kanslara, og sagðist hann ekki skilja, hvað það embætti ætti að þýða. Ég vil bara segja hv. þm. það, að þegar búið er að leggja svo mikið fé fram til byggingar fyrir háskólann og útlit er fyrir, að hann muni í framtíðinni verða hin veglegasta stofnun hið ytra, þá er full nauðsyn og þjóðin á heimtingu á, að stofnunin fái á sig þann svip, sem slíkri stofnun sæmir, hvað snertir stjórn hans og starfskrafta. Ef hv. þm. skilur ekki, hver meiningin er með þessum kanslara, þá skal ég bara taka dæmi af hinu stóra; ég get bent honum á, að t. d. Ítalir hafa konung, en þeir hafa líka mann, sem raunverulega stjórnar ríkinu; þessi maður er hjá þeim kallaður kanslari. Eitthvað svipað þessu er hugsunin, að verði við háskólann; rektorsembættið á að verða einskonar æðsta virðingarstaða við háskólann, en þessu embætti þarf ekki að fylgja nein sérstök ábyrgð eða vandi, svo að jafnvel menn á því menningarstigi, sem hv. 1. þm. Reykv. hefir lýst sjálfum sér og sínum starfsbræðrum að vera á, gætu hæglega gegnt þessu framtíðarembætti. Háskólinn er stofnun, sem þarfnast mikillar virðingar, og það þarf þess vegna að gera allt, sem unnt er, til þess að hann megi öðlast hana.