18.03.1937
Efri deild: 21. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í C-deild Alþingistíðinda. (2065)

53. mál, Háskóli Íslands

*Magnús Jónsson:

Hv. þm. S.-Þ. hélt hér eina af sínum skemmtilegu ræðum, sem að vísu eru svo skemmtilegar, að enginn getur hlegið að þeim. Ræða hv. þm. var að mestu óviðkomandi sjálfu efni málsins og því, sem ég beindi til hans í minni ræðu, svo að ég veit nú ekki, hvað ég á að fara út í af því, sem hann sagði. Hv. þm. ætlaði að fara að ná sér niðri á mér, þegar hann var að tala um, að þegar hefði átt að fara að afla fjár handa háskólanum til byggingarinnar, þá hefði ég staðið þar á móti. Það vill nú einmitt svo undarlega til, að ég átti fyrstu hugmyndina um stofnun háskólahappdrættisins. Þegar svo frv. um það kom fram, þá gerði ég allt, sem ég gat, til að greiða fyrir því. Ég veit ekki, nema þetta sé nærri því eins mikill skerfur, sem ég hefi lagt til málsins eins og l., sem hv. þm. fékk samþ. á sínum tíma, þegar hann var ráðh., um það, að á vissu tímabili mætti reisa háskóla, ef þingið veitti til þess fé. Þetta var nú hans stórkostlega hjálp. Það er ekki furða, þótt hv. þm. tali digurbarkalega. — Hvað viðvíkur þessum grútarvegi, sem hann var að minnast á, þá get ég sagt það, að ef háskólinn hefði fengið alla þá lóð, sem honum var ætluð í upphafi þarna suður frá, þá hefði verið óhjákvæmilegt að taka stykki undir götu fyrir framan háskólann. Hv. þm. má náttúrlega kalla þetta grútarveg, ef hann hefir ánægju af. Þetta var því ekkert annað en skipulagsatriði. En til allrar hamingju fyrir háskólann var horfið frá því, að láta honum í té svona stóra lóð, því að vitanlega hefði það orðið mikill kostnaðarauki fyrir hann, að þurfa að sjá um svo stóru loð, en þörfin hinsvegar engin fyrir slíkt flæmi.

Hv. þm. sagðist hafa komið með þessa hugmynd, sem hann nú vill gera að veruleika með frv. þessu, í veizlu, sem haldin var, þegar hornsteinninn var lagður að háskólanum. Ég verð að játa, að ég man ekkert eftir þessu, en ég man, að hv. þm. hált ræðu við þetta tækifæri. og það var klappað fyrir honum eins og öðrum og eins og venja er við slík tækifæri. Hv. þm. má vera eins stoltur af þessu eins og hann vill mín vegna.

Ég þykist vita, að allir þeir, sem vita, hvað háskóli er, viti nokkurnveginn um það, hvaða námsgreinar eru kenndar, t. d. í læknisfræði. (JJ: Hefi ekki verið dósent við háskóla). Það vill til, að slíkir menn koma ekki þangað. (JJ: Hinsvegar ekki eins vitlaus og hv. þm.) Ég veit varla, hvort ég á að fara út í þá útreið, sem hv. þm. sagði, að ég hefði fengið út af embættisveitingu lagadeildar, því að ekki liggur fyrir nein ástæða til að ræða það hér. En ég vildi bara segja það, að menn almennt telja það sjálfsagt, að deildir háskóla ráði, hvort samkeppnispróf skuli fara fram eða ekki. Og hvort haldið þið, að sé betra fyrir einn háskóla, að deildir hans fái að ráða, eða pólitískir ráðh. velji kennarana eftir pólitískum litum.

Ég er sannfærður um, að hv. þm. S.-Þ. veit vel hvernig hagað er veitingu háskólaembætta í Svíþjóð. Það er skipuð nefnd. og sú nefnd fer í gegnum allt það, sem umsækjendur hafa skrifað, en þeir fá frí frá störfum í eitt ár til undirbúnings, ef um samkeppnispróf er að ræða. Álíti nefndin einn af umsækjendum beztan er hann tafarlaust skipaður í embættið, en ef um fleiri er að ræða, fer fram samkeppnispróf. Niðurstaðan var sú í haust við háskólann hér, að 2 menn sóttu um embættið í lagadeild. Annar sagði: „Ég skal keppa“. Hinn sagði: „Ég vil ekki keppa“. Og þá velur ráðh. þann mann, sem ekki þorði að keppa.

Ég held, að hv. þm. S.-Þ. ætti að segja sem minnst um þetta og láta allt slíkt liggja á milli hluta. Þm. má fara í alla háskóla í veröldinni. og hann skal alstaðar fá sama svarið, að háskóladeildirnar ráði öllu um þetta. Og reynslan hefir alltaf sýnt það, að ef utanaðkomandi áhrif grípa inn í slík mái, þá er það æfinlega til bölvunar.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta frekar. Eina skýringin, sem þm. gaf á kosningu rektors, var, að hún væri eins og konungurinn á Ítalíu og Mussolini. Þetta er það ideala fyrirkomulag eftir hans skoðun.