18.03.1937
Efri deild: 21. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í C-deild Alþingistíðinda. (2069)

53. mál, Háskóli Íslands

*Flm. (Jónas Jónsson):

Ég vona, að ég geti í lok míns máls þakkað hæstv. forseta á sama hátt og hv. síðasti ræðumaður. — Hann er nú búinn að játa það, sem ég tók fram í sambandi við happdrættið, og hvernig fór með það mál hjá honum í sambandi við þá útlendu loddara. Mig minnir, að það væri Jón Þorláksson, sem stakk títuprjóni í þetta, og svo heyrðist ekki meira um það.

Þá sagði hann, að hann hefði verið að geyma hugmyndina, þangað til við eitthvert hátíðlegt tækifæri. Það er alveg eins og hjá manninum, sem ætlaði sér að verjast tannpínu með því að tyggja ekki nema öðrumegin, en þessar varatennur hurfu á undan hinum. Þetta er dálítið lærdómsríkt fyrir hv. þm. Hann segist hafa endurbætt gamla planið frá tíð Hannesar Hafsteins, og þá er hann stuðningsmaður stj. Hann er í meiri hl. og hefði átt að geta fengið frv. framgengt. þar sem hægt var að leggja þessi pund á borðið fyrir framan þakklátan fjmrh. En fjmrh. bara hundsaði það og þótti skömm til koma. Svo lendir hv. þm. í minni hl. og geymir tanngarðinn eftir einhverjum óvæntum atburði. Svo koma háskólalögin og fer að vanta peninga, og þá fyrst vaknar áhugi hans.

Nei, hann ætlaði að bíða eftir, að hann kæmist í meiri hl. og hefði skynsamari ráðh. en Jón Þorláksson. Ég held, að þessi saga sé of góð til þess, að henni sé trúað.

Annaðhvort er hv. þm. ekki vel heyrandi eða ekki vel skynjandi, ef honum er ekki ljóst, að ég taldi honum þetta til lofs. Þettv umtal um lóðina var komið upp hjá þeim, sem stöðu að stúdentagarðinum, áður en ég kom í stj. En þegar ég fór að kynna mér málið, sá ég strax, að lóðin var of lítil, og vildi fá stykki þar suður af í viðbót undir háskólann, með tilliti til framtíðarmöguleikanna. Hv. þm. viðurkennir gersamlegan ósigur sinn með því að játa, að hann hafi verið á móti því, að garðurinn yrði reistur þarna, en auðvitað var ekkert tillit tekið til hans í því efni.

Hv. þm. sagði, að ég hefði gefið í skyn, að en hefði fundið bókasafn menntaskólans. Ég hygg, að þetta séu nokkrar ýkjur hjá honum. En hitt er annað mál, að þetta laglega Lokasafn, sem skólanum var gefið fyrir 2 mannsöldrum, varð fyrir því, að við því tóku menn á svipuðu kúltúrstigi og hann, menn sem lokuðu því, létu það fyllast af ryki o. s. frv. Saga þess íhalds, sem tók við gjöfinni og ráðstafaði á þennan hátt, er lærdómsrík um þann blæ, sem verið hefir á því andlega lífi, sem hv. þm. er sprottinn upp úr og tilheyrir enn. Meðferð Íþöku hefir verið svo svívirðileg, svo skammarleg og ber vitni um svo mikinn ræfilsskap, að ég er hv. þm. þakklátur fyrir að hafa minnzt á þetta, svo að þessar umræður okkar á milli kæmust inn í þingtíðindin. Er það því seinheppilegt af hv. þm. að vera að halda fram því, sem hann gerði.

Þá var hv. þm. ekki heppnari með þjóðleikhúsið. Liggur fyrir ýtarleg skýrsla í einu dagblaðinu hér, þar sem sagt er frá öllum fundargerðum um þetta mál, og hefir Indriði Einarsson skrifað mér bréf, þar sem sagt er, að allt þetta sé rétt. Þetta bréf á ég enn. Samkvæmt þjóðleikhúsl. frá 1923 er ákveðið, að landið leggi leikhúsinu til ókeypis lóð á Arnarhólstúni. Í n. þeirri, sem um þetta fjallaði, voru þeir Indriði Einarsson, Jakob Möller og Einar Kvaran. Þessir menn réðu því, að Þjóðleikhúsið var sett þar, sem það nú er, þvert á móti mínum till., en ég hafði þá einungis ráðgefandi vald í málinu. En ég vildi, að húsið yrði reist á Skólavörðuhæð. Þeir færðu þær ástæður fyrir sínu máli, að lóðin væri gefin og að heppilegra væri að hafa húsið nálægt miðbænum. En húsið var sett þarna, sem það er, þvert á móti vilja mínum og húsameistara ríkisins.

Ég hefi bent á það, að Alþingi hefir með miklum meiri hl. atkv. samþ. að skora á ríkisstj. að hefja undirbúning að því, að reynt yrði að mynda torg framan við þjóðleikhúsið. Ef hv. þm. hefði nokkurt vit á skipulagi bæja, ef hann hefði t. d. séð Þrándheim, sem er allmiklu stærri bær en Rvík, myndi hann vera þessu samþykkur. Er svo litið af torgum hér í bæ, að hann ætti að vera okkur þakklátur, sem stöðum að þessari till. í fyrra. Það er víða gert, að hafa svona torg, þar sem það á við, enda borgar það sig jafnaðarlega, með því að lóðirnar kringum torgin verða dýrari, þegar fram í sækir. Ef hann vissi, hvernig Oslóbúar eru að skapa torg í kring um sitt ráðhús, myndi hann ekki vera með þetta háðsglott fáfræðinnar á vörum.

Hv. þm. segir um sjálfan sig, að hann hafi unnið í prófþraut. Ég fer ekki út í það mál. Sá, sem við hann keppti, var honum á allan hátt fremri, og ástæðan til, að Tryggvi Þórhallsson fekk ekki embættið, var sú, að einn maður í nefndinni hafði sérstaka öfund og óbeit á föður hans. En ef borinn er saman ferill þessara manna eftir 1917, er fljótséð, hvor þeirra ber þar hærra hlut, þó að öðrum þeirra hafi ekki enzt aldur á við hinn. (MJ: Ef hann væri enn á lífi, ætli hann fengi þá lof?). Ég býst við, að ég hafi sagt meira gott um hann en þessi hv. þm. Ég get sagt hv. þm. það, að hann getur leitað vel í annálum flokksklofninga hér á landi, án þess að finna, að meir hafi verið stillt í hóf deilum manna í millum en þá, er Bændaflokkurinn klofnaði frá Framsóknarflokknum. (MJ: Var það ekki Tryggvi Þórhallsson, sem fann einu sinni 70 lygar í einni grein hv. þm.?). Jú, að því er hann sagði, en ég lét hann ekki gjalda þess, þó að hann væri þar nokkuð seinheppinn, og þó að ég bæði hann að finna eina eða tvær, þá tókst það ekki. Það var svipað og afstaða hv. þm. gagnvart kennslumálarh. í vetur. (MJ: Nú, var hann þá svipaður?). Nei. ekki hv. þm., því að þeir hafa báðir gengið undir stór próf síðar í lífinu, þar sem orðið hefir ólík útkoma.

Þá er röksemd, sem þeir hafa heykzt á að svara, hv. þm. og kumpánar hans. Í haust sendu þeir Bjarna Benediktsson, dreng nýbakaðan, út með styrk frá háskólanum. En Þórður Eyjólfsson, sem allir vita, að hefir miklu meiri hæfileika, og hafði auk þess verið styrktur áður, mátti ekki koma til mála. Íhaldsklíkan sagði sem svo: við viljum hafa mann, sem er eins og við, utan og innan. Svo finna þeir Bjarna og kosta hann til Þýzkalands. Próf vildu þeir ekki hafa, því að þeir óttuðust Þórð Eyjólfsson. En þegar þeir geta ekki haldið Þórði burtu, þá taka þeir þennan dreng, sem hv. þm. getur kynnt sér hjá prófdómendum, hvernig hans próf gekk, og senda hann út með styrk frá háskólanum. Þeir þrjózkast við að hafa keppni um þetta. Þótt vitað væri, að fleiri sæktu. En þegar þeir eru svo búnir að kosta sinn kandidat, þá neitar auðvitað sá maður, sem til móts við hann var, að taka þátt í þessum skrípaleik, að ganga til einvígis, þar sem öðrum er fengin skammbyssa í hönd, en hinn á að vera vopnlaus. En nú reyndi á, hvernig þeir ættu að klára sig frammi fyrir landslýð öllum, og endirinn varð sá, að þeir láku niður eftir allar sínar samþykktir. Minnir frammistaða þeirra á hetju eina í Njálu, sem stundum var í félagi við Kára Sólmundarson.

Þá var hv. þm. mjög gleiðgosalegur yfir því, hve góðar árbækurnar væru. Hann sagðist hafa heyrt það sagt og jafnvel séð ritdóm, þar sem þetta væri fullyrt. Í Englandi er það máltæki, að enginn Íri sé svo fátækur, að hann hafi ekki annan í eftirdrægi, sem sé enn fátækari. Og ég get skilið, að til séu svo lítilfjörlegir menn, að þeir vitni í „Pál postula“, þó að ég hafi ekki heyrt getið nema einnar vinnukonu fyrir norðan, sem sagði upp úr svefni þau viðurkenningarorð, að Páll postuli væri svo ódýr, af því að hann væri gefinn út fyrir styrk úr sáttmálasjóði.

Annars held ég, að hv. þm. misskilji möguleikana fyrir því, að hér sé hægt að reka vísindastarfsemi. Heldur hann, að auðvelt sé með þjóð, sem er ekki nema 115 þús. að tölu, að reka vísindalegar rannsóknir í náttúrufræði, eða jafnvel lögfræði eða guðfræði, í samkeppni við háskóla stærri þjóða, þar sem allt er lagt upp í hendur vísindamönnum. Það er ekki annað en fjarstæða, að hér sé hægt að keppa við erlenda vísindamenn. Hv. þm. vitnaði í mann, sem varpar ljóma á okkar háskóla, Sigurð Nordal. En man hann, hvaða styrk Sigurður Nordal fékk frá háskólanum, þegar hann var í þann veginn að flæmast héðan? Hann fékk styrk alls Framsfl., alls Alþfl. og Ingibjargar Bjarnason og Ágústs Flygenrings frá Sjálfstfl. Ef sjálfstæðismenn hefðu mátt ráða, hefðu þeir flæmt hann héðan fyrir einar 2000 kr. Þeim þótti illt, að þingið skyldi vilja sýna þann stórhug, að gera honum fært að haldast hér við. Það er gott að fá þetta staðfest einu sinni enn í þingtíðindunum, hverja stórsýn Sjálfstfl. sýndi, þegar um það var að ræða að fella tillagið til Sigurðar Nordal. (MJ: væri ekki nær að launa prófessorana þannig, að þeir gætu lifað?). Ég vil minna á, að munur er á Jóni og séra Jóni. Ég álít, að því er hv. þm. snertir, að hann hafi nóg laun, miðað við præstationir hans í háskólanum. Ég get ekki sætt mig við, að laun hans við háskólann verði hækkuð, með tilliti til alls, sem hann dregur að sér þar fyrir utan. (MJ: Ég sé, að hv. þm. myndi vera með launahækkun prófessora yfirleitt). Ég væri því samþykkur, að laun yrðu hækkuð við 4–5 menn. (MJ: Framsóknarmennina?). Ég veit ekki, hvort nokkrir framsóknarmenn eru í prófessorsstöðum háskólans.

Þá minntist hv. þm. á tvo fræga vísindamenn, og var annar vinur minn Helgi Tómasson, en hinn Niels Dungal. Ég held ekki, að ég þurfi að argúmentera um vísindahæfileika Helga Tómassonar, því að ég hefi víst óafvitandi afsannað hans kvalifikationir, enda lifir hann nú nokkurskonar skuggalífi, og virðist honum vera orðið það ljóst sjálfum, að hann sé ekki mikill vísindamaður. En að því er hinn snertir, ætla ég að minna á síðasta vísindaafrek hans í sambandi við Deildartunguveikina, þegar hann sá sniglana skríða út og suður og fara í hausana á rollunum. eins og segir í skýrslunni í Mogga. Menn voru himinlifandi, sérstaklega þeir, sem trúa á Moggann. Maðurinn kemur á staðinn og sér þegar kvikindin og skrifar síðan um málið í Moggann. Málið lá ljóst fyrir; veikin er ekki smitandi, en ef féð gengur þröngt á beit, getur kvikindum þessum fjölgað, og er það slæmt, og því ráðleggur Mogginn Jóni í Deildartungu að hafa færra fé. Þetta er ein af 4 útgáfum kenninga Nielsar Dungals. Kenningar þessar leiddu til þess, að bændur urðu grandalausir og hirtu ekki um að einangra féð, en fóru heldur eftir kokkabókum þessa ljóss frá Háskóla Íslands. Öll ábyrgðin á mistökunum í sambandi við Deildartunguveikina hvílir á Niels Dungal og Morgunblaðinu fyrir að trúa á herfilegustu vitleysu. Niels Dungal þykist vita út og inn hluti, sem hann vissi alls ekki, og verður síðan að standa sem glópur frammi fyrir allri þjóðinni og viðurkenna, að hann viti ekkert. Þegar ríkisstj. ymprar á því við hann, að ástæða væri til að reyna að fá einhverja hjálp frá útlöndum, þá segir Dungal, nei, ég veit allt. Svo mikil var trúin orðin á þessum vísindahæfileikum Dungals, að þessu var látið fram fara. Svo verður hann þrí- eða fjórsaga frammi fyrir þjóðinni, og veikin heldur áfram að herja. Þá kemur landbrh. að máli við hann og segir, að þetta megi ekki lengur svo til ganga, það verði að fá úr því skorið annarsstaðar, hvort engin ráð séu til við þessu. Nú var ungur læknir, sem þingið hefir veitt styrk og unnið hefir hjá Dungal. Forsrh. sagði við hann: Viljið þér fara til London með sýkt lungu sem sýnishorn og reyna að fá mann þaðan hingað. En þegar Hermann Jónasson er búinn að tala um þetta við Guðmund Gíslason, þá kemur Dungal upp í stjórnarráð heldur lúpulegur og biður þess, að hann verði látinn fara til Lundúna. Og hann fær að fara. Allir, sem lesið hafa Moggann, vita þessa sorgarsögu. Dungal átti að útvega mann, sem gæti hjálpað. Hann finnur engan mann. Hann fær enga vitneskju um sjúkdóminn. Síðan hittir hann, í London eða Kaupmannahöfn, mann, sem honum lízt vel á, og er sá frá Suður-Afríku. Símar hann nú heim í Moggann þessi gleðitíðindi, sem er vel tekið þar og þakksamlega, og eru birtar fregnir um það, að nú sé Dungal að koma heim með góðan mann, og nú ætli þeir tveir að berjast sameiginlega gegn borgfirzku veikinni. Forsrh. heimilar, að maðurinn komi. Dungal kemur heim, birtist nú mynd í Morgunblaðinu og löng skrif um það, að Suðurafríkumaðurinn sé væntanlegur innan skamms. En sá, sem ekki kemur, er Suðurafríkumaðurinn, en sú, sem lætur sjá sig, er kona hans, sem hingað kemur eitthvað á vegum Dungals og býr hér á hóteli, og hún gerir aðra tegund vísindalegra athugana en að rannsaka Deildartunguveikina. Hún kemst að raun um það, að landið sé svo óbyggilegt og loftslag hér svo illt, að það nái engri átt, að hennar verri helmingur komi hingað, hann muni ekki þola loftslagið. Þannig var þessi eini aðdráttur Dungals sá versti, sem orðið gat, því að ef konan hefði ekki komið, þá hefði hann þó líklega getað slysazt til að draga manninn hingað. Dungal er hér enn, en ekki veit ég, hvort konan er farin.

Ég veit ekki, hversu mikla þakklátssemi ég á að láta í té við hæstv. forseta fyrir það, að hann hefir verið miskunnsamur við mig, eins og hv. 1. þm. Reykv., og leyft mér að ræða þetta mál svona ýtarlega. En sérstaklega er ég þakklátur hv. 1. þm. Reykv. fyrir það, að hann hefir gefið mér tækifæri til þess að upplýsa hér ýms mál viðvíkjandi Háskóla Íslands, sem hann hefir sjálfur bent á. Ég hefi fengið tækifæri til þess að gera upp mitt viðhorf til háskólans, en það er, að þar eru þó nokkrir dugandi menn, sem ástæða er til að hlynna að, enda hefir það tekizt, að því er suma snertir. Hinsvegar vona ég, að það standi ljóst fyrir eftir þessar lítilfjörlegu umræður okkar hér, að það mun ekki veita af því, að gera fyrst og fremst þessa breyt. á kosningu rektors til eins árs í stað þriggja, heldur líka aðrar mjög stórvægilegar breytingar, þangað til háskólinn verður eins og þjóðin þarf að hafa hann.