19.03.1937
Efri deild: 22. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í C-deild Alþingistíðinda. (2081)

66. mál, húsmæðrafræðsla

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Það er rétt, sem hv. flm. sagði í framsöguræðu sinni, að hér vantar alveg löggjöf um húsmæðrafræðslu, reglur um, að hve miklu leyti og hvernig ríkissjóður tekur þátt í kostnaðinum við slíka starfsemi og hvernig henni skuli hagað.

Ég er honum sammála um þetta, eins og ég álít líka, að það sé annað svið í sambandi við fræðslumálin, sem einnig vantar löggjöf um; það vantar heildarlöggjöf um styrk til iðnaðarmanna í landinu. Hvortveggja fræðslan fær ekki annan styrk frá því opinbera en það, sem veitt er til einstakra skóla á fjárlögum á hverju ári, en þetta á svo mikinn þátt í fræðslustarfsemi þjóðarinnar, að ég álít rétt, að um það sé sett sérstök löggjöf. En hinsvegar get ég ekki neitað því, að þetta frv. er mér nokkur vonbrigði í þessu efni. Það eru taldir upp sjö skólar, sem ætlazt er til, að verði viðurkenndir með lögum sem húsmæðrafræðsluskólar, og ennfremur þeir skólar, sem síðar kunna að verða stofnaðir, og skulu allir þessir skólar verða sjálfseignarstofnanir eða eign héraða og sýslufélaga til að geta öðlazt réttindi og skyldur laganna.

Eins og fram kom í ræðu hv. frsm., er gert ráð fyrir, að hér skuli einvörðungu vera um að ræða húsmæðrafræðslu í sveitum. Nú er það svo, að það er tæplega helmingur landsmanna, sem býr í sveitum, og það virðist ekki vera minni þörf á því, að hinn helmingurinn, sem býr í kaupstöðum og kauptúnum, fái að afla sér þekkingar í þessari fræðslu fyrir húsmæður. Að þessu þarf ekki að færa mörg rök; það liggur svo í augum uppi. En ég vil leyfa mér að beina því til þeirrar n., sem fær málið til meðferðar, að hún athugi þennan mjög svo stórfellda galla. Ég sé enga skynsamlega ástæðu til að gera fólki misjafnlega hátt undir höfði eftir því, hvort það á heima í sveit eða kaupstað. Ég veit, að sumir þessara skóla, sem hér eru nefndir, hafa áður verið starfræktir með styrk á fjárlögum, en það eru líka til aðrir skólar, sem veita kennslu í húsmæðrafræðslu og hafa verið á fjárlögum, eins og t. d. kvennaskólinn í Reykjavík, húsmæðraskólinn á Ísafirði og fleiri kaupstöðum, þótt ekki sé um beinlínis fastan húsmæðraskóla að ræða.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð við þessa umr. Ég vildi strax benda á þennan galla, og vona, að n. athugi þetta.