19.03.1937
Efri deild: 22. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í C-deild Alþingistíðinda. (2092)

69. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Hv. 2. þm. Rang. taldi höfuðgalla þessa frv. vera þann, að það væru sömu menn, sem það kæmi niður á, að greiða þessi gjöld, eins og þeir, sem greiddu nú útsvörin. Þetta er rétt, að það séu sömu mennirnir, en þess vegna eru tollar hafðir, í stað þess að taka öll gjöld með beinum sköttum, að þeir eru innheimtanlegri og menn vita yfirleitt minna af því að greiða þá. Hv. þm. sagði, að það væri vitanlegt, að í framtíðinni þyrftu gjöldin til hins opinbera að lækka. Ég get verið honum sammála um, að þjóðfélagið sé orðið nokkuð dýrt fyrir landsmenn og að það væri hin mesta nauðsyn á, að opinber gjöld gætu lækkað. En það er bara ekki nóg að segja, að gjöldin þurfi að lækka; það þarf að benda á leiðir til þess og framfylgja þeim, ef nokkuð á úr því að verða. Og mér sýnist stefnan í þjóðmálum ekki vera sú, að maður geti vænzt þess, að opinber gjöld lækki á næstu árum til mikilla muna. Ef það takmark á að næst, þá þarf þjóðin að vera einhuga og samtaka. Það næst aldrei með því, að haldið verði áfram á sömu braut og verið hefir, sem sé, að þótt þeir, sem í stjórnarmeirihluta eru á hverjum tíma, geri tilraunir til að lækka útgjöldin, þá komi andstæðingarnir alltaf með eitthvað nýtt, sem framkvæma þurfi, og heimti til þess framlög af opinberu fé, en á þessu hefir allt of mikið borið í okkar þjóðfélagi, bæði að því er snertir framlög ríkis og bæja. Með þessu er ég ekki að bera sakir á neinn sérstakan flokk. Það stendur svo á nú, að Sjálfstfl. er í stjórnarandstöðu, og hann gerir sig sekan um þetta bæði hér á þingi, á fundum og í blöðum sínum, en ég vil ekki halda því fram, að það kynni ekki alveg eins að vera með aðra flokka, ef þeir væru í stjórnarandstöðu, og innan bæjar- og sveitarfélaga er þetta sitt á hvað. Það er alveg sama, hver með völdin fer; alstaðar er krafizt af þeim, sem ekki bera fulla ábyrgð, og undan þeim kröfum og kröfum fólksins verður að láta. Hv. þm. taldi gamla fyrirkomulagið betra, að hafa glögg skipti á tekjum til ríkisins annarsvegar og bæjar- og sveitarfélaganna hinsvegar, og láta hina óbeinu skatta ganga til ríkisins, en hina beinu til bæjar- og sveitarfélaga. Þess vegna hélt hann þeirri stefnu fram, að ríkið ætti að hafa eftir sína beinu skatta, en ekki að vera að láta bæjar- og sveitarfélögin fá nokkurn hluta af tolltekjum sínum. Mér skildist hann vilja afnema tekjuskattinn, og þá kæmi hitt af sjálfu sér, sagði hann. Ég verð að viðurkenna, að það er nokkuð í þessari kenningu, enda þótt hún sé á engan hátt fullnægjandi. Það verður að taka það með í reikninginn, að það er svo ástatt í mörgum sveitarfélögum og bæjarfélögum, að tekjuskatturinn er svo sáralítill, að þótt hann fengi allur að ganga til hlutaðeigandi sveitarfélags, þá segði það ekki neitt; það væri sami dauðinn fyrir því. Nú mætti ef til vill segja, að ef þessi regla yrði upp tekin, þá yrði hvert bæjar- og sveitarfélag að bjarga sér sjálft, og það væri engin sanngirni eða ástæða til, að landsmenn færu að leggja á sig tolla til að hjálpa þeim. Og þetta mætti ef til vill til sanns vegar færa, ef þau gjöld, a. m. k. sum, væru ekki alþjóðleg gjöld, en svo er t. d. um fátækraframfærsluna. Mér er ómögulegt að sjá annað en að hún sé í eðli sínu alþjóðlegt mál. Hv. þm. spurði, hvaða kosti þetta fyrirkomulag hefði fram yfir það gamla. Kostirnir eru þessir, að gamla fyrirkomulagið nægir ekki. Hann talaði um það, að sér virtust skattar á ríkisstofnanir vera lágir eftir frv. Það má vel vera, að skynsamlegra væri að hækka þá eitthvað, og ég get látið mér detta í hug, að þeir bæir t. d., þar sem áfengisútsala er, fengju beinlínis tekjur af sölunni, t. d. eitthvert ákveðið gjald af hverri flösku. Þetta o. fl. skattar er náttúrlega atriði til athugunar í þeirri n., sem fær þetta frv. til meðferðar. En ég get samt sem áður ekki verið hv. þm. sammála um það, að rétt sé að bera þetta saman við verzlun einstakra manna, því að hér er yfirleitt um einkasölur að ræða, og það er vitanlegt, að ágóðinn af einkasölu er meiri heldur en af verzlun einstakra manna. Einkasölur eru settar á stofn til þess að hafa upp úr því fyrir ríkissjóð. Þar af leiðandi er sumt af ágóða einkasölunnar skattur og ekki sambærilegt við ágóða kaupmannsins að því leyti.

Ég get ekki farið að deila við hv. 4. þm. Reykv. um það, til hvaða n. þetta frv. eigi að ganga. Ég lagði til, að það yrði látið fara til allshn., sökum þess að það var þar í fyrra, og einnig sökum þess, að þrátt fyrir það, að ég treysti form. þeirrar n. miðlungi vel í þessu máli, þá treysti ég hinum, sem þar eiga sæti, mjög vel einmitt í þessu máli. (SÁÓ: En ekki fjhn?). Jú, líka, a. m. k. sjálfum mér. En ég geri þetta ekki að neinu kappsmáli; ég vil gjarnan taka við því í fjhn., ef d. óskar þess. Ég get ekki fallizt á það, sem þessi hv. þm. sagði, að hann frábæði sér ábyrgð á þeim drætti, sem orðið hefði á þessu máli í fyrra, og vildi kenna flokkunum um það. Flokkarnir fóru hver sína leið í málinu, og þeirra vegna hefði málið því getað gengið sinn gang.

Þessi sami hv. þm. taldi það helzt til ráða í þessu máli og benti á það sem úrlausn, að ríkið léti eitthvað af sínum tekjustofnum renna til bæjar- og sveitarfélaganna. Þetta væri ágætt ráð og málið auðleyst, ef gullpeningar streymdu í ríkissjóðinn. En ríkissjóður fær nú engar tekjur nema frá landsmönnum sjálfum, og ef hann ætti að verða af tekjum sínum og bæjar- og sveitarfélög að fá þær, þá býst ég við sama ágreiningi, þegar ætti að bæta ríkinu þessa tolla, eins og nú um það að skaffa bæjarfélögunum tekjur.

Hv. þm. sagðist vera mótfallinn stefnu minni eins og hún kemur fram í frv. Það er vitanlegt, að hans flokkur hefir alltaf verið tollum mótfallinn, þótt óhjákvæmilegt sé stundum að setja þá á. Annars vil ég benda á, að þótt frv. yrði samþ., mundi kaffi- og sykurtollurinn samtals verða mun lægri heldur en hann var, meðan gengisviðaukinn var; hann var 23%, en hér er aðeins um 15% að ræða.

Ég held satt að segja, að sá tollviðauki hafi ekki haft sjáanleg áhrif á afkomu manna, en það er samt betra, að vera laus við, að leggja þessi gjöld á, en ég sé þó ekki fram á, að hér sé um neitt stórvægilegt að ræða.