20.03.1937
Efri deild: 24. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í C-deild Alþingistíðinda. (2099)

69. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Magnús Jónsson:

Það eru aðeins örfá orð. Mér fannst hv. 1. þm. Eyf., jafnrökvís maður eins og hann er, ekki komast vel út úr því, þegar hann var að reyna að sýna fram á, að skv. frv. væri Reykjavík alveg eins vel sett eins og önnur bæjar- og sveitarfélög á landinu. Það má náttúrlega setja svona reglur og láta gilda jafnt yfir alla, en koma þessu þannig fyrir, að það snerti bara einn, og annan ekki. Ef litið er á tekjuöflunarleiðir frv., þá sér maður, að hlutfallslega langmestur hlutinn af þessum gjöldum er greiddur úr Reykjavík. Af hverju sem það er, því er það alkunnugt, þótt ekki sé farið eftir því, hvaða tollar séu innheimtir hér eingöngu, að verzlun er hér langmest, og af verðtolli þykist ég vita, að mjög mikið komi á Reykjavík og nokkra stærstu kaupstaðina, og a. m. k. er þetta ekki sambærilegt með stærstu kaupstaðina og sveitirnar. Sveitalífið er þannig, að það er fleira, sem menn hafa þar af sínum búum sér til viðurværis, og það er yfrleitt mikið meira, sem kaupstaðabúinn þarf að sækja í verzlanirnar, og reynslan er alstaðar sú, að því stærri sem bæirnir eru, því dýrara er að lifa þar; verzlunin verður örari, og menn láta meira út af peningum og hafa þá ef til vill möguleika til að afla meiri peninga. Af þessu leiðir það, að gjöld, sem lögð eru á verzlun, og ef til vill sérstaklega þau gjöld, sem lögð eru mest á dýrari muni, sem verzlað er með, leggjast alltaf mest á fjölmennari bæi. Þess vegna er enginn vafi á því, að tekjuöflun 1. gr. lendir hlutfallslega miklu meira á Reykjavík en öðrum kaupstöðum. Á hinn bóginn eru svo aftur tekjur, sem þannig er aflað, að þær koma að nokkru leyti jafnmikið til Reykjavíkur og annara staða, og renna að nokkru leyti í sjóð, sem þannig er umbúið, að það er ekki gert ráð fyrir, að Reykjavík muni njóta hans, a. m. k. sennilega ekki í náinni framtíð, og ég get tekið undir með hv. flm. og sagt, „vonandi ekki í bráð“, þótt ég skuli ekki segja, hversu fljótvirkar allar þær „maskínur“ eru, sem stjórnarfl. hafa í fullum gangi til þess að koma Reykjavík á kné. Um tekjuöflun 11. gr. er ekki að ræða. Það er vitanlegt, að svo og svo mikið af þeirri starfsemi, sem fram fer við síldarverksmiðjurnar, er af völdum Reykjavíkur og manna hingað og þangað af landinu, en þær tekjur renna eingöngu í örfáa bæjarsjóði. Að því er snertir tekjuöflun 10. gr. er það svo, að langtekjuhæsta verzlunin, vínverzlunin, er að langmestu leyti kostuð af þeim stöðum, þar sem útsölur eru, og það er mikið bol fyrir Reykjavík, hvað hún ber mikið af þessum skatti, og þessar 100 þús. kr., sem þarna eru áætlaðar, eru ekki hátt áætlaðar eftir seinasta landsreikningi. Mér finnst þess vegna, að þetta fagra og slétta yfirborð, þar sem enginn munur er gerður á landsins börnum, sé í raun og veru lítið annað en sauðargæra yfir eitthvað annað, sem þarna er undir. Það má náttúrlega búa til frv., þar sem lagt er á alla jafnt, það mætti t. d. leggja skatt á sauðfjáreign manna til sjávar og sveita, og úthluta svo jafnt eftir smálestatölu skipa á öllu landinu. Það mætti standa upp með helgisvip, eins og hv. 1. þm. Eyf., og segja, að enginn munur sé gerður á, allir eigi að borga þetta jafnt og allir eigi að fá það jafnt, hvar sem þeir eru á landinu, en því er hagað svo lævíslega, að einn borgar og annar fær. Ég er ekki að segja, að þetta sé svona, ég tók þetta grófa dæmi til að sýna, hve langt má fara með fögrum orðum til þess að ná ákveðnum tilgangi. Og þetta frv. stefnir í þessa átt, þó að það sé ekki eins gróft útfært og í þessu dæmi. — Svo get ég ómögulega fallizt á, að það sé heppileg vinnuaðferð, ef bæði þau frv., sem um þetta fjalla, verða afgr., svo að til verði tvenn lög um þetta. Ég vil skjóta því til hv. nefndar, hvort hún vildi ekki tala sig saman um þessi tvö mál, ég er alveg sammála hv. flm. um ákveðið um jöfnunarsjóðinn og nokkra af tekjustofnunum líka, svo að ég held, að það þyrfti að steypa frv. saman.

Hv. þm. sagði, að Reykjavík mætti vel við una að þurfa ekki á því að halda að fá fé úr verðjöfnunarsjóði. Ég játa, að það getur verið rétt, en hv. þm. veit, að það er ekki hægt að verja þetta á þeim grundvelli, að það sé til hagsmuna fyrir Reykjavík. (BSt: Hún þarfnast réttar eins og aðrir). Ég skal ekki fara út í það, hvort Reykjavík hafi mikinn fjárhagslegan hagnað af að vera í bandalagi við ríkið. Ef það er skoðað frá sjónarmiði bæjarsjóðs og ríkissjóðs, þá er það dæmi nokkuð ljóst. Ef Reykjavík væri laus við þau gjöld, sem hún hefir af öðrum hlutum landsins, þá væri hægt að lifa hér sældarlífi, og allir hefðu nóg að gera. (BSt: Því er þá Seltjarnarnesið ekki sérstakt ríki?) Ef litið er á það frá sjónarmiði opinberra sjóða, þá yrði það fyrirtaks ríki, en þá yrði að gera ráðstafanir til að banna mönnum að flytja þangað, því að landsmenn mundu streyma þangað, og ég vona, að hv. þm., sem er höfundur hugmyndarinnar um byggðaleyfi, taki vel í það, ef fram koma till. um, að einhver slík ákvæði þurfi að setja, einmitt vegna þess, að hér hefir safnazt of mikið fólk. Ef miða á við þær stofnanir, sem Reykjavík hefir, eins og aðrar höfuðborgir, þá mætti athuga það víðar á landinu. Ég býst t. d. við, að Siglufjörður, sem séð er sérstaklega vel fyrir með þessu frv., hafi útsvör af mönnum, sem starfa þar við ríkisfyrirtæki.

Ég vil svo að lokum ítreka það, sem ég hefi sagt, að hv. n. athugi frv. hv. Nd. ásamt þessu, því að ég tel nauðsynlegt að greiða úr þessu máli.