16.02.1937
Efri deild: 2. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í B-deild Alþingistíðinda. (21)

Kosning fastanefnda

*Þorsteinn Briem:

Það hefir oft komið fyrir, að fjölgað hefir verið í einstökum nefndum hér í hv. Ed. með tilliti til þess að allir flokkar, sem sæti eiga í deildinni, gætu átt fulltrúa í þeim nefndum.

Þetta var gert árið 1934, að ég ætla, að því er snertir landbn. Þá var ákveðið að hafa 5 menn í þeirri n. með tilliti til þessa, og síðan hefir d. ákveðið að hafa 5 menn í allshn. af hinni sömu ástæðu. Ég vil því leyfa mér að beina þeim tilmælum til hæstv. forseta, hvort hann vildi ekki leita álits þingflokkanna um það, hvort þeir vildu fallast á, að þessi háttur yrði nú á hafður, með tilliti til þess, að þeim flokkum, sem sæti eiga í d., gæfist kostur á að eiga fulltrúa í þessum tveimur n., landbn. og allshn.

Vænti ég, að hæstv. forseti verði við þessum tilmælum mínum.