09.04.1937
Efri deild: 35. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í C-deild Alþingistíðinda. (2120)

71. mál, búfjársjúkdómar

*Frsm. (Páll Hermannsson):

Mér þykir leitt að samnm. minn skuli ekki hafa haft tækifæri til þess að ræða við okkur um þetta í n., því að þá hefði hann staðið betur að vígi hér til að svara fyrir sig. — Hann spurði, á hvaða upphæð það mundi velta, sem hreppstjórum væri ætlað að fá fyrir vinnu þeirra að þessum skýrslusöfnunum? Ég get alls ekki gizkað á, hvað sjúkdómarnir verða miklir á hverju ári. En ef um slíkt væri að ræða, að sjúkdómarnir möguðust, mundi Alþingi láta það máli skipta. Eins og búfjárheilsunni er nú komið, ætti ríkisstjórninni að vera heimilt að leggja fram nokkurt fé til rannsókna og ráðstafana gegn búfjársjúkdómunum, og það mætti framkvæma með bráðabirgðalögum. Ég veit, að hv. 4. landsk. hefir ekki haldið, að ég færi að leggja það niður í krónutölum, sem hreppstjórarnir fá fyrir skýrslusafnanir, og læt ég það vera nægilegt svar til hans.