19.03.1937
Neðri deild: 22. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

21. mál, meðferð einkamála í héraði

*Frsm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Eins og hv. dm. muna, var á síðasta þingi afgr. allstór lagabálkur um meðferð einkamála í héraði. Það kom í ljós, þegar lög þessi komu til framkvæmda um síðastl. áramót, að ekki voru í þeim nægilega skýr ákvæði um rétt manna til innheimtu á víxlum í samræmi við það, sem áður gilti um varnarþing í þeim málum. Það þótti því rétt að gefa út þau bráðabirgðalög, sem hér eru nú til umr., til leiðréttingar á því máli.

Allshn. þessarar hv. d. hefir athugað þessi bráðabirgðalög og hefir fallizt á röksemdir þær, sem fyrir þeim eru fluttar, og telur eðlilegt, að þau nái samþykki Alþingis. En um leið leggur n. til, að samþ. verði á l. um meðferð einkamála í héraði lítilsháttar leiðrétting, því að í meðferð málsins á síðasta þingi hefir af misgáningi verið felld niður ein málsgrein í 27. gr. l. í sambandi við brtt., sem þá var borin fram hér í hv. d., og leggur n. til, að hún verði nú tekin upp í lögin aftur, þar sem hana vantar til þess að það verði nógu skýr ákvæði um greiðslu kostnaðar við sáttaumleitanir í héraði. Þá breyt. eina leggjum við til að gera á frv., sem hér liggur fyrir.

Ég vil leyfa mér að geta þess, að þessi lög, sem aðeins hafa verið framkvæmd 2½ mánuð, valda mikilli breyt., að mínu áliti til bóta, á meðferð einkamála í héraði. Þó að ekki hafi verið flutt mörg mál hér í Reykjavík, þar sem annars yfirleitt eru flutt flest mál, á þessu tímabili, þá ætla ég, að það megi fullyrða, að komið hafi í ljós, og um það séu ásáttir málaflutningsmenn og dómarar, miklar umbætur á þessu sviði. T. d. get ég nefnt eitt mál, sem ég hefi haft með höndum og afgr. var á þrem vikum. Eftir þeirri reynslu, sem fengizt hafði um skriflega málaflutninginn um margra ára skeið, þori ég að fullyrða, að afgreiðsla þess hefði tekið eins marga mánuði a. m. k. eins og það tók nú margar vikur að fá dóm undirréttar í málinu. Það ætla ég, að valdi mestu gagni í sambandi við þessi nýju réttarfarslög, hvað málin ganga fljótar fyrir sig með munnlega málaflutningnum. Hinsvegar geng ég þess ekki dulinn, þó við í allshn. flytjum ekki fleiri breyt. að þessu sinni, að það mun koma í ljós við frekari reynslu á þessum nýju lögum, að þau þurfa ýmsra breyt. við fljótlega, eins og alltaf þegar leidd er í lög ný skipun á flutningi mála. En þar sem svo stutt reynsla er fengin, teljum við ekki rétt að koma fram með fleiri breyt. nú. Í því sambandi má geta þess, að síðan Danir fengu sína nýju réttarfarslöggjöf fyrir rúmum 20 árum, hafa margvíslegar breyt. verið gerðar á henni. Margar nefndir hafa starfað að því að gera á henni þær endurbætur, sem reynslan sýndi smátt og smátt nauðsynlegar.

Ég taldi rétt, eins og málið liggur nú fyrir, að láta þessa skoðun mína koma fram, að ég geri ráð fyrir, að fleiri breyt. þurfi að gera á þessum lagabálki, þegar meiri reynsla er fengin.

Að lokum vil ég geta þess, að mér virðist í 1. gr. hins upphaflega frv., sem samkv. brtt. n. verður 2. gr., ekki vera komizt eins skemmtilega að orði og skyldi, þar sem í niðurlagi gr. stendur: „… og má þá mál höfða á varnarþingi innheimtumanns, ef hann er banki eða sparisjóður eða hann hefir skuldheimtu að atvinnu sinni.“ Þó segja mætti á lagamáli, að banki sé júridisk persóna, þá er það nokkuð óvenjulega til orða tekið að nefna banka mann.

Ég geri því ráð fyrir, að við 3. umr. komi fram brtt. um að orða gr. á dálítið skemmtilegri hátt. Þó hitt geti gengið, er viðfelldnara að færa efnið í dálítið annan málfarsbúning. Þar sem n. athugaði þetta ekki fyrr en nú, þótti ekki ástæða til að tefja þessa umr. með því að bera fram brtt. að því er þetta atriði snertir, en það verður væntanlega gert við 3. umr.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál, en vænti, að frv. verði samþ. til 3. umr. með þeirri leiðréttingu, sem allshn. leggur til, að bætt verði við það og ég hefi áður skýrt frá.