24.03.1937
Efri deild: 27. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í C-deild Alþingistíðinda. (2170)

96. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Bæði hæstv. atvmrh. og hv. þm. N.-Ísf. hafa gert aths. út af þeirri ræðu, sem ég flutti. En það lítur út fyrir, að þeir hafi ekki treyst sér vel til þess að mæla móti þeim rökum, sem ég bar fram, sökum þess að báðir hafa lagt mér orð í munn, sem ég hefi ekki talað og svo lagt út af þeim.

Út af því, sem hæstv. atvmrh. sagði um tildrögin að því, að bráðabirgðal. voru sett, þá skal ég taka það fram, að það er rétt, að ráð var fyrir því gert í fyrra, að stjórn verksmiðjanna kynni að segja af sér út úr því ósamkomulagi, sem þar ríkti, og Framsfl. fellst á, ef þeir atburðir kæmu fyrir, að þá yrði slík bráðabirgðal. sett. En hæstv. ráðh. mun minnast þess, að þá var jafnframt tilskilið um framkvæmdina, að stj. yrði skipuð þannig, að það yrði sinn maður frá hverjum flokki. Þetta var ekki gert af þeim ástæðum, sem ég er búinn að tilgreina. En vegna þess að þetta var ekki gert, þá er stjórn verksmiðjanna nú skipuð með öðrum hætti heldur en Framsfl. ætlaðist til.

Ræða hæstv. ráðh. gekk út á það, að svo miklu leyti, sem hann svaraði mér, að mótmæla þeirri skoðun, sem hann taldi, að hefði komið fram hjá mér, að samkv. þessu frv. yrði stjórn síldarverksmiðjanna ópólitísk. En ég hélt þessu aldrei fram. Ég hélt því aldrei fram, að pólitík kæmi ekki til greina. Mér er það vel ljóst, að ef stjórnmálaflokkarnir eiga að kjósa 9 menn í verksmiðjuráð, þá mun sú kosning fara fram eftir pólitískum línum. En ég hélt því fram, að með þessu næðist það, að ekki yrði aðeins eitt sjónarmið ráðandi. Pólitísk aðstaða yrði ekki eina sjónarmiðið, sízt þegar að því kæmi, að velja verksmiðjustjórnina sjálfa. Ég tel víst, að flokkarnir kjósi í verksmiðjuráðið menn, sem sérstaklega eru kunnugir síldarútgerð og þeim öðrum störfum, sem að þessu lúta. Mér finnst fullkomin ástæða til að vænta þess, að þegar þeir kjósa í verksmiðjustjórnina, þá verði pólitísk aðstaða ekki eina sjónarmiðið, þótt ég efist ekki um, að pólitísk sjónarmið koma þar einnig til greina.

Þá minntist hann á, að þetta mundi verða þunglamalegt og að allmikill kostnaður myndi stafa af því, að taka þetta skipulag upp. Eins og ég vék að í fyrri ræðu minni, þá þarf ekki að gera ráð fyrir auknum kostnaði frá fyrri l., þar sem 5 menn voru í stjórn, sérstaklega ef það gæti haldizt, sem hér er lagt til, að fulltrúar í verksmiðjuráði verði það kauplaust. — Ég skal ekki leggja dóm á það, hvort líkur eru til, ef ráðh. skipar stjórn fyrirtækis, að þá sé hún ópólitískari heldur en ef þingið kysi hana. Það má vel vera, að svo sé. En það er mikill munur á því, þótt stjórn fyrirtækis sé kosin pólitískt, hvort hún er kosin einhliða pólitískt eða jafnréttis er gætt.

Það er mesti misskilningur hjá hv. þm. N.Ísf., að ég hafi verið að kenna Sjálfstfl. um þá illu stjórn, sem nú væri á verksmiðjunum. Ég var ekkert sérstaklega að tala um illa stjórn. Ég var að kenna Sjálfstfl. um það, að hann hefði ekki valið fulltrúa í stjórnina. Það var það, sem ég var að tala um. Þess vegna er allt ráð, sem hv. þm. sagði þessu viðvíkjandi, fallið um sjálft sig. Hvort stj. hefði orðið beinlínis betri með því að sjálfstæðismaður hefði átt sæti í henni, skal ég ekki leggja dóm á. Ég tel víst, að hún hefði haft meiri tiltrú hjá sjálfstæðismönnum heldur en hún hefir nú. Útgerðarmenn eru flestir í Sjálfstfl., og það er nauðsynlegt, að þeir hafi tiltrú til stj. þessa fyrirtækis, og þess vegna nauðsynlegt, að sjálfstæðismaður eigi sæti í stjórninni.

Hæstv. ráðh. fannst það óskiljanlegt, hvers vegna lagt væri til, að S. Í. S. skipaði einn af þessum 3 mönnum, sem gert er ráð fyrir, að tilnefndir séu utan þings. Ég verð að líta svo á, að ef þessi skipun verður á gerð, sem frv. fer fram á, þá muni Fiskifélagið tilnefna mann með sérstöku tilliti til útgerðarmanna og Alþýðusambandið með tilliti til sjómanna og verkamanna. En það er vitanlegt, að í S. Í. S. eru menn af öllum stéttum og flokkum í landinu; það er þess vegna valið sem sú stofnun, sem bezt sé til þess fallin, að tilnefna mann, sem ekki hafi einhliða hagsmuna að gæta í þessu efni og gæti verið jafnvægi milli hinna tveggja. Við höfum ekki komið auga á stofnun í landinu eða aðilja, sem betur væri til þess fallinn, að tilnefna mann frá þessu sjónarmiði.

Ég þarf ekki að svara því, sem hv. þm. N.-Ísf. sagði um þingræðisreglur. Hann taldi, að þær hefðu verið brotnar með setningu þessara bráðabirgðal. Það er hæstv. ráðh. að svara því. En mig minnir, að það standi í stjskr., að konungur geti gefið út bráðabirgðal. milli þinga, og ekkert sé um, að það þurfi að vera liðinn ákveðinn tími frá því, að þingi sleit. Ég held, að flest þingræðislönd hafi í sínum stjskr. ákvæði um, að setja megi bráðabirgðal., og ég sé ekki, að hér hafi neitt skeð annað en það, sem oft hefir áður skeð. Það er næsta þings í hvert skipti, að skera úr um það, hvort bráðabirgðal. eigi að gilda áfram eða ekki. Ef þau eru ekki samþ. á næsta þingi, þá falla þau. Hvort þm. voru komnir heim eða ekki, þegar lögin voru gefin út, skiptir ekki máli. Jafnvel þótt allir þm. séu staddir í bænum, þá er ekki hægt að halda þing, þegar búið er að slíta því.

Þá talaði hv. þm. um, að jafnréttið væri ekki aðalatriðið fyrir mér, vegna þess að ég gleymdi Bændafl. Ég þykist ekki hafa sýnt Bændafl. ranglæti með því að bera fram þetta frv. Þar er stungið upp á því, að allfjölmenn n. sé kosin með hlutfallskosningu í Sþ., og ef flokkurinn hefir atkvæðamagn til þess að koma manni í n., þá gerir hann það. Til þess að Bændafl. kæmi til greina, þyrfti að vera 25 manna ráð. Ég held, að það verði erfitt að koma því svo fyrir, að flokkur, sem aðeins telur 2 þm., geti allsstaðar verið með. Annars gerir það ekki til, hvað hv. þm. N.-Ísf. segir um þetta, því að þótt ég sé hér að halda fram rétti Sjálfstfl., vegna þess, hvernig málið horfir við núna, þá er það ekki fyrir það, að ég búist við neinu þakklæti úr þeirri átt. Ég skal játa, að það er ekki vegna Sjálfstfl. nú í dag, sem ég er að þessu, heldur vegna framtíðarinnar. Það gæti komið fyrir hvaða flokk sem er samskonar aðstaða til málsins og Sjálfstfl. hefir nú, og það er þess vegna, að við leggjum þetta til. Það er til þess að gera rétt. Það vill svo til núna, að Sjálfstfl. nýtur þess, ef rétt er gert, en vitanlega er þetta gert fyrir framtíðina og fyrir hvern þann flokk, sem eins kynni að standa á um. Ég vil því alveg mótmæla því, að tilgangur okkar sé ekki sá, að skapa jafnrétti með þessu.

Ég ætla svo ekki að fara frekar út í þetta mál núna, til þess, ef mögulegt væri, að það kæmist til n. á þessum fundi, því að annars verður það ekki fyrir páskahelgina.