24.03.1937
Efri deild: 27. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í C-deild Alþingistíðinda. (2171)

96. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Hv. þm. N.-Ísf. taldi, að setning bráðabirgðal. hefði verið brot á öllum þingræðisreglum, sérstaklega vegna þess, að því er mér skildist, að svo skammt var liðið frá því, að þingi sleit, þegar l. voru gefin út. Ég svaraði þessu í Nd., þegar þetta frv. var þar til 1. umr., og ég get gefið sömu andsvör hér. Það skiptir í sjálfu sér engu máli snertandi útgáfu bráðabirgðal., hvort þau eru gefin út skömmu eða löngu eftir þingslit. Það eina, sem máli skiptir, er, hvort ástand það, sem varð til þess, að l. voru gefin út, er í samræmi við þá gr. stjskr., sem um þetta fjallar. Svo stóð á, þegar l. voru gefin út, að 2 af 5 stjórnendum síldarverksmiðjanna höfðu lagt niður störf sín. Eftir l. áttu þeir að vera 5, en þingi var slitið, svo að ekki var hægt að kjósa nýja menn. Nú var tvennt til, annaðhvort að ráðh. gæfi út l. um að skipa menn til viðbótar eða skipa stjórnina á ný, og það var gert, En hvorttveggia var jafnþingræðislegt. Ástæðan til þess, að ég fór þá leið, að skipa 3 nýja menn, var sú, að ég taldi, að með því væri betur tryggð samvinnan í stjórninni en ella mundi. Ég hafði að sjálfsögðu kynnt mér, áður en l. voru gefin út, að nægilegur þingmeirihluti væri fyrir hendi. Ef ég hefði ekki gert það, þá hefði ég beinlínis brugðizt skyldu minni sem ráðh. Þegar slíkt tilfelli kemur fyrir, þá verður ráðh. að leysa það á þann hátt, sem gerlegast er. Þetta var gert og á þennan hátt, og er það fullkomlega í samræmi við lög og reglur og anda þingræðisins. — Hitt geta menn svo verið með hugleiðingar um, en það kemur ekki þessu máli við, hvort flokkarnir hefðu getað verið búnir á þinginu að gera breytingar á l., svo að ekki hefði til þessa komið. En það er ekki ástæða til þess að ræða um það í þessu sambandi.

Hv. 1. þm. Eyf. taldi, að ég hefði annaðhvort rangfært eða misskilið orð sín, þar sem ég sagði, að tilgangurinn að hans dómi með frv. væri sá, að girða fyrir það, að pólitísk sjónarmið væru jafnmikils ráðandi í stjórn verksmiðjanna eftir þessu frv. eins og þeim málum nú er skipað. Ég vil ekki meðganga, að ég hafi á nokkurn hátt rangfært orð hans. Það stendur í grg. frv., og ég skal lesa það upp með leyfi hæstv. forseta, svo að ekki þurfi um það að karpa:

„Á hinn bóginn verður þó að varast, að pólitísk sjónarmið séu yfirgnæfandi í stjórn verksmiðjanna. Atvinnureksturinn og heill og þrif fyrirtækisins er alalatriðið.

Með þessu frv. er reynt að ná því tvennu, að stjórnmálaflokkarnir njóti jafnréttis um val manna í stjórn síldarverksmiðjanna, en draga þó jafnframt úr því, að valið sé í stjórnina með pólitíska hagsmuni fyrir augum.“

Nú taldi hv. 1. þm. Eyf. í sinni ræðu, að með því fyrirkomulagi, sem nú er, væri hætt við, að pólitísk sjónarmið yrðu of mikils ráðandi, en með því frv., sem hann leggur fram, þá verði hættan minni. Ég verð eins og ég sagði áðan, að halda því fram, að ef þetta hefir verið tilgangurinn, þá hefir það mistekizt. Það er enginn vafi á því, að mannavalið verður beinlínis pólitískara í gegnum kosningu þingflokkanna heldur en í gegnum skipun ábyrgs ráðh., hver svo sem hann er. — Þar sem hann talaði um, að verksmiðjustjórnin væri of einhliða, þá hefir hann sjálfur skýrt, hvers vegna svo er. Það er kunnugt, að leitað var eftir því, að ákveðnir sjálfstæðismenn fengjust til þess að taka þátt í stjórn verksmiðjanna, en því var neitað. Ég vil mótmæla því, þótt svo hafi farið um skipun stjórnarinnar, að þá hafi þess í nokkru gætt. A. m. k. hefir flokkur hv. þm. ekki ástæðu til þess að kvarta undan neinu, því að það er maður frá hans flokki í stj. Hann sagði, að það stoðaði lítið, þótt hans flokkur, Framsfl., ætti mann í stjórn, því að ef hinir væru sammála, þá væri hann áhrifalaus. Ég veit ekki betur en það hafi verið hin bezta samvinna við fulltrúa Framsfl. á liðnu ári. Mér er ekki kunnugt um, að ágreiningur hafi verið innan stj. í neinu mikilvægu máli. — Ég vil ennfremur geta þess í sambandi við tortryggni þá, sem hann kvartaði undan, að væri ríkjandi í garð verksmiðjustjórnarinnar, sérstaklega á Siglufirði, að ég hefi ástæðu til að halda, ef þetta er sagt, að þá sé það fullkomið ranghermi. Ég hefi enga vitneskju um það fengið. Mér er þvert á móti kunnugt um, að sambúðin milli verksmiðjustjórnarinnar og verkamanna yfirleitt á Siglufirði hefir verið betri á síðasta ári heldur en undanfarið. Tölur sýna, að afkoma verksmiðunnar hefir batnað stórum í ár, og ekki bendir það til þess, að neinir erfiðleikar séu í sambandi við stj. hennar, enda er það svo, að þó að 3 flokkar ættu þar fulltrúa, þ. e. a. s. þessir 3 stjórnendur væru sinn úr hverjum flokki, þá er það alveg víst, að séu 2 þessara manna sammála, þá getur þriðji fulltrúinn ekki komið fram sínu máli. Ef t. d. fulltrúar Framsfl. og Alþfl. eru sammála, þá verður fulltrúi sjálfstæðismanna áhrifalaus, og séu hinsvegar fulltrúar Framsfl. og Sjálfstfl. sammála, þá verður vitanlega fulltrúi Alþfl. áhrifalaus. Það er aldrei hægt að fyrirbyggja það í nokkurri stj., að minni hl. hennar geti ekki komið fram sínum málum, enda væri það óeðlilegt.

Hv. þm. sagði, að ástæðan til þess, að S. Í. S. væri ætlað að tilnefna mann í ráðið, væri sú, að í Sambandinu væru menn af öllum flokkum og stéttum. Ég skal ekki mæla því í gegn, þótt hann segði, að maðurinn, sem Sambandið tilnefndi, yrði af ákveðnum flokki. En svona mun það vera með flest félög hér á landi, t. d. Slysavarnafél., stúkur, Búnaðarfélagið og svo mætti lengi telja. Þar eru menn af öllum flokkum og stéttum, og er þá vitanlega allt undir því komið, hverjir með völdin fara.

Ég hjó eftir því í fyrri ræðu hv. þm., að hann talaði um, að fordæmið um skipun slíks ráðs og þessa væri gefið með ákvæðunum í landsbankal. um landsbankanefndarmennina. Ég vil spyrja hv. þm., hvort hann hafi þá skoðun á landsbankanefndarmönnunum, að þeir hafi sýnt í starfi sínu fyrir bankann þann dugnað og atorku, að nein sérstök ástæða sé til þess að fitja upp á fleiri slíkum? Þeir hafa ekki verið áhrifaríkari en svo, að þeir hafa engin afskipti haft af neinum málum að öðru leyti en því, að undirskrifa bankareikningana og kjósa í bankaráð. En hinsvegar hafa þeir engin afskipti haft af rekstri bankans.

Ég skal svo láta þessar umr. falla niður af minni hendi, og set ég mig ekkert á móti því, að málið fari í n., þótt ég sé andvígur því, að það gangi fram.