05.04.1937
Efri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í C-deild Alþingistíðinda. (2176)

96. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Jón Auðunn Jónsson:

Ég er sammála hv. frsm. meiri hl. um brtt. þær, sem við berum sameiginlega fram á þskj. 194, og um grundvöll frv. sjálfs, tilraunina til þess að reyna að skapa ró um þessi fyrirtæki. Um verksmiðjuráðið verð ég að segja það, að mér finnst það of fjölmennt, jafnvel þó að það sé ekki skipað nema 9 mönnum, eins og ég legg til að verði. Þá finnst mér það og galli á frv., að 3 af þessum 12 mönnum, sem skipa eiga ráðið, skuli eiga að tilnefna af vissum aðiljum, en þó skuli eiga að útiloka frá því þá aðiljana, sem þetta síldarverksmiðjumál skiptir mestu, en það eru sjómennirnir og útgerðarmennirnir, því að Fiskifélagið getur að sjálfsögðu ekki talizt „representant“ við útnefningu í verksmiðjuráðið fyrir þá. Eigi að taka tillit til þeirra og gefa þeim kost á að hafa einhver áhrif á skipun stjórnar síldarverksmiðjanna, verður að sjálfsögðu að lofa þeim að velja í verksmiðjuráðið að einhverju leyti a. m. k. Náist ekki samkomulag um það, að þessir aðiljar, sem leggja til efnið í framleiðslu verksmiðjanna, fái að hafa einhverja íhlutun um stjórn þeirra, þá tel ég ekki rétt eða sanngjarnt, að hinir 3 aðiljar, sem í frv. eru taldir og ekki geta talizt umboðsmenn sjómanna eða útgerðarmanna, fái íhlutun um stjórn fyrirtækjanna. Hv. flm. vildi halda því fram, að það væri ekki nema sanngjarnt, að S. Í. S. tilnefndi einn mann í verksmiðjuráðið, af því að þetta mál snerti svo marga meðlimi þess. Við þessu er það að segja, að enda þótt svo sé, að eitthvað af sjómönnum og útgerðarmönnum geti talizt til meðlima S. Í. S., þá er það svo lítið, að það er aðeins örlítill hluti þeirra, sem hér eiga hlut að máli. Eins og ég þegar hefi tekið fram, þá tel ég að verksmiðjuráðið sé of fjölmennt eins og frv. ætlast til, en hins vegar get ég vel gengið inn á það, að verksmiðjuráð skipað 9 eða jafnvel ekki nema í mönnum, kosnum af sameinuðu Alþingi eða að einhverju leyti tilnefndum af útgerðarmönnum og sjómönnum, sem hér eiga hlut að máli, geti orðið til þess að skapa meiri ró um þessi fyrirtæki en verið hefir. Hlutverk þess á m. a. að vera það, að jafna deilur, sem upp kunna að koma á milli verksmiðjustj. og þeirra, sem leggja til verkefnið handa verksmiðjunum, sjómannanna og útgerðarmannanna.