05.04.1937
Efri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í C-deild Alþingistíðinda. (2178)

96. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Bernharð Stefánsson:

Hv. síðasta ræðumanni hefir tekizt að koma flestum út úr d., svo að það er nú kannske þýðingarlítið að ræða um málið. Ég skal reyna að vera ekki langorður, því að ég vildi gjarnan, að málinu gæti orðið lokið á venjulegum fundartíma. — Ég get ekki látið hjá líða, þar sem ég er flm. málsins, að þakka n. fyrir skjóta og meiri hl. hennar fyrir góða afgreiðslu þess að mínu áliti.

Ég skal þá sem flm. aðeins geta um þær brtt., sem fram hafa komið, og vil þá fyrst minnast á brtt. meiri hl. n. á þski. 194.

Ég ætla, að tvær fyrstu till. séu til bóta og mun fallast á þær. Hvað þriðju brtt. snertir, sem er um það, að atvmrh. í staðinn fyrir fjmrh. skeri úr, þegar ágreiningur er milli verksmiðjustj. og verksmiðjuráðs um síldarverðið, vil ég segja það, að við flm. frv. settum þarna fjmrh. af þeim ástæðum, að þegar það er ákveðið, hvaða verði hráefnið sé keyrt, þá er það vitanlega á ábyrgð ríkissjóðs. Það er ríkissjóður, sem blæðir, ef verðið er ákveðið svo hátt, að halli verður á öllu saman.

Okkur fannst það eðlilegt, að fullnaðarúrskurður í því máli heyrði undir fjmrh., þann ráðh., sem á sérstaklega að hugsa um ríkissjóðinn. Á hinn bóginn sé ég ekki ástæðu til að gera mótstöðu gegn þessari till. að neinu kappsmáli og get látið mér það lynda, þó að hún verði samþ., ekki sízt þar sem hinar till. meiri hl. eru frekar til bóta á frv.

Þá skal ég minnast á brtt. hv. þm. 1: Ísf. á þskj. 189. Þær eru um það að fækka í verksmiðjuráðinu um 3 menn og að þar eigi ekki aðrir sæti en þeir þingkosnu, sem eiga að vera 9. við 1. umr. málsins gerði ég nokkra grein fyrir ástæðunni til þess, að við flm. lögðum til, að þessir 3 menn ættu einnig sæti í ráðinu; auk þess hefir frsm. meiri hl. tekið fram ýms rök, sem mæla með því, að sú tilhögun sé heppileg, og þarf ég því ekki að fara mörgum orðum um það nú. Það er ómótmælanlegt, að ef allt verksmiðjuráðið er kosið af Alþ., þá er og verður sú kosning algerlega pólitísk. Það má segja sem svo, að hún verði það einnig, þó að sú tilhögun sé höfð, sem í frv. er stungið upp á, en eins og ég gat um við l. umr., er þar þó um menn að ræða, sem vona má, að skoði það ekki sem sitt aðalhlutverk að vera pólitískir fulltrúar. Nú hafa að vísu komið fram ýmsar aths. við þetta, og þær eru sumar þess eðlis, sérstaklega þó hv.þm. N.-Ísf., að vel er þess vert að taka þær til athugunar. og má vel vera, að hægt sé að finna einhverja betri lausn á þessu en lagt er til í frv., þó að ég fyrir mitt leyti og við flm. báðir myndum verða óánægðir með að hafa ráðið algerlega þingkosið. — Hv. þm. taldi, að ef þessi tilhögun væri höfð, sem í frv. er stungið upp á, þá væri útilokað, að sá aðili, sem mestra hagsmuna hefði að gæta, nefnilega útgerðarmenn og sjómenn, ættu þarna fulltrúa. Fyrir okkur flm. vakti það, að Fiskifélag Íslands væri sá sjálfsagði fulltrúi þeirra, Alþýðusambandið fulltrúi verkamanna og sjómanna, a. m. k. þeirra, sem vinna fyrir kaupi, og að Samband íslenzkra samvinnufélaga hefði fulltrúa líka, því að þótt það væri ekki beinlinis aðili, þá væri það sú stofnun, sem báðir hinir aðiljarnir ættu að geta sætt sig við, og að einmitt sú stofnun gæti lagt þeim til sameiginlegan fulltrúa. Við flm. lítum svo á, að Fiskifélag Íslands sé að því er snertir sjávarútveginn hliðstætt Búnaðarfélagi Íslands, og það er jafnan talið fullnægjandi, ef landbúnaðurinn á sérstaklega að tilnefna mann til einhvers sem fulltrúa, að Búnaðarfélagið geri það. Hinsvegar skal ég játa það, að ég er málefnum og samsetningu Fiskifélags Íslands fremur ókunnugur og býst við, að hv. þm. N.-Ísf. sé miklu kunnugri þeim málum en ég. Það kann að vera, að á þessu séu einhverjir þeir gallar, að það megi skoðast rétt, sem hann sagði, að fulltrúi frá Fiskifélaginu gæti ekki verið virkilegur fulltrúi þessa aðilja. Ég fyrir mitt leyti myndi vera fús til þess að ganga inn á eitthvert annað fyrirkomulag, sem heppilegra sýnist. Það var ekki meining mín, að útiloka á nokkurn hátt útgerðarmenn og sjómenn frá því, að eiga fulltrúa í gegnum þessa 3 menn, sem ekki væru kosnir af Alþingi. Ég teldi þess vegna heppilegt, ef hv. þm. vildi taka þessar till. aftur nú við 2. umr., og væri þá athugandi milli umr., hvort ekki væri hægt að finna heppilegri lausu á málinu. Það virðist ekki vera svo stórvægilegur ágreiningur, sem hér er um að ræða, að hann megi á nokkurn hátt verða málinu til trafala eða að falli.

Mér kom ekki á óvart afstaða hv. 4. þm. Reykv., því að hún var reyndar kunnug áður; þó verð ég að játa það, að mér kom sumt í röksemdafærslu hans nokkuð á óvart. — Hann sagði, að bráðabirgðal. um síldarverksmiðjurnar hefðu verið sett með samþykki beggja þeirra flokka, sem styddu ríkisstj. Ég þarf ekki að fara nákvæmlega út í það atriði, því að frsm. meiri hl. minntist allrækilega á þá meðferð málsins (SÁÓ: Og staðfesti það.), enda tók ég það fram við 1. umr. málsins, að Framsfl. hefði samþ., að ef svo færi eftir þingslit, að verksmiðjustj. reyndist með öllu óstarfhæf, þá myndi hann samþ. það, að gefin væru út bráðabirgðalög til þess að ráða bót á því. En þessu fylgdi það skilyrði, að í stj. verksmiðjanna ættu sæti fulltrúar frá öllum aðalflokkum þingsins. Þetta skilyrði var ekki uppfyllt í framkvæmdinni, en eins og ég gat um við l. umr., er langt frá því, að ég kenni hæstv. ráðh. einum um það, því að Sjálfstfl. ber sannarlega sína sök á því. Hann vildi ekki fallast á að tilnefndur væri maður úr flokknum. (MJ: Flokknum var aldrei boðið það). Hann vildi ekki fallast á, að ráðh. tilnefndi mann úr flokknum. Mér er kunnugt um það, að þrátt fyrir þetta bann, sem miðstjórn sjálfstæðismanna lagði við því, var hægt að fá sjálfstæðismann í opinberri trúnaðarstöðu til þess að taka sæti í verksmiðjustj., en það var þó ekki gert. Sá maður, sem ég á við, er í alla staði heiðarlegur og mjög skýr maður og álitlegur til allra starfa, sem hann á annað borð tekur að sér.

Ég ætla ekki að fara að ræða neitt verulega við hv. 4. þm. Reykv. um sögu verksmiðjanna. Hann sagði margt, sem hann getur ekki á nokkurn hátt staðið við, og margt, sem áður hefir verið í hans herbúðum sagt, en aldrei sannað. Hann sagði, að orsökin til þessarar ókyrrðar í stjórn verksmiðjanna mundi hafa verið sú, a. m. k. fyrsta undirrótin, að framkvæmdarstjóravalið hefði misheppnazt fyrir stjórn verksmiðjanna á árinu 1935, að mér skildist. Það urðu töluverðar deilur í fyrra um þetta, og eftir þeim vitnisburði að dæma, sem form. þáv. verksmiðjustj. gaf þeim framkvæmdarstjóra og fulltrúar Alþfl. neyddust til að játa, að væri réttur, þá er varla hægt að skilja, að framkvæmdarstjóravalið hafi mistekizt svo mjög. En hitt er vitanlega óvenjuleg aðferð með mann, sem hafði reynzt vel, að bola honum frá starfi, eins og fulltrúar Alþfl. í stj. gerðu þá ásamt öðrum fulltrúa Sjálfstfl., og þegar svo var að farið, var vitanlega eðlilegt, að því yrði ekki á allan hátt tekið með þökkum. Ég held, að það hafi ekkert sannazt um það, að sambúð þessa framkvæmdarstjóra og verkamanna væri svo óheppileg og slæm eins og hv. 4. þm. Reykv. vildi vera láta. En hitt er alveg rétt, að þessi framkvæmdarstjóri þvingaði einn verkstjórann til þess að mæta á réttum tíma og yfirleitt gera skyldu sína, og það var ákaflega illa tekið upp. Hvað það snertir, að einhverja af stjórnarnm. hafi vantað stillingu til þess að vinna þarna heppilega, leiði ég hjá mér með öllu; ég ætla ekki að ræða neitt um það, hvernig geðslag ákveðinna manna er. Ef farið yrði að rökræða um það, hygg ég, að mörg kurl kæmu til grafar, og ég er ekki viss um, að þeir, sem hv. 4. þm. Reykv. vill sérstaklega verja, græddu nokkuð á því. Hv. þm. sagðist ekki hafa orðið var við óánægju með það fyrirkomulag, sem er. Hann er hér á Suðurlandi og verður ekki var við þetta eins og það er, en ég hefi orðið var við óánægju um það, hvernig þessu er skipað, og ég ætla að benda hv. þm. á það, að sú óánægja hefir komið opinberlega fram. Einn af stærstu síldarútvegsmönnum á Norðurlandi hefir skrifað blaðagrein um þetta, þar sem hann lætur í ljós mjög mikla óánægju um það, hvernig þessu sé fyrirkomið nú, og yfirleitt um bráðabirgðal. — þessi maður er Ingvar Guðjónsson —, svo að óánægjan hefir áreiðanlega komið fram.

Að því er snertir það, að síldarverksmiðjunum hafi aldrei gengið betur en í sumar, má vel vera, að hægt sé að segja það, en það eru mörg ár, síðan eins hátt verð hefir verið á afurðum verksmiðjanna, og það er vitanlegt, að þegar svo stendur á, þá verkar það þannig, að öll starfsemi verksmiðjanna gengur vel. Það er ekki hægt að komast hjá því. Mér skildist, að hv. þm. vildi sanna, að ekki hefði verið beitt hlutdrægni í stj. verksmiðjanna að því er snertir mannaráðningar og annað með því að segja, að síðastl. sumar hefði unnið flest það sama fólk við verksmiðjurnar eins og áður. Það mun vera svo, að flest sama fólkið hafi verið í sumar, enda var fyrrv. stj. búin að ráða það, en það fer ýmiskonar vinna fram við verksmiðjurnar að vetrinum, og ég hugsa, að ef hv. þm. kæmi norður á Siglufjörð, þá fyndi hann fleiri en einn, sem staðfestu það, að það gengi fullt eins vel fyrir alþýðuflokksmenn að fá þá vinnu sem aðra. Það má vel vera, sem hv. þm. sagði, að vinnufriður og ánægja ríkti í sti. verksmiðjanna nú; ég neita því ekki. Og ég neita því ekki heldur, að þeir, sem eru nú í stj., séu allir vel hæfir menn. Ég hefi ekki sagt eitt orð þeim til lasts. Það er grundvöllurinn, sem þeir eru skipaðir eftir, sem er rangur, en þar með er ekki sagt, að mennirnir út af fyrir sig séu neitt óheppilegir. Og þó að friður sé innan stjórnarinnar, þá sannar það vitanlega ekki neitt. Það er friður a. m. k. á yfirborðinu í Þýskalandi, Ítalíu og Rússlandi og víðar, en það er friður, sem margir menn óska ekki eftir. (MG: Er vopnaður friður innan síldarverksmiðjustjórnarinnar?). Ég býst við, að það sé einræðisfriður.

Það geta orðið deildar meiningar um gagnsemi þessa ráðs, sem lagt er til í frv., að sett verði á stofn. Ég hygg samt, að hv. 4. þm. Reykv. hafi á sínum tíma verið með því að setja landsbankan. á stofn. Hann var að vitna í landsbankan. og landsbankafyrirkomulagið, sem mér fannst hann tala um með nokkurri fyrirlitningu, og ég held, að hann sé a. m. k. ekki mótfallinn frv., sem nú liggur fyrir hv. Nd., um það að gera vald þessarar n. meira og auka verkefni hennar, svo að jafnvel þótt fyrirmyndin sé sótt til landsbankalaganna, fyndist mér, að það ætti ekki að verka neitt sérstaklega illa á huga hv. þm., en eins og ég sagði við 1. umr., vakti það fyrir okkur flm. bæði að koma þessu deilumáli út úr síldarverksmiðjunum og þinginu og svo líka að hafa þarna vettvang, þar sem menn, sem hafa sérstaklega áhuga fyrir slíkum málum, gætu rætt ýmislegt viðvíkjandi rekstrinum og óskir frá útvegsmönnum og öðrum aðiljum gætu komið fram og borizt til stjórnar verksmiðjanna, og ennfremur vakti það fyrir okkur flm., að ef deilur risu upp innan stjórnarinnar, sem dæmi eru til, þá væri þarna aðili, sem hefði góða aðstöðu til þess að útkljá þær deilur, — betri aðstöðu en Alþingi, því að sannleikurinn er sá, að reynslan hefir sýnt, að Alþingi hefir ekki tekizt vel að jafna deilur, sem risið hafa upp innan verksmiðjustjórnarinnar.

Það hefir verið minnzt á kostnaðinn í þessu sambandi. Ef frv. verður samþ. óbreytt að því leyti, að verksmiðjuráðsmennirnir vinni kauplaust, þá held ég, að kostnaðurinn, sem af þessu ráði stafar, verði hverfandi lítill, og það er áreiðanlegt, að allur starfskostnaðurinn verður minni heldur en eftir því fyrirkomulagi, sem var, áður en bráðabirgðalögin komu, að hafa 5 manna stjórn, og ég held, að það setji enginn fyrir sig það atriði og fari að vera á móti 5 manna stjórn vegna þess, hvað hún er dýr, og vitanlega er þetta svo stór rekstur, að sá litilfjörlegi kostnaður skiptir engu máli, ef fyrirkomulagið er að öðru leyti heppilegt.

Hv. 4. þm. Reykv. tók að nokkru leyti undir orð hv. þm. N.-Ísf. um það, að þeir aðiljar, sem þarna ættu hlut að máli, kæmu ekki til greina með val manna í fulltrúaráðið, og mér virtist hann telja, að sjómenn hefðu engan fulltrúa með því fyrirkomulagi, sem stungið er upp á í frv. (SÁÓ: Ekki til viðbótar). Úr því vildi hann bæta með því, að láta Alþýðusambandið fá 2 menn og útvegsmenn 1. Ég skil ekki þennan hugsunargang, því að ef Alþýðusambandið er á annað borð réttur aðili fyrir þessa menn, skil ég ekki annað en að þessi eini, sem Alþýðusambandinu er ætlað að tilnefna samkv. frv., geti verið fulltrúi þessara manna. Það er rétt, sem hann sagði, að Sís er ekki beinn aðili í síldveiðum og síldarútvegi, en það stendur óhrakið, sem ég gat um við 1. umr., að í þeim félagsskap eru bæði útgerðarmenn og sjómenn. Þar af leiðandi stofnun, sem verður að líta á sem algerlega óhlutdræga í þessu efni. (PM: Það er Bókmenntafélagið líka). Já, en þó að Sís sé ekki beinlínis útgerðarfélag, hygg ég samt, að starfsemi þess komi nær atvinnurekstri og fjármálum heldur en starfsemi Bókmenntafélagsins.

Hv. 4. þm. Reykv. var mjör hneykslaður yfir því að eitthvað af sjálfstæðismönnum og framsóknarmönnum væri sammála um þetta mál. Hann verður að líta á það eins og honum sýnist, en það þurfti ekki að koma honum neitt á óvart, því að í þessu máli hefir afstaða Framsfl. jafnan verið sú, að allir stjórnmálaflokkar hefðu fulltrúa í verksmiðjustjórninni, og ef það er svo hneykslanlegt, að vera einstaka sinnum sammála sjálfstæðismönnum, þá hefir hv. þm. sjálfur syndgað í þessu efni; ég veit ekki betur en að hann hafi stundum verið sammála þeim. og eitt sinn stóð til, að hann styddi stjórn með sjálfstæðismönnum, enda þótt ekki yrði af því.