05.04.1937
Efri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í C-deild Alþingistíðinda. (2179)

96. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Pétur Magnússon:

Hæstv. forseti má ekki misvirða það við mig, þó að ég taldi mér ekki stranglega við þingsköp í þessum fáu orðum, sem ég ætla að segja. Ég ætla ekki að tala um einstakar greinar. Málið hefir verið rætt svo almennt af þeim, sem talað hafa, að mér finnst ástæða til að segja nokkur orð vegna þeirra almennu umræðna, sérstaklega út af því, að afstaða Sjálfstfl. til þeirra breyt., sem gerðar voru á skipun síldarverksmiðjanna með bráðabirgðal. frá síðasta vori, hefir verið dregin allmjög inn í umræðurnar. Ég get vel tekið undir það, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að það mundi mega leita lengi í þingsögunni til þess að finna meðferð máls, sem líktist meðferð þessa máls. Það er orðið viðurkennt, sem raunar alla grunaði og margir þóttust vita, að þessi skrípaleikur með setningu bráðabirgðal. var ákveðinn þegar á þinginu 1936; það hafa þeir játað hv. 1. þm. Eyf. og hv. 4. þm. Reykv. Hv. 1. þm. Eyf. sagði við 1. umr. málsins, að það hefði verið gert ráð fyrir, að þeir atburðir kæmu fyrir, að bráðra aðgerða þyrfti við, og hv. 4. þm. Reykv. hefir haldið því fram, að það hafi verið beinlínis um það samið á þinginu 1936 milli stjfl., að Framsfl. sætti sig við þessa lausn á málinu. Það er þannig augljóst mál, að til þessa hefir verið stofnað þannig, að það hefir verið gengið algerlega á snið við ákvæði stjskr. um lagasetninguna. Þó að forminu sé að vísu fullnægt að því leyti, að búið var að slíta þinginu, þegar bráðabirgðal. voru sett, þá er það vitanlegt mál, og því dettur engum skynbærum manni í hug að bera á móti, að þau ákvæði voru sett til þess að slá varnagla við því, að í öngþveiti lendi, ef slíka lagasetningu þarf, án þess að kunnugt sé um það á Alþingi, en þegar kunnugt er um það, meðan þingið stendur yfir, að setja þarf lög um tiltekið efni eða breyta þarf gildandi lögum, þá eru fyrirmæli í stjskr. um, að það skuli gert á því þingi, sem situr, og það án tillits til þess, hvort samkomulag næst milli ráðandi flokka í þinginu um lausn málsins. Stjfl. virðast vera búnir að gleyma, að Alþingi er meira en formið eitt, þeir sjá ekki annað en að það sé flokksaflið, sem öllu eigi að ráða, og ganga svo langt í sumum málum, að ef ekki næst samkomulag innan flokkanna um lausn máls, þá skjóta þeir því fram af sér og láta stj. setja lög um það, og svo gala þeir á eftir á strætum og gatnamótum, að þeir séu að vernda lýðræðið. Þegar á þetta er litið, sýnist mér alveg ástæðulaust að kasta þungum steini að Sjálfstfl. fyrir það, að hann vili ekki gerast samábyrgur um þennan skrípaleik, sem verið er að leika.

Hv. 1. þm. Eyf. og þó einkum hv. 4. þm. Heykv. hafa veizt að flokknum með talsvert hörðum orðum fyrir það, að hann vilji ekki eiga þátt í að styðja að því, að menn innan vébanda hans tækju sæti í þessari stjórn síldarverksmiðianna. Hv. 4. þm. Reykv. varð að játa, þegar á hann var gengið, að flokknum hafði aldrei verið boðið þetta, en hann hélt sér við hitt, að tilteknum flokksmönnum, sem ekki er ástæða til að nefna, hefði verið boðið sæti í stjórn síldarverksmiðjanna, en þessir menn hefðu ekki þegið það. Það mun rétt vera, að 1–2 mönnum í Sjálfstfl. hafi verið boið að taka sæti í stjórn síldarverksmiðjanna, en hv. 4. þm. Reykv. gerðist svo djarfur að segja, að þessir menn hefðu verið hræddir frá því að taka við þessu, og þegar ég spurði hann, hvernig þeir hefðu verið hræddir frá því, þá gaf hann í skyn, að það hefði verið gert á þann hátt, að þeim hefði verið hótað afarkostum, að þeim skyldi verða gerðir einhverjir fjárhagslegir erfiðleikar, ef þeir gerðu þetta. Mér er fullkunnugt um, hvað gerðist í þessu efni, og ég lýsi yfir því, að þetta eru fullkomlega tilhæfulaus ósannindi og ósæmilegt fleipur af hv. 4. þm. Reykv., að bera slíkt fram á Alþingi. Afstaða Sjálfstfl. var engin önnur en sú, að hann neitaði að eiga þátt í því, að skipa menn í stjórn síldarverksmiðjanna, og lýsti yfir því við þessa menn, sem sneru sér til flokksins, áður en þeir gáfu nokkur svör um þetta, að hann óskaði ekki eftir því, og hlutaðeigandi menn sáu það algerlega af sjálfsdáðum, að það var hæpið, að blanda sér inn í þetta mál eins og það var í pottinn búið. Það var aðallega þetta, sem ég vildi sagt hafa, en hinsvegar verð ég að játa, að ræða hv. 4. þm. Reykv. var að ýmsu leyti lærdómsrík. Ég held, að það sé frekar óvenjulegt hér á Alþingi, að menn fái slíkan frómleikshugsunarhátt eins og fram kom í ræðu hv. þm. Hann var að tala um, að stjórn síldarverksmiðjanna hefði mjög merkileg viðskipti með höndum og afdrifarík fyrir afkomu fjölda manna í landinu, og þegar hv. þm. var að tala um, hvað þyrfti að hafa fyrir augum, þegar menn væru valdir í þessa stjórn, þá datt honum eiginlega ekki í hug nema einn eiginleiki, sem þessir menn þyrftu að hafa, og það var flokksliturinn, og hann var beinlínis hrærður, þegar hann var að tala um þessa „skelfingu“, sem komið hefði fyrir, þegar einn af stjórnarnefndarmönnunum, fulltrúi Framfl., hefði neitað að vinna með fulltrúa Alfl., og hann talaði um þetta allt miklu líkara því, að þessi síldarverksmiðjustjórn væri sameiginleg kosningaskrifstofa fyrir Alþfl. og Framsfl. heldur en að hér væri um að ræða stjórn stærsta atvinnufyrirtækisins í landinu. Hann gat ekki látið sér detta í hug, hvort ráðstafanir meiri hl. væru heppilegar eða óheppilegar fyrir þá, sem hafa hagsmuna að gæta í þessu efni, útgerðarmenn og sjómenn. Þetta sjónarmið hv. þm. er, þó að hann hafi frómleik til að segja frá þessu fram yfir marga aðra, ekki sjónarmið hans eins, heldur margra annara og það sýnir betur en flest annað þá hræðilegu ókosti, sem eru á ríkisrekstrinum; það sýnir, að þegar verið er að skipa stj. slíkra fyrirtækja, þá er valið eftir allt öðru en þekkingu og hæfileikum til þess að leysa af hendi verkefnin. Það er valið eftir því, sem talið er flokkshagsmunir, en ekki því, sem talið er þjóðarhagsmunir, eða hagsmunir þeirra, sem eiga afkomu sína undir þessum fyrirtækjum. Það var í rauninni gott að fá þetta svona skýrt fram hjá hv. þm.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða frekar um þetta mál. Ég vil aðeins minnast á brtt. frá hv. þm. N.-Ísf., um að láta S. Í. S., Fiskifélag Íslands og Alþýðusambandið nefna 3 fulltrúa í stjórn verksmiðjanna. Hv. 1. þm. Eyf. sagði, að það mætti gera ráð fyrir, að þessir 3 fulltrúar teldu sitt aðalstarf vera fólgið í því, að líta á flokkshagsmunina, en ég vil mega líta svo á, að það væri a. m. k. æskilegt, að þessir fulltrúar teldu sitt aðalstarf í því fólgið, að líta á annað en flokkshagsmunina. Það er svo mikið, sem þjóðin í heild á undir þessum atvinnurekstri, að mjög ríður á því, að vel sé vandað til um stjórn fyrirtækisins. Þyki það mikils um vert, að flokkarnir hafi jöfn „repræsentation“ í stjórn verksmiðjanna, þá finnst mér, að ákvæði frv. um val í verksmiðjuráðið beinlínis rugli slíkt. Það er t. d. mjög óeðlilegt, að S. Í. S. fái rétt til þess að tilnefna einn mann í þetta verksmiðjuráð, en útiloka sjómenn og útgerðarmenn frá því, að hafa nokkra íhlutun um val manna í ráðið. Ég verð nú að segja, að það voru veigalítil rok, sem hv. 1. þm. Eyf. bar fram til þess að réttlæta þetta, að það væru svo margir útgerðarmenn og sjómenn í S. Í. S. það má nefna fjölda félaga og fyrirtækja, sem útgerðarmenn og sjómenn eru að einhverju leyti riðnir vil, án þess að þeir hafi þar sérstaka „repræsentanta“. Þetta er því alveg út í loftið hjá hv. þm. — Að endingu vil ég svo mæla með brtt. hv. þm. N.-Ísf., að verksmiðjuráðið verði ekki skipað nema 9 mönnum í stað 12, eins og frv. ætlast til, því að það eru engar skynsamlegar líkur fyrir því, að stjórn verksmiðjanna verði að nokkru leyti verri, þó að verksmiðjuráðið verði ekki fjölmennara.