10.04.1937
Efri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í C-deild Alþingistíðinda. (2196)

96. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Frsm. minni hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Það fór svo við 2. umr., að þetta mál var samþ. nokkurnveginn eins og það lá fyrir. Ég hafði þá hugsað mér að svara ýmsu, sem til mín var beint, en til þess vannst ekki tími. Við þessa umr. er heimilt að ræða málið almennt, en við 2. umr. fór ég ýtarlega út í einstök atriði þess, svo að ég tel þess ekki þörf nú.

Afstaða mín og okkar Alþflokksmanna er ákveðin á móti þessu máli, og við teljum, að það skipulag, sem frv. gerir ráð fyrir, stefni ekki til hins betra, frá því sem nú er. Hv. 2. þm. Rang. viðhafði ummæli, sem ég tel þess eðlis, að það sé rétt að svara honum. Það voru aðallega tvö atriði, sem hann minntist á. Það fyrra var, að hann vildi halda því fram, að stjórn verksmiðjanna væri nú nokkurskonar flokksmiðstöð Alþfl., hitt var það, að við legðum ekki áherzlu á það, að í stjórnina veldust menn, sem hefðu hæfileika og sérþekkingu öðrum fremur til þess að fara með þessi mál.

Að því er fyrra atriðið snertir, er því til að svara, að það er vitanlegt, að í stj. situr nú ekki nema einn alþýðuflokksmaður, einn framsóknarmaður, og svo maður, sem ég get ekki dregið í dilk, en ég veit, að hann er ekki alþýðuflokksmaður, en það get ég fullyrt, að hann er reyndur og ég vil segja valinkunnur útgerðarmaður, sem menn hafa yfirleitt borið mesta traust til. Stj. er m. a. þannig skipuð, sem menn leggja nokkuð mikið upp úr, að einn er heimilisfastur á Norðurlandi, annar á Vestfjörðum og sá þriðji á Suðurlandi, svo að stjórn verksmiðjanna skiptist á milli þeirra fjórðunga landsins, sem aðallega reka síldveiði. Ég fyrir mitt leyti legg mikla áherzlu á það, að hver þessara fjórðunga eigi hver sinn mann í stjórn síldarverksmiðjanna, burt seð frá því, hvaða stjórnmálaflokki þeir tilheyra, um leið og ég legg áherzlu á, að þetta séu menn, sem treysta má, að vit hafi á þessum málum, og ég hygg, að það hafi engin rök komið á móti því, að þeir menn, sem nú skipa síldarverksmiðjustjórnina, hafi vit á þessum málum, og ég efast um, að stjórn verksmiðjanna hafi nokkurntíma farið betur úr hendi en einmitt á síðasta ári. Þess vegna mótmæli ég algerlega þeim ummælum hv. 2. þm. Rang., að það sé okkar stefna, að stj. verði einskonar alþýðuflokksmiðstöð, og eins hinu, að það sé yfirleitt okkar stefna, að í stj. veljist menn, sem ekki hafa fullkomna reynslu og þekkingu til að bera. En hitt skal ég játa „með frómleika hugans“, eins og hv. 2. Um. Rang. orðar það, að ég legg mikið upp úr því, að í stjórn fyrirtækis, sem er jafnþýðingarmikið fyrir þjóðina og síldarverksmiðjur ríkisins eru, veljist menn, sem hafa það eitt að markmiði að stjórna fyrirtækinu vel, en ekki menn, sem eru beinlínis settir með ráðnum hug til þess að skapa þá örðugleika, sem geta valdið því, að þetta verði að gefast upp fyrr eða síðar, og ég hefi ástæðu til að ætla, að hinir pólitísku fulltrúar, sem kynnu að verða settir í stjórn þessa þýðingarmikla fyrirtækis af hálfu Sjálfstfl., hefðu ekki löngun til að hlúa að því, að þetta fyrirtæki geti lifað sem lengst í landinu og orðið þröskuldur í vegi einkafyrirtækjanna, eins og þeir mundu vafalaust óska, að það væri.

Það er sýnt, að þessu máli eru sköpuð örlög í þessari hv. d., hvað sem um það verður í hv. Nd., en það verð ég að segja, að ég er nokkuð undrandi yfir því ofurkappi, sem Sjálfstfl. leggur á það að koma málinu út úr hv. d. í þessari mynd, því að hann getur aldrei haft annað upp úr þessu en að fá kosinn einn mann. mér er sama, hvaða ráðh. er við völd, ég ætlast til svo mikillar ábyrgðartilfinningar af honum, að hann ætti að standa og falla með því, hvort hann velur hafa menn í þessa stj. Annars tel ég ekkert aðalatriði, að flokkarnir tilnefni mennina. Málið fer til n., og ég fyrir mitt leyti hefi aldrei ætlað mér að halda uppi málþófi um þetta mál, en ég taldi nauðsynlegt, að það kæmi hreinlega fram, hvaða galla ég tel vera á þessu frv. og á hvern hátt það er fram borið. Þetta frv. er sem sé fram komið af því, að hv. 1. þm. Eyf. er píndur fram af einum kjósanda sínum á Siglufirði til að breyta þessu skipulagi, svo að hann geti komizt inn í stj. Hann hefir haft þau ummæli við prívatmenn: „Ég skal inn í stjórnina“. En hversu gott það er fyrir þjóðfélagið að hann komist þangað, það er annað mál. Ég hélt, að hann væri búinn að reyna sig það mikið á þessum hlutum, að það væri ekki æskilegt að það skipulag kæmi, að hann kæmist inn í stjórnina á ný.