10.04.1937
Efri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í C-deild Alþingistíðinda. (2199)

96. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Jón Baldvinsson:

Það hafa að mínu viti ekki verið færð fullnægjandi rök fyrir, hvernig þetta frv. er flutt og hér fram komið, nema því aðeins að hv. þm. Eyf., sem hafa beitt sér fyrir þessu máli, hafi óskað eftir því, að þetta frv. yrði til þess að slíta þeirri stjórnarsamvinnu, sem hefir verið milli Alþfl. og Framsfl. Ég sé enga aðra skynsamlega ástæðu fyrir því og vil þá benda á, að í þessu frv. er dulbúin árás á hæstv. atvmrh. Það er sem sé, að þrátt fyrir að Framsfl. hafi marglýst því yfir, að hæstv. atvmrh. hafi gefið út bráðabirgðalögin á síðasta vori með fullan þingvilja á bak við sig, þá finna þessir hv. þm. samt sem áður ástæðu til þess að bera þetta frv. fram, halda mjög fast á að fá það samþ. og ganga þar í fylkingu með sjálfstæðismönnum og bændaflokksmönnum. Það, sem ég kalla árás á hæstv. atvmrh., er það, að hér er verið að taka af ráðh. það vald, sem samið hafði verið um milli Alþfl. og Framsfl. viðvíkjandi síldarútvegsmálunum. Aðra ástæðu sé ég ekki en þessa, að með þessu eigi að slíta þeirri samvinnu, sem staðið hefir milli stjórnarflokkanna. (MG: Er nú komið samkomulag?) Ég er ekki að ræða um það, (MG: Það má ekki tala um það ennþá), heldur aðeins þær verkanir, sem þetta mál hefir, ef það er samþ., og hver tilgangurinn hljóti að hafa verið hjá hv. flm.

Segja má, að það skipti ekki miklu um eðli málsins, hvort eru 3 eða 5 menn skipaðir í þetta verksmiðjuráð, en það hefir þó sína þýðingu. Það hefir oft verið notað af andstæðingum Alþfl. til þess að ráðast á ríkisreksturinn, hvílíkt bákn þetta væri og hversu mörgum mönnum væri hrúgað upp í kringum fyrirtækin, því að þótt þessir menn eigi að vera ólaunaðir, þá er þó alltaf talsverður kostnaður því samfara að kalla þá saman á fundi, ef þeir eiga heima úti um allt land. Með frv. er þetta bákn því gert miklu fyrirferðarmeira og þunglamalegra en þörf er á. En að því leyti, sem snýr að sjálfstæðismönnum, þá er eðlilegt, að þeir vilji afgreiða málin á þann hátt, sem þeir halda, að gæti orðið til að draga úr samstarfi núverandi stjórnarflokka. Hinsvegar geta þeir ekki kvartað neitt undan því, hvernig stjórn verksmiðjanna var skipuð, því að þess var farið á leit við kunna útgerðarmenn úr Sjálfstfl., Hafstein Bergþórsson skipstjóra og Sigurð Kristjánsson, að taka sæti í stjórninni, en þá kemur til stjórn Sjálfstfl. og hótar þeim að reka þá úr flokknum, ef þeir geri það. Það eru til yfirlýsingar um það, að hver, sem taki þetta að sér, hann sé ekki sjálfstæðismaður. Þetta er sjálfsagt framhald af því, að Sjálfstfl. hefir neitað að starfa í utanríkismn. Sjálfstæðismenn hafa þar svikið þingskyldu sína til að starfa að utanríkismálum og svikizt undan þeirri skyldu, sem þeir tóku sér á herðar með kosningu í utanríkismn., með því að koma þar ekki á fundi í n. Það er ekki nema samkvæmt sérstöku loforði, að þeir hafa fengizt til að taka þátt í afgreiðslu þáltill. um utanríkismál í Sþ.

Nú er það svo, að enn hefir ekki komið fram eitt einasta atriði, sem réttlæti að breyta til um stjórn þessa fyrirtækis. Það hefir verið viðurkennt, a. m. k. af öllum, sem talað hafa, bæði beint og óbeint, að stjórn verksmiðjanna hafi farið vel úr hendi. Það var eitthvað talað um hlutdrægni í mannaráðningum, en þá kom upp úr kafinu, að þessi nýja stjórn hafði ráðið 2 menn, og það hittist svo á, að annar var alþýðuflokksmaður, en hinn framsóknarmaður. En á það ber að líta, að allmikill hluti þeirra, sem stunda daglaunavinnu, eru alþýðuflokksmenn. Sé það meiningin hjá hv. þm. Eyf., að eigi að taka menn í vinnu við verksmiðjurnar eftir réttum hlutföllum úr flokkum, þá þýðir það bara það, að útskúfa verður alþýðuflokksmönnum þar á staðnum, en flytja að verzlunarfólk og kaupmenn úr Reykjavík sem íhaldsmenn og framsóknarbændur úr sveitum. Þetta yrði að gera, ef taka ætti verkafólk úr flokkunum eftir réttum hlutföllum. Hv. 2. þm. Rang. var hér með alveg ósæmilegar dylgjur í garð þeirra manna, sem nú starfa að stjórn verksmiðjanna. Hann taldi það einhverja framúrskarandi dauðasynd, að einn þessara manna hefði verið barnakennari. Ég gæti vel trúað, að hv. 2. þm. Rang. hefði einhverntíma stundað þetta starf sjálfur, og ég get ekki séð, að það ætti að hafa gert hann óhæfan til alls annars. Nú er það svo, að það er víst ekki nema einn af þessum mönnum, sem hefir verið barnakennari. Það er Þorsteinn Jónsson. Hann hefir verið það lengi, og ég sé ekki, hvernig hv. þm. ræðst á hann fyrir þekkingarleysi í þessum málum, þó að hann hafi stundað barnakennslu. (BSt: Hvernig mundu bakarar vera?) Þeir mundu víst ekki vera góðir. — Það er nú svo, að sumir stjórnmálaandstæðingar mínir hafa viljað gera mig að bakara, eins og menn væru eitthvað verri fyrir það að hafa stundað þá iðn. (JAJ: Hv. þm. er bara pólitískur bakari). mér þætti engin minnkun að því, þó ég væri bakari, en annars hefi ég nú aldrei stundað það starf. (MJ: Ég er hræddur um, að hann baki bara tjón.) Nú eru farnir að þynnast brandararnir hjá hv. 1. þm. Reykv. — Ég veit ekki betur en að Finnur Jónsson, sem er formaður stjórnar verksmiðjanna, hafi lengi starfað við útgerð og lengi haft afskipti af síldarútvegsmálum og selt síld um margra ára skeið. En ég veit ekki annað en að þegar sjálfstæðismenn völdu menn í stjórn síldarbræðslunnar, þá tóku þeir mann, sem enga kunnáttu hafði á þessum málum. Hann hafði að vísu staðið fyrir útgerð nokkurra báta, en það var völ á mönnum, sem höfðu miklu meiri þekkingu og reynslu í síldarútgerð og sölu síldar. Ég hefi alltaf álitið, að við að fást við þessi mál öðluðust menn þekkingu og leikni í þeim, og það vill nú svo til, að formaður stjórnarinnar hefir fengizt við síldarútgerð og sölu síldar um margra ára skeið. Þá er Þórarinn Egilson. Hann hefir alla sína tíð verið útgerðarmaður eða stundað eitthvað, sem snertir útgerð eða sjávarútveg. Hann hefir því æfilanga reynslu í þessum málum. Það, sem hv. 2. þm. Rang. er að tala um reynslu og þekkingu, það er bara þessi venjulegi gorgeir í sjálfstæðismönnum, að þeir einir og þeirra menn sitji uppi með alla reynslu og þekkingu á málum yfirleitt, en þeir hæfileikar hafa bara ekki komið í ljós hjá þeim, það hefir engu síður farið illa hjá þeim, þar sem þeir hafa stjórnað útgerðarmálum. Ég þykist vita, að meðal þeirra séu margir, sem hafa gott vit á þessum málum, en ég vil ekki segja, að þeir hafi einir þá þekkingu til að bera, og allra sízt vil ég viðurkenna, að þótt þeir hafi einhverntíma kennt börnum, þá geti þeir aldrei annað en kennt börnum frá vöggu til grafar.

Ég býst við, að við hv. 4. þm. Revkv. munum láta okkar álit í ljós á þessu máli með því að greiða atkv. á móti því, þó að ég viti, að hin sterka samfylking, sem hv. þm. Eyf. hafa myndað með íhaldinu í þessu máli, geti komið því í gegnum þessa d. og kannske í gegnum Nd. líka, ef samfylkingin er nógu sterk.