12.04.1937
Efri deild: 37. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í C-deild Alþingistíðinda. (2222)

97. mál, verðlag á almennum nauðsynjavörum

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég get verið sammála hv. 1. þm. Skagf. um það, að að sjálfsögðu veltur mikið á því, hvernig l. eru framkvæmd. Mér skilst, að hv. 1. þm. Skagf. og hv. 1. þm. Reykv. telji það helzta ágalla á frv., að ekki sé tiltekið, hvaða vörutegunda l. eigi að ná til. Ég hygg, að það sé með öllu ókleift að taka tæmandi upptalningu á þessu upp í frv. Og það getur líka beinlínis í því legið bending til kaupmanna um að nota sér hinar vörurnar, sem ekki eru taldar þarna upp. Auk þess þá geta náttúrlega alltaf komið fyrir einstök tilfelli, þar sem nauðsynlegt væri að hafa hönd í bagga með álagningunni. Ég get nefnt t. d. dæmi, sem kom fyrir í haust fyrir jólin, um hina miklu og óeðlilega álagningu á eplunum hér í bænum; í slíkum tilfellum er nauðsynlegt að geta gripið inn í fyrir stjórnarvöldin. Og ég get vel hugsað mér, að einn meginkostur þessarar lagasetningar sé einmitt sú, að l. séu til og menn viti af þeim. Ég tók eftir því, að þessir 2 hv. þm. voru báðir á einu máli um það, að þetta væri afleiðing af innflutningshöftunum. Ég verð að draga það í efa, að svo sé. Ég sé ekki, að gjaldeyrir okkar hefði aukizt minnstu vitund, þó að höftin hefðu ekki verið, en eini munurinn hefði hinsvegar verið sá að gjaldeyrinum hefði frekar verið beint til ónauðsynlegri varnings, og þar af leiðandi hefði verið minna öryggi í því, að nauðsynjavörurnar kæmu fyrst og fremst inn í landið. Ég sé því ekki betur en að málinu verði bezt borgið með því, að afgreiða það í því formi, sem það nú hefir. En í sambandi við þær verðlagsathuganir, sem gerðar voru á síðasta hausti, þá þykir mér rétt að taka það fram, að einmitt síðan þær voru gerðar, hafa orðið stórfeldari verðlagsbreytingar á vörum á erlendum markaði heldur en um langt árabil á undan, þannig að þær athuganir hafa nú litið gildi. En ef menn vilja fylgjast með þessum efnum, þá er að sjálfsögðu nauðsynlegt, að til sé stofnun, sem hafi með höndum þessar rannsóknir og hafi heimild til að krefjast þeirra upplýsinga, sem nauðsynlegar þykja, svo að starf n. geti komið að notum.