12.04.1937
Efri deild: 37. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í C-deild Alþingistíðinda. (2224)

97. mál, verðlag á almennum nauðsynjavörum

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Hv. 1. þm. Reykv. var að tala um það, að ummæli mín hér áðan hefðu ekki verið traustvekjandi, þar sem ég hefði nefnt vörutegund eins og ávexti, sem hann taldi fráleitt, að kæmu undir þessi l. Ég skal játa, að margir mundu líta svo á, að ávextir séu ekki almenn nauðsynjavara, en ég tel það stappa nærri, að svo sé fyrir margt fólk. Og ég hygg, að við getum verið sammála um það, að sú álagning, sem átti sér stað á eplunum í haust og mun hafa verið um 170%, hafi verið alveg hóflaus. Og ég hygg, að ef slík l. sem þessi hefðu þá verið til, þá hefði slík álagning aldrei komið til. bara af ótta við, að l. kynni að verða beitt. Hv. þm. var að spyrja um, hvaða niðurstöður hefðu fengizt um verðlag á olíu við rannsóknirnar, sem fram fóru í fyrra. Ég geri ráð fyrir, að innan fárra daga berist mér heildarskýrsla um þessar rannsóknir; áður en ég fæ hana, get ég ekki gefið neinar upplýsingar um þessi efni, en ég geri ráð fyrir, að þegar ég fæ þessa skýrslu, þá verði niðurstöðurnar gerðar almenningi kunnar a. m. k. að einhverju leyti.