08.04.1937
Efri deild: 34. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í C-deild Alþingistíðinda. (2241)

114. mál, stuðningur við togaraútgerðina

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti! Frumv. það, sem hér liggur fyrir, nefna flutningsmenn þess: „Frumv. til laga um ráðstafanir til stuðnings togaraútgerðinni“, en mér finnst, að það hefði heldur átt að heita: Frumv. til laga um gjaldþrot togaraútgerðarinnar og ríkisrekstur togara, — því slíkt heiti hefði lýst miklu betur efni þess.

Samkv. frumv. ætlast flm. þess til, að á þessu ári fari fram mat á því, hvernig varið sé efnahag og rekstrarafkomu íslenzkra togaraútgerðarfyrirtækja. Matsverðið á að miða við sölu eigna í frjálsum viðskiptum, og er hætt við, að það yrði fremur lágt, eins og ástatt er og ef allsherjaruppgerð togaraútgerðarinnar stæði fyrir dyrum. Þau togaraútgerðarfyrirtæki, sem ekki eiga fyrir skuldum, á svo að gera gjaldþrota — og ekki einasta það, heldur á einnig, að því er mér skilst, að gera þau útgerðarfyrirtæki gjaldþrota, sem að dómi matsnefndar eru svo skuldum hlaðin, að fyrirsjáanlegt er, að þau geti ekki greitt skuldirnar að fullu. Býst ég við, að þetta mat geti orðið nokkuð erfitt, eins og nú er ástatt, og hljóti að verða nokkuð af handahófi, því hver getur fullyrt um það, hvenær vonlaust er um, að atvinnufyrirtæki geti greitt skuldir sínar? Auknir markaðsmöguleikar geta gerbreytt til batnaðar allri afkomu útgerðarinnar — og við vonum, að svo verði.

En með hliðsjón af núv. ástandi er hætt við, að þau yrðu nokkuð mörg togaraútgerðarfélögin, sem kæmu til gjaldþrotaskipta samkv. þessum reglum, og virðist beinlínis vera stefnt að því með frumv. að koma fram allsherjargjaldþroti togaraútgerðarinnar. Með slíkum aðgerðum væri gengið allnærri eignarréttinum og sjálfsákvörðunarrétti manna og stofnana. Bankarnir mundu tapa stórfé við þetta allsherjargjaldþrot, og er engin sönnun fyrir því, að allt það tap sé óumflýjanlegt, ef venjulegum viðskiptareglum væri fylgt, þó ganga megi að því sem vísu, að töluvert fé tapist á útgerðinni — hvort sem er.

Framsfl. er algerlega mótfallinn slíkum aðforum, sem hér er gert ráð fyrir. Hann er á móti því, að löggjafarvaldið blandi sér á þennan hátt inn í athafnalífið og atvinnureksturinn og grípi svo hastarlega inn í starfsemi bankanna, þó hann hinsvegar vilji láta bankana hafa aðhald um það, að gæta allrar varúðar um stórar lánveitingar, og vilji láta þá hafa hæfilegt eftirlit með þeim atvinnurekstri, sem þeir lána fé til.

Mun ég víkja nánar að þessum atriðum, ef tími vinnst til, en skal nú að sinni snúa mér að þeim „stuðningi“ við togaraútgerðina, sem ráðgerður er í frumv. eftir að gjaldþrot núv. útgerðarfyrirtækja hefir farið fram.

Hann er í því fólginn, að svokallað hlutafélag, sem stofna á „með aðstoð ríkisins“, eins og það er orðað í frumv., á að yfirtaka togarana og aðrar eignir hinna gjaldþrota fyrirtækja og reka síðan togaraútgerð og hverskonar starfsemi, sem rekin er í sambandi við hana.

Til þess að átta sig vel á því, hvers eðlis þetta nýja hlutafélag og rekstur þess mundi verða, er bezt að athuga, hvernig á að afla hlutafjárins samkv. frumv. Það á að gera með þrennum hætti:

Í fyrsta lagi með almennu útboði hlutabréfa. Ekki sé ég þó neinar líkur til, að nokkur maður mundi kaupa hluti í slíku félagi, eða a. m. k. yrðu þeir sárafáir og hlutafeð frá þeim hverfandi lítið. Ekki væri mikil ástæða til þess fyrir menn að gerast hluthafar af áhuga fyrir því, að koma nýrri togaraútgerð af stað og útvega mönnum með því atvinnu og þjóðinni tekjur, því samkv. frumv. yrði ríkið að leggja það fé fram, sem á vantaði, þó ekkert kæmi frá einstaklingunum. Ekki býst ég heldur við, að fyrirtækið mundi þykja svo arðvænlegt, að menn af þeim ástæðum vildu setja fé sitt í það. Þessi fyrsta fjáröflunarleið er því, að mínu áliti, ekkert annað en blekking, gerð til þess að reyna að dylja það, að hér sé eingöngu um ríkisrekstur að ræða, því það virðist nú vera orðið eitt aðalatriðið hjá Alþfl. að hafa tillögur sínar um ríkisrekstur dulbúnar.

Í öðru lagi á að afla hlutafjár með því, að þeir innlendir skuldheimtumenn, sem eiga rétt til greiðslu af andvirði eigna þeirra, sem hið nýja „hlutafélag“ yfirtekur, skulu skyldaðir til að taka hlutabréf í félaginu með nafnverði sem greiðslu á 1/9 hluta af innstæðu þeirra, ef hún er yfir 1000 krónur. — Þeir skuldheimtumenn, sem hér er talað um, eru auðvitað bankarnir, því skuldir útgerðarinnar eru aðallega hjá þeim. verður ekki sagt, eftir annari meðferð á bönkunum að dæma samkv. stefnu frumv. að þeim sé ætlað að taka tiltölulega mikinn þátt í rekstri hinnar nýju útgerðar.

Þá er þriðja fjáröflunarleiðin, sem auðvitað er aðalatriðið og uppistaðan í þessari hugmynd allri. — Hún er sú, að ríkið leggi fram hlutafé. Skal framlag ríkissjóðs samkv. frumv. nema þeirri upphæð, sem á vantar, að hlutafé nemi a. m. k. einum þriðja hluta af matsverði þeirra eigna, sem félagið yfirtekur.

Eins og ég hefi áður tekið fram, geri ég alls ekkert úr hlutafjárframlagi einstaklinganna undir því skipulagi, sem hér er stungið upp á. Framlag bankanna á að vera mjög takmarkað, en ríkissjóð á að skylda til að leggja fram það fé, sem á vantar. Það er því augljóst mál, að hér er um hreinan og beinan ríkisrekstur togaraútgerðarinnar að ræða, og ekkert annað, þó reynt sé að dylja það undir yfirskini hlutafélagsstofnunar, sem ríkissjóður sé aðeins þátttakandi í.

Það er margyfirlýst, bæði fyrr og síðar, að Framsfl. er og hefir alltaf verið mótfallinn ríkisrekstri atvinnufyrirtækja. Nú síðast var því greinilega lýst yfir af nýlega afstöðnu flokksþingi Framsfl.

Framsfl. álítur, að hægt sé að koma togaraútgerðinni á heilbrigðan grundvöll með samtökum einstaklinganna, og alla heilbrigða viðleitni í þá átt vill hann styðja.

Alþýðuflokknum hlýtur að hafa verið vel kunnugt um þessa afstöðu Framsfl. Hann getur því ekki hafa haft neina von um það, að koma þessu frumv. fram á þessu þingi. Heldur er málið borið fram sem „kosningabomba“. Það er borið fram til að gylla sig með einhverju í kosningum þeim, sem flokkurinn virðist ætla að framkalla nú í vor, gylla sig í augum þeirra manna, sem trúa á sósíalismann, en mörgum þeirra hefir fundizt Alþfl. hrekjast allmjög frá þeirri stefnu, á meðan hann, nú undanfarin ár, studdi Framsfl. að hinum ýmsu umbótamálum, sem komið hefir verið í framkvæmd.

Þó Framsfl. sé mótfallinn þjóðnýtingu atvinnufyrirtækja, þá er það samt ekki af neinum fordómi, að hann snýst 3 móti þessu máli. Jafnvel þó hægt væri að hugsa sér, að ríkið legði fram fé í togaraútgerðina. t. d. til kaupa á nýjum togurum, og jafnvel þó hægt væri að hugsa sér einhverja þátttöku ríkisins í útgerðinni, einkum til að afstýra neyðarástandi, þá er samt ekki hægt, eða a. m. k. ekki sæmilegt, að samþ. það frumv., sem hér liggur fyrir.

Ég hefi áður minnzt á þá aðferð, sem í frumv. er ráðgert að beita við núv. eigendur togaraútgerðarinnar.

Alþingi á að fyrirskipa að gera menn gjaldþrota, ef þar til kjörin nefnd álítur, að þeir muni ekki geta borgað skuldir sínar, jafnvel þó lánardrottinn sjálfur beri fullt traust til þeirra. Ég þori að fullyrða, að þetta kemur algerlega í bága við réttarmeðvitund þjóðarinnar. Slík mál sem þetta, hvort maður eða félag eigi að verða gjaldþrota, eiga að afgerast milli aðilja sjálfra: lánardrottins og skuldunauts, en ekki með lögum frá Alþingi, nema að því leyti, sem hin almennu gjaldþrotalög ákveða.

Flutningsmenn frumv. rökstyðja þetta að vísu með því, að eigendum sumra fyrirtækja muni vera orðið skylt samkv. gjaldþrotaskiptalögunum að framselja fyrirtækin til skiptameðferðar.

Þetta má vel vera; ég skal ekki leggja dóm á það, en annar af flm. frumv., Jón Baldvinsson, er einn af bankastjórum Útvegsbankans. Ef það er rétt, sem hann segir um þetta í grg. frumv., hvers vegna gengur hann þá ekki að þessum fyrirtækjum? Það væri hinn rétti vettvangur og hin rétta aðferð. Eða skulda þessi fyrirtæki eingöngu Landsbankanum? Það mun ekki standa á Framsfl. til samvinnu um það, að bankarnir séu látnir hafa nauðsynlegt aðhald í þessu efni; hefir hann og lagt fram tillögur þar að lútandi hér í þessari hv. deild, en inn á stefnu þessa frumv. getur flokkurinn ekki gengið.

Þá er að athuga það, hvernig séð er fyrir hag ríkissjóðs samkv. þessu frumv. Ríkissjóður verður þá einnig að bera alla, eða svo að segja alla áhættu af rekstri fyrirtækisins.

Til þess að gera ríkissjóði kleift að leggja hlutaféð fram, á samkv. 4. gr. frumv. að heimila ríkisstj. að taka lán, allt að 2 millj. króna, eða gefa út ríkiskuldabréf fyrir þeirri upphæð. Þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það, hvað sem flm. frumv. segja, að hér yrði um útlent lán að ræðu, ef það þá fengist; nýja skuldasöfnun í útlöndum, — nýjan bagga á þjóðinni.

Því hefir nú verið lýst yfir af hálfu Framsfl., bæði af síðasta flokksþingi hans og viðar, að hann er á móti nýjum lántökum ríkisins erlendis, nema um sé að ræða lán til nýrra arðberandi fyrirtækja, sem sjálf geta staðið undir lánunum. En hér er að mínu áliti ekki um slíkt að ræða. Hér er ekki einusinni um nýtt fyrirtæki að ræða í eiginlegum skilningi, ekki um kaup á nýjum togurum til að auka atvinnu manna og tekjur þjóðarinnar. Ef svo væri, horfði málið töluvert öðruvísi við. Nei, hér er um það eitt að ræða, að breyta þeirri togaraútgerð, sem fyrir er í landinu, í ríkisrekstur. Til þess vill Framsfl. ekki bæta 2 millj. króna við ríkisskuldirnar.

Við þetta bætist svo það, að Alþfl. hefir í öðrum frumvörpum og tillögum nú á þessu þingi farið fram á stórkostleg fjárframlog og lánsheimildir til annara framkvæmda. Yrðu allar þessar kröfur hans samþ., hefir talizt svo til, að ríkið þyrfti að taka um 8 millj. króna ný lán. Hvort Alþfl. meinar þessar kröfur alvarlega, eða hvort rær eru aðeins „kosningabombur“, veit ég ekki, en ég get ekki neitað því, að mér þykir hið síðara trúlegra.

En hvað sem um það er, þá er hitt víst, að inn á svo gálauslega fjármálabraut sem hér er farið fram á gengur Framsfl. aldrei og það hefði Alþfl. átt að vera ljóst frá upphafi.

En setjum nú svo, að þetta frumv. yrði samþ. og ekki væri horft í það að leggja stofnkostnaðinn fram með nýjum lántökum, — því ekki er öðru til að dreifa. Hvaða líkur eru þá til, an fyrirtækið beri sig? Hvaða líkur eru til, að rekstur þess gangi yfirleitt nokkuð betur heldur en rekstur togaraútgerðarinnar gengur nú? Ég sé ekki líkurnar til þess. Alþfl.menn segja, að það eigi að reka atvinnufyrirtækin með alþjóðarhag fyrir augum, en ekki til ágóða fyrir fáeina menn. Þessu er Framsfl. sammála, það sem það nær, en hann slær því samt alveg föstu, að framleiðslan verði, þegar til lengdar lætur, að bera sig fjárhagslega, — einnig þó hún sé í höndum ríkisins, annars falli allt í rústir. En það eru engar minnstu líkur til þess, að togaraútgerð bæri sig betur í höndum ríkisins heldur en hún hefir gert hingað til.

Það vita allir, að kröfur manna eru aldrei eins hóflausar eins og þegar hið opinbera á í hlut. — og mótstöðuaflið gegn óbilgjörnum kröfum er hvergi jafnlítið og hjá því opinbera. Það gera kjósendaveiðar flokkanna og yfirboð þeirra stjórnmálamanna, sem ekki bera ábyrgðina, þeirra, sem eru í stjórnarandstöðu. Við vitum allir, út í hvaða öfgar og vitleysu þessi ábyrgðarlausu yfirboð geta komizt; einkum er þetta ljóst, eftir að kommúnistar og hinn svokallaði Bændafl. komu til sögunnar.

Ef tekin væri upp ríkisútgerð togara og sjómönnum og öðrum, sem að henni störfuðu, væri tryggð atvinna og rað kaup, sem félagsskapur þeirra krefðist, sem mun vera tilgangur flm. þessa frumv., ætti þá að nema þar staðar? Ég verð að segja, að mér fyndist það ekki sanngjarnt. Hvers vegna á þá smáútgerðarmaðurinn að bera alla áhættuna af atvinnurekstri sínum? Hvers vegna á sjómaðurinn, sem ráðinn er upp á hlut á smáskipi, að bera áhættu? Hvers vegna á bóndinn að bera alla áhættu af búrekstrinum? Hvorki bátaútvegur eða búrekstur eru svo arðvænlegir atvinnuvegir nú, að menn vildu ekki gjarnan vera lausir við áhættuna af þeim, ef afkoma þeirra væri eftir sem áður tryggð. Ég geri því ráð fyrir, að þeim, sem þessa atvinnuvegi stunda, þætti stjúpmóðurlega með sig farið, eftir að ríkið hefði algerlega tekið togaraútgerðina og alla þá, sem við hana vinna, upp á sína arma. Og ég býst við, að frá þeim mundu fljótt koma kröfur um það, að þeir yrðu sama réttar aðnjótandi. Og ég verð að segja, að mér fyndist það ekki ósanngjarnt.

En er Alþfl. við því búinn að sinna kröfum þessara manna? Er hann yfirleitt við því búinn að bera ábyrgð á þessu frumv. og afleiðingum þess, ef það yrði samþ. Ég er sannfærður um, að svo er ekki og að frumv. er ekki heldur borið fram í þeim tilgangi, að það verði samþ., heldur í því trausti, að það verði ekki samþykkt.

Ég hefi nú gert nokkrar aths. við þetta frumv., sem fyrir liggur, og lýst andstöðu minni og þess flokks, sem ég telst til, við það. En þó Framsfl. geti ekki fallizt á þetta frumv., þá er samt langt frá því, að hann sé ánægður með það ástand, sem nú ríkir í útgerðarmálunum. Þvert á móti vill hann beita sér fyrir margvíslegum umbótum á því sviði sem öðrum, og verður síðar í þessum umr. nánar vikið að því efni frá hendi flokksins. En það vil ég taka fram nú þegar, að grundvallarstefna Framsfl. í útvegsmálum er sú sama og komið hefir fram í landbúnaðarmálunum, en hún er sú, að styðja að því með aðgerðum hins opinbera, að einstaklingarnir geti séð sjálfum sér og atvinnurekstri sínum borgið. Hann vill, eftir því sem geta ríkisins leyfir, styðja menn til að koma atvinnufyrirtækjunum á fót og gera þær ráðstafanir, sem hægt er, til að tryggja atvinnurekstur einstaklinganna, en hann vill ekki láta ríkið taka beinan þátt í atvinnurekstrinum.

Í landbúnaðarmálunum hefir þessi stefna flokksins m. a. komið fram í því, að beita sér fyrir stofnun nýbýla með lánum og styrkjum, en hann væri alveg mótfallinn, að ríkið færi að reka búskap á nýbýlunum. Flokkurinn hefir beitt sér fyrir því, að koma upp frystihúsum; hann hefir stofnað byggingar- og landnámssjóð; hann telur rétt að leggja fé ríkisins í jarðabætur, með jarðræktarstyrknum, sem er alveg hliðstætt annari hjálp til að koma upp atvinnutækjum. Einnig hefir flokkurinn beitt sér fyrir afurðasölulögunum, t. d. bæði kjötlögunum og mjólkurlögunum. En allt eru þetta framkvæmdir til að styrkja einstaklingana í þeirri viðleitni að bjarga sér sjálfir. Og á þeim grundvelli er flokkurinn alltaf reiðubúinn til að styðja málefni sjávarútvegsins, en að ríkisútgerð togaraflotans gengur hann ekki.

Í stað þess að fyrirskipa með lögum, að togaraútgerðin verði gerð gjaldþrota, eins og frumv. þetta kveður á um, vill Framsfl. stuðla að því, að bankarnir láti gera upp þau félög, sem ekki standa í skilum og ekki eiga fyrir skuldum. Skipin yrðu síðan á alveg eðlilegan hátt seld nýjum eigendum, hlutafélögum og samvinnufélögum sjómanna, og útgerð þeirra heldi áfram eftir sem áður.

En framtíðarlausn útvegsmála telur flokkurinn, að eigi ekki að byggjast á ríkisrekstri, heldur á samvinnu og samhjálp þeirra, bæði útgerðarmanna, sjómanna og verkamanna í landi, sem uppeldi hafa af þessum atvinnuvegi. Og slíka samvinnu og aðra sjálfsbjargarviðleitni á sviði sjávarútvegsins er Framsfl. alltaf reiðubúinn til að styðja, eftir því sem kraftar hans leyfa.