08.04.1937
Efri deild: 34. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í C-deild Alþingistíðinda. (2250)

114. mál, stuðningur við togaraútgerðina

*Bernharð Stefánsson:

Herra forseti! Það er hvorttveggja, að ræðutíminn er naumur, enda er ekki mörgu að svara af því, sem fram hefir komið í ræðum manna. En þessar umr. hafa staðfest það, sem ég sagði hér í kvöld, að þetta frv. fer fram á hreinan ríkisrekstur, og fjárhagsgrundvöllur þess er ótryggur og glæfralegur.

Ég hefi ekki tíma til að athuga mikið ræður einstakra þm., en þó vil ég víkja að því, sem hv. 2. þm. Rang. sagði, að ekki sé farið eftir verðleikum, þegar valið er í stjórnir ríkisfyrirtækja, og tók þar sérstaklega til dæmis síldarverksmiðjur ríkisins. Ég vil út af því, sem hv. 2. þm. Rang. sagði, taka það fram og staðhæfa það, að Framsfl. hafi valið mann í stjórn síldarverksmiðjanna, sem allir vita og öll þjóðin viðurkennir, að hafi mesta þekkingu á því máli allra Íslendinga. Þó að pólitísku flokkarnir kjósi í slíkar stjórnir, finnst mér, að hver flokkur eigi að velja sína hæfustu menn. Annars er það svo, að Sjálfstfl. vill fá mann úr sínum hópi í stjórn þessa fyrirtækis, og ætti hann þá einmitt að fara að dæmi Framsfl., að velja sinn hæfasta mann, því að ég veit, að Sjálfstfl. viðurkennir, að Framsfl. hafi tekizt valið þannig, því að einmitt ráðh. þess flokks, Magnús Guðmundsson, skipaði Þormóð Eyjólfsson ekki einasta í stjórn síldarverksmiðjanna, heldur formann þeirra.

Hæstv. atvmrh. sagði, að ég hefði forðazt að koma nærri kjarna málsins. Ég talaði eingöngu um frv., sem fyrir liggur, og ég helt satt að segja, að það ætti að gera við umr. þessar, eins og venja er til, að tala um það, sem á dagskrá er. En kannske hæstv. ráðh. segi þetta vegna þess, að honum finnist frv. sjálft ekki koma nærri kjarna málsins. Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði farið rangt með efni frv., og las upp úr því til þess að staðfesta þessi orð sín, en það voru einmitt þau orð, sem ég vitnaði í í minni fyrri ræðu. Það stendur, eins og ég sagði, í frv., að það á að gera menn gjaldþrota, þó að þeir geti sig ekki fram sjálfir, og þó að lánardrottnarnir gangi ekki að þeim, ef n. álítur, að maðurinn geti ekki greitt skuldir sínar. En hvernig fer, ef álit n. kynni að reynast rangt? Hæstv. atvmrh. sagði, að þetta væri tekið upp úr gjaldþrotaskiptalögunum. Ég mótmæli því. Það er rangt. Það stendur ekki í þeim lögum, að þingið eigi að setja n. til þess að ákveða, hvort maður eigi að gefa sig fram sem gjaldþrota eða ekki. Það er dómarinn, sem sker úr því, og það er allt annað mál, hvort pólitísk n. sker úr þessu að aðilja forspurðum eða dómarinn gerir það.

Hæstv. ráðh. sagði, að Framsfl. hefði ekki komið með ákveðnar till. um samvinnuútgerð. Þetta er rangt, flokkurinn hefir einmitt gert það, og stefna flokksins í þessu máli er, eins og margsinnis hefir verið lýst yfir, sú, að útgerðin þurfi að komast í það horf, að ábyrgðin hvíli á öllum þeim, sem atvinnuna stunda.

Hæstv. ráðh. sagði, að bæði ég og aðrir, sem töluðu á móti frv., bærum við áhættu ríkissjóðs, en svo spurði hann og brýndi raustina. Hver ber ábyrgðina nú? Og hann komst að þeirri niðurstöðu, að ríkissjóður gerði það gegnum bankana. Að vísu er nokkuð til í þessu, en þó er það ekki að öllu leyti rétt og má þar m. a. mínna á hlutaféð, sem í útgerðinni stendur. Ég álít, að Framsfl. sé mér sammála um það, að áhætta ríkissjóðs sé meiri en annars, ef ríkisútgerð komist á. Ég nefndi þetta nokkuð í fyrri ræðu minni, og byggist það á þeim kröfum, sem gerðar eru til ríkissjóðs fram yfir það, sem til annara er gert, og ef frv. yrði samþ. og ríkisútgerð togara kæmist á, mundu kröfur áreiðanlega verða gerðar um það, að skipunum væri haldið úti, hvernig sem á stæði, og eins þó að stórtap væri fyrirsjáanlegt. Það má svo sem geta nærri, að Alþýðusambandið myndi krefjast þess að fá að ráða kjörum þeirra, sem við útgerðina störfuðu, og í þessu efni ekki taka tillit til getu og afkomu fyrirtækisins, og ef Alþfl.menn stjórnuðu útgerðinni, mundu þeir sjá, hvernig það mundi ganga að standa á móti kröfum sinna eigin kjósenda; og jafnvel fulltrúar annara flokka er ég hræddur um, að mundu verða veikir fyrir í þessu efni. Þeir mundu hika við að taka á sig þær óvinsældir, sem af því leiddi að standa ef til vill gegn sanngjörnum kröfum, þegar þeir sjá, að þeirra flokkur ætti ekkert á hættu.

Þó að ég hafi ekki mikla trú a, að þetta frv. sé alvarlega meint, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, hefir það þó á unnizt við þessar umr., að stefna flokkanna í útgerðarmálum hefir komið skýrt fram. Það sest skýrt á ræðu hv. 1. þm. Reykv., Magnúsar Jónssonar, sem ekkert hafði til þessa máls að leggja, og hv. 2. þm. Rang. Péturs Magnússonar, að Sjálfstfl. hefir ekki hugsað sér neina breyt. til batnaðar í þessu efni. Hann vili halda áfram sama öngþveitinu í togaraútgerðinni og verið hefir. Þetta er reynt að dylja undir ýmsum káktillögum, en það sest samt skýrt. Svo þegar útgerðin er komin í þrot, er bara komið með kröfur um ríkisstyrk, og svo er haldið áfram undir sömu eigendum og á sömu braut. Slík er stefna Sjálfstfl. Alþfl. aftur á móti virðist ekki ljós önnur leið en þjóðnýting stórútgerðarinnar, sem hlýtur að leiða til meiri og meiri ríkisrekstrar og þjóðargjaldþrots fyrr eða síðar. Það er eins og hæstv. atvmrh. geti ekki hugsað sér neitt annað en annaðhvort ríkisrekstur eða það ástand, sem nú er; það er eins og hann geti t. d. ekki hugsað sér, að togaraútgerðarfélög á fallanda fæti séu gerð upp og haldi síðan áfram rekstrinum kannske undir nýjum eigendum með betri rekstrarmöguleika, eða að útgerðafélögin kæmust í hendur samvinnufélaga eða annara slíkra félaga, sem tækju að sér reksturinn. En Framsfl. bendir á þá einu leið í þessu efni, sem er fær og skynsamlegust, og það er stuðningur ríkisvaldsins til öflunar nýrra nauðsynlegra tækja í þarfir útgerðarinnar samfara stuðningi til öflunar nýrra og betri markaða og betri meðferðar framleiðsluvörunnar ásamt mörgu fleiru, sem fram kemur í ræðu og riti frá hendi Framsfl. Og hvað snertir rekstrarfyrirkomulagið, vill flokkurinn stuðla að því, að þeir sem vinnu að fiskframleiðslunni, séu sjálfir þátttakendur í útgerðinni og stjórn hennar og eigi þannig beinna hagsmuna að gæta um rekstrarniðurstöðuna.

Ég býst ekki við að tala aftur. — Góða nótt!