08.04.1937
Efri deild: 34. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í C-deild Alþingistíðinda. (2254)

114. mál, stuðningur við togaraútgerðina

*Jónas Jónsson:

Herra forseti! Ég álít, að hv. síðasti ræðumaður hafi nokkuð reynt á þolinmæði hlustenda með því að láta hugsanir sínar koma hér út í annari útgáfu, sem sannarlega var ekki endurbætt, en það er hans mál, hverja byrði hann leggur á landslýðinn.

Þá vík ég að hæstv. atvmrh., sem hélt því fram, eða hafði það eftir öðrum manni, að ég hygg síðasta ræðumanni, að í frv. okkar framsóknarmanna um síldarverksmiðju ríkisins væri gert ráð fyrir óhæfilega dýrri stjórn; það væri gert ráð fyrir 12 manna stjórnarnefnd, sem kæmi saman einu sinni eða tvisvar á ári. Þetta er ekkert annað en vísvitandi ósannindi, sem ég er alveg hissa, að nokkur maður skuli leyfa sér að bera á borð fyrir fólk. — Þá var hæstv. ráðh. eitthvað að tala um það, að síldarlögin hefðu verið brotin; það er að vísu satt, að það var gerð undanþága frá 1., en það stafaði af því, eins og hæstv. ráðh. er vel kunnugt, að útgerðarmenn neituðu að láta af hendi síldina nema fyrir visst verð.

Hv. 2. þm. Rang. var að tala um það, að atvinnubótaféð væri hærra nú heldur en hefði verið hjá íhaldinu. Jakob Möller er nú alls ekki lakast gefni maðurinn í Íhaldsfl., og hann stakk upp á að veita eina millj. til atvinnubóta, en það er hálfri millj. meira heldur en nú er. Hvað segir hv. 2. þm. Rang. um skoðanir þessa flokksbróður síns á þessum málum?

Þá vík ég aftur að ræðu, — ég held hann sé 10. landsk.; ég man nú aldrei númerið á honum. Hann var að tala um vegavinnuna og sagði, að það hefðu verið unnin fleiri dagsverk 1932 heldur en 1936. Ég skal benda þessum hv. þm. á það, að árið 1932, þegar hann var atvmrh., sveikst hann um að láta vinna fyrir það vegafé, sem í fjárlögum stóð, en árið 1933 var hann kominn á aðra skoðun, því að þá tók hann viðbótarlán til þess að vinna fyrir. Það er þess vegna bezt fyrir hv. þm. að hafa sig hægan um það yfirleitt, hvað hann hafi staðið sig vel í þessum efnum, þegar hann var ráðh.

Síðasti ræðumaður minntist á óstjórn í bönkunum. Ég skal benda á það, að einn flokksbróðir hv. 10. landsk., Svafar Guðmundsson, sem átti sæti í bankaráði eins bankans hér, notaði aðstöðu sína þar sem formaður bankaráðsins til að veita sjálfum sér 10 þús. kr. stóðu sem útibústjóra fyrir galtómu bankaútibúi í einum af kaupstöðum landsins, þar sem hann svo notar sína aðstöðu til að reyna að níða niður alla samvinnustarfsemi; þetta er ill meðferð á fé bankanna, það skal ég játa með hv. 10. landsk.

Hv. 2. þm. Rang. var líka að tala um það, sem ég get verið honum fullkomlega sammála um, að það geti komið fyrir, að ráðningar á starfsmönnum mistakist bæði hjá ríki og bæjum. Ég vil í þessu sambandi minna á ráðningar hjá sjúkrasamlaginu, sem eru framkvæmdar af hans góðu flokksbræðrum, á þann hátt sem engin dæmi eru til. Það eru sagðar svo skoplegar sögur um það, þegar verið er að raða á jötuna allskonar afbrotamönnum, mönnum, sem hafa orðið sviksamlega gjaldþrota, mönnum, sem hafa verið dæmdir fyrir þjófnað, að þær eru jafnvel ósennilegar, en þó sannar. M. a. er sú saga sögð um þetta, að þegar hafi átt að bjóða einum af þessum mönnum stöðu þarna, þá hafi hann átt að segja: „Ég held það sé nú komið of mikið“. — Þetta svar mannsins var ekkert undarlegt, því að þegar menn fara að athuga starfsmannavalið þarna, þá er það þannig, að það mun varla hægt að finna þarna starfsmann með óflekkað mannorð.

Ég vil að endingu leyfa mér að staðhæfa það um þetta frv., sem hér er verið að ræða um, að það sé ekki borið fram af svo mikilli alvöru, heldur fremur til þess að skemmta landslýðnum; ég held yfirleitt, að menn taki ekki mikið mark á því. Ég vil þess vegna leyfa mér að taka orð eins hv. þm. mér í munn, að það sem ætti að segja, þegar komið er með svona frv., eins og þetta frv. sósíalista, sem er svona ákaflega hátt uppi: „Komið þið niður á jörðina, og þá skulum við tala við ykkur um málið“.