08.04.1937
Efri deild: 34. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í C-deild Alþingistíðinda. (2255)

114. mál, stuðningur við togaraútgerðina

*Magnús Jónsson:

Herra forseti! Ég ætla ekki að svara hv. síðasta ræðumanni, þó að hann kastaði köpuryrðum að sjálfstæðismönnum. Ég skil ákaflega vel, að hann sé skapillur; það á ekki við hann að vera nú þvert á móti vilja sínum pressaður upp í flatsæng með Þorsteini Briem, og ég skil það vel, að þeir fari illa í. rúmi.

Hv. 4. landsk., Jóni Baldvinssyni, vil ég aðeins svara nokkrum orðum. Hann kom hér með 4 ára áætlunina, og var nú svo borgaralegur að hafa hana í bláu bandi, en hún var í rauðu, sem ég fékk lánaða. Ég verð nú að segja það, að mér finnst það ekkert undarlegt, þó að sjálft flokksþing Alþfl. færi ekki að skamma hann fyrir svík. En þeir vildu eitthvað lítið um 4 ára áætlunina tala, og ég man ekki betur en þeir byggju til 2 ára áætlun í staðinn. (JBald: Það var búið að uppfylla þessa). Það var a. m. k. ekkert eftir af henni.

Hæstv. atvmrh. var að tala um það fjör, sem væri í atvinnuvegunum, einkanlega það fjör, sem nú væri að færast yfir sjávarútveginn. En þetta kemur bara ekki heim við það frv., sem hér er verið að ræða um, og þær ræður, sem haldnar hafa verið í sambandi við það, bæði af hæstv. ráðh. og hv. 4. landsk. Það er því auðsætt, að þetta er kosningabomba, og ekkert annað en kosningabomba. Þessir menn hafa verið við völd meira eða minna í 10 ár, og í 3 ár hafa þeir haft aðstöðu til þess að koma málefnunum í það horf, sem þeir óskuðu, og þeir hafa notað aðstöðu sína út í æsar, og frekar en nokkurntíma hefir verið áður gert. En hvernig stendur á því, að þessi flokkur kemur nú á síðustu stundu, þegar hinn flokkurinn hefir sagt skilið við hann, og vill fara að koma öllum þessum málum í lag? Þá koma öll stóru málin og hugsjónirnar. Við þessu er ekkert annað svar heldur en það, að þetta eru ekkert annað en kosningabombur.