14.04.1937
Neðri deild: 38. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (2274)

119. mál, byggingar- og landnámssjóður

*Bjarni Ásgeirsson:

Það er dálítið nýstárlegur og frumlegur skilningur, sem kemur hér fram hjá hv. þm. Borgf., eins og oft kemur fyrir hjá honum í ýmsum málum. Ég sé ekki betur en hann hljóti að álíta, að allar þáltill. um að láta framkvæma eitthvað, sem stj. hefir að vísu heimild til að gera, en vill þó fá yfirlýstan þingvilja fyrir, séu vantraust á stj., ef þessi till. er það. En ég held þá, að nokkuð mörg vantraustin hafi verið samþ. á þann hátt og stjórnirnar staðið þau af sér, ef þessi till. er vantraust.

Annars er þessi þáltill. ekki flutt af hálfu Búnaðarbankans. Hún er ekki flutt í þágu bankans, heldur bænda. Það er ekki hægt að heimta af stjórn Búnaðarbankans, að hún veiti lán öllum þeim, sem um þau biðja, heldur að hún ráðstafi því fé, sem hún hefir yfir að ráða. Og enda þótt stjórn Búnaðarbankans hafi bent ríkisstj. á, að sjóðurinn hafi of lítið fé til umráða, þá er það ekki nema eðlilegt, að ríkisstj. vilji sannprófa það, áður en hún tekur lán handa sjóðnum, erlent eða innlent, að þingvilji sé fyrir þeirri lántöku. Það er það álit nú á lántökum ríkissjóðs, að ekki er eðlilegt, að ríkisstj. leggi í stórar lántökur án þess að hafa hugmynd um vilja þingsins í því efni. Einnig fyrir þá, sem vilja láta taka slíkt lán, er það ekki lítill stuðningur að hafa þingviljann á sínu bandi. Og það er engin önnur ástæða fyrir framkomu þessarar þáltill. en sú, að sannprófa það, hvort þingvilji er til fyrir lántökunni. Þetta ætti jafnþingvanur maður og hv. þm. Borgf. að vita og ekki að vera að bollaleggja um það, hvort till. sé vantraust eða ekki vantraust.

Þá var hv. þm. að tala um, að þetta lán yrði of dýrt fyrir bændur. Þetta er nú engin ný speki frá honum. Það vita allir, að einmitt fyrir það var byggingar- og landnámssjóður stofnaður, og að gegnum starfsemi sjóðsins hefir verið veitt fé frá ríkinu til þess að lækka þessa vexti. Það eru ákveðnir vextir, sem bændur eru látnir greiða, og lægri en þeir, sem byggingar- og landnámssjóður greiðir af því fé, sem hann hefir að láni, og það er gert ráð fyrir, að svo verði það eftirleiðis, þó sjóðurinn fái nýtt veltufé. Ég tel, eins og hag sjóðsins er nú háttað, að hann geti staðið við að veita lán með sömu vöxtum, þó lánunum fjölgi. Sjóðurinn á nú 1 millj. og 300 þús. kr. hreina eign, og sú eign fer vaxandi með hverju ári, enda var tilgangurinn upphaflega sá, að verja tillagi ríkissjóðs til þess að greiða vaxtamismun á starfsfé sjóðsins og lánum, er hann veitir.

Ég held, að hv. þm. skjóti yfir markið, er hann heldur því fram, að þessi till. sé vantraust á ríkisstj. frá Búnaðarbankanum. Till. kemur Búnaðarbankanum ekkert við; hún er flutt af þingmönnum sem slíkum, en er ekki frá Búnaðarbankanum.