14.04.1937
Neðri deild: 38. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (2286)

120. mál, hlutafélög

*Flm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Ég þarf ekki að láta þessari till. fylgja langt máI. Í grg. till. er það rökstutt, að það er næsta nauðsynlegt að undirbúa nýja löggjöf um þetta efni. Okkar löggjöf um hlutafélög er 16 ára gömul og þegar orðin aftur úr tímanum, og framkvæmd hennar víða um land hefir ekki verið jafnæskileg eins og ætti að vera, og stafar það af því, hvernig löggjöfin er úr garði gerð.

Eins og sest í grg. fyrir till., þá er svo högum háttað hér á landi, eins og víðast annarsstaðar, að í hlutafélagaformi er aðallega rekin stórrekstur, bæði í iðnaði, verzlun og útgerð. Það er því mikils virði fyrir ríkið, að allar reglur þar að lútandi séu sem fyllstar og nákvæmastar og hnigi í þá átt að gera starfsemi hlutafélaganna sem tryggasta og öruggasta.

Þess eru mörg dæmi, að hlutafélög, sem jafnvel hafa velt millj. króna, hafa ekki haldið aðalfund svo hrum skipti, og tilkynningar út af starfsemi hlutafélaganna ófullkomnar og öll starfsemi þeirra ekki í samræmi við þau ófullkomnu lög, sem við búum við í þessu efni.

Fyrir fáum árum komu Danir á hjá sér nýrri löggjöf um hlutafélög, og svo hefir víðar verið í nágrannalöndum okkar. Geri ég ráð fyrir, að úr þeirri löggjöf megi fá mörg atriði, sem hægt sé að taka til fyrirmyndar um nýja íslenzka löggjöf í þessu efni. Í sambandi við löggjöf um hlutafélög má einnig hugsa sér að taka til athugunar reglur um firmu yfirleitt. Hér á landi eru ein lög um hlutafélög og önnur um firmu með takmarkaðri ábyrgð. Okkar firmalög eru ennþá eldri en hlutafélagalögin og ennþá ófullkomnari, og mætti því taka þau til athugunar í sambandi við þetta mál.

Það má líka benda á, að ekki þurfa að gilda sömu reglur um öll hlutafélög. Um smærri hlutafélög, sem hafa litlu fjármagni yfir að ráða, gætu gilt sérreglur, og um stærri hlutafélög aðrar.

Eftir því, sem ég bezt veit, er t. d. í Englandi gerður mikill munur á hlutafélögum, eftir því hvers eðlis þau eru, og mismunandi reglur settar um þau. Ég vildi líka benda á þetta atriði í sambandi við þessa löggjöf.

Ég vænti svo þess, að hv. d. taki vel í þessa till. og samþ. hana nú án þess að til verulegs ágreinings þurfi að koma.