05.03.1937
Sameinað þing: 5. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í D-deild Alþingistíðinda. (2298)

46. mál, meðferð utanríkismála o. fl.

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég vil lýsa ánægju minni yfir þessari till. Jafnframt vil ég þakka flokkum stjórnarandstæðinga fyrir góðar undirtektir undir efnisatriði þessarar till. En um leið vil ég taka það fram, að þessi till. má að minni hyggju á engan hátt skoðast sem vottur um óanægju í garð sambandsþjóðar okkar fyrir afskipti hennar af þessum málum. Sambandsþjóð okkar hefir tekið tillit til þeirra óska, sem hafa komið fram um það frá okkur, að eiga fulltrúa þar, sem við höfum óskað þess. Hinu er ekki til neins að neita, að sendimenn og embættismenn Dana skortir í sambandi við okkar mál kunnugleik, sem við einir getum lagt til. Og svo er að lokum það, að í sumum atriðum fara hagsmunir okkar og þeirra ekki að öllu leyti saman. Ég hefi þó enga ástæðu til að ætla, að þetta mál fáist ekki leyst með fullu samkomulagi beggja ríkjanna, heldur hygg ég, að eins og sambandslögin frá 1918 hafa orðið til að styrkja samband og vináttu okkar við Dani, eins mundi það sýna sig, þegar þetta spor yrði stigið, að segja sambandinu upp. Þá yrði það til að bæta enn sambúð og samvinnu þessara frændþjóða. Mér er því mikið ánægjuefni, að svo gott samkomulag skuli vera um efnisatriði þessa máls sem hér er komið fram, og það er fjarri mér að vilja metast um það við aðra flokka, hver hafi fyrstur hreyft þessu máli eða lengst viljað ganga í því, því að það skiptir í sjálfu sér engu máli.

Annars skilst mér, að ágreiningur sé um orðalag till. og að nokkru leyti um efni hennar. Mér skildist á hv. þm. G.-K., að hann teldi, að orðalag till. kveði ekki nægilega glöggt á um, hvort það sé ætlun okkar Íslendinga að taka öll okkar mál í eigin hendur, sérstaklega þó um jafnréttisákvæðið. Til þessa liggja eðlilegar orsakir. Hv. þm. hlýtur að sjá, að um leið og sambandslögunum er sagt upp, er tekin afstaða til jafnréttisákvæðisins, og það þarf engan undirbúning. Utanríkismálin aftur á móti þurfa undirbúnings við. Ég sé því ekki, að brtt. breyti neinu, þó að það væri samþ. að segja „sinna mála“ í staðinn fyrir „þeirra mála“, eða „að taka öll málefni landsins í eigin hendur“. En ástæðan til þess, að ekki er minnzt á jafnréttisákvæðið í till., er sú, að það mál þarf engan undirbúning, en hitt krefst mikils undirbúnings, að við tökum utanríkismálin í okkar hendur. Ég geri þó ráð fyrir í sambandi við jafnréttisákveðið, að við þurfum þar samkomulag við sambandsþjóð okkar, vegna þess að fjöldi Dana hefir lengi verið búsettur hér og notið réttar samkvæmt sambandslögunum. Eins hefir verið fjöldi Íslendinga búsettur í Danmörku og notið þar réttinda samkvæmt sambandslögunum. Hér verður að leita samkomulags af hlutaðeigandi stj., en engin ástæða er til að ætla, að það valdi örðugleikum. Get ég ímyndað mér, að þar muni standa jafnt á um hagsmuni beggja þjóðanna.

Hv. þm. G.-K. tók fram í sinni ræðu, að hann teldi sjálfsagt, að Íslendingar tækju nú þegar landhelgisgæzluna í sínar hendur. Um þetta er komin fram sérstök till. á þskj. 57, svo að ég skal láta bíða að ræða það mál þangað til sú till. verður rædd. En ég er í höfuðatriðunum sammála því, sem hv. 1. flm. sagði í framsöguræðu sinni, að ég lít svo á, að meðan Danir hafa jafnan rétt og við til fiskveiða hér við land, þá sé ekki óeðlilegt, að þeirri kvöð sé ekki algerlega af þeim létt, að leggja nokkuð til landhelgisgæzlunnar. Ég sé ekki, að það þurfi þau ár, sem eftir eru til sambandsslita, að særa metnað Íslendinga fremur en hingað til.

Þá er síðara atriðið í till. stjórnarandstæðinga á þskj. 71, þar sem lagt er til, að stj. skipi fjögurra manna n. eftir tilnefningu frá miðstjórnum þingflokkanna, er geri tillögur um framtíðarskipun utanríkismálanna. Ég tel það mjög óeðlilegt og óheppilegt, að lausn þessa máls verði ákveðin á þennan hátt. Þetta er mál, sem sjálfsagt er, að stj. undirbúi í samráði við utanríkismálun., en eftir brtt. eiga þingflokkarnir að öllu leyti að ráða vali nefndarmanna, án þess að stj. á nokkurn hátt taki þátt í starfsemi n. Þetta tel ég mjög óheppilegt, alveg án tillits til þess, hvaða stj. kann að sitja í hverjum tíma.

Hv. þm. G.-K. og hv. 10. landsk. fundu að því, að einn flokkur þingsins, Bændafl., ætti engan mann í utanrmn. Ég vil benda á, að það er hægur hjá fyrir hv. stjórnarandstæðinga að bæta úr þessu. Vandinn er ekki annar en sá fyrir þessa flokka að sameina sig um kosningu í utanrmn. Sé ég enga örðugleika hjá þeim til þess.

Hv. þm. G.-K. vék að því, að í yfirlýsingu Alþfl. 1928 hefði afstaða hans ekki komið skýrt fram. Ég vil algerlega vísa þessu á bug. En hv. 2. þm. Reykv., sem hafði orð fyrir flokknum þá, mun víkja að því nánar við þessa umr.

Ég sé svo ekki ástæðu til að segja fleira um þetta mál að þessu sinni, en vil að síðustu enn á ný taka það fram, að mér er það ánægja, að till. hefir komið fram og hvernig undirtektir hv. stjórnarandstæðinga hafa verið um hana.