05.03.1937
Sameinað þing: 5. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í D-deild Alþingistíðinda. (2300)

46. mál, meðferð utanríkismála o. fl.

Magnús Torfason:

Það stendur nú nokkuð sérstaklega á fyrir mér í þessu máli að sumu leyti. Ég mun hafa verið hinn eini þeirra hv. þm., sem hér eiga sæti, sem ekki gat fellt sig við sambandslagasamninginn 1918, og er líklega sá eini þeirra, sem telja má víst um, að ekki geti fjallað um þetta mál 1943. Ég býst þá við því, að menn skilji það, að ég skoða það sem rétt minn að fara um það nokkrum orðum, er mér nú gefst færi til þess. Það hefir verið sagt hér, að mikill áhugi væri fyrir sambandsmálinu meðal þjóðarinnar. Ég skal nú ekki um þetta segja, annað en það, að um þetta mál hefir verið rætt við mig minnst allra hinna stærri mála af mínum kjósendum. Ég hefi því ástæðu til þess að draga þá ályktun af minni reynslu, að þessi áhugi þjóðarinnar sé ekki eins ríkur og hér hefir verið sagt. Til þess eru líka eðlilegar ástæður, og þá fyrst og fremst tvær. Önnur er sú, að síðan sambandslögin gengu í gildi höfum við getað farið allra okkar ferða í þessum efnum, og höfum gert það. Það hefir því ekki vakið okkur til umhugsunar um utanríkismálin eða áhuga á þeim, að við höfum þar orðið varir við nokkurn fjötur um fót. Hin ástæðan er sú, að hin síðari árin a. m. k. höfum við fyrst og fremst orðið að hugsa um daginn og veginn og afkomu til næsta morguns. Það er því alveg eðlilegt, að þessa áhuga gæti ekki svo mjög. Og ef menn tryðu á hann, — hví er þá umræðum þessum um utanríkismálin ekki útvarpað, eins og umræðum um ýms önnur mál, sem í sjálfu sér eru miklu smávaxnari?

Hv. flm. sagði fyrst í ræðu sinni, að ástæðan til þess, að við tökum ekki meira af okkar málum í hendur okkar 1918 en raun varð á, hefði verið sú, að við hefðum ekki talið okkur færa um að fara með utanríkismálin þá.

En hér var meira efni í en almenninngur vissi. Ég var í fullveldisnefnd 1918 og hafði ekki hugmynd um, hvað á bak við lá. Menn gengu þess duldir, að á stríðsárunum voru hér raunverulega uppi tveir flokkar, sem skiptust milli Breta og Þjóðverja. Þessi skipting var þegar komin á 1915, og var ef til vill ekki nema eðlileg. En hún hafði komið fram hjá valdamesta manni þingsins um skeið, sem hallaðist að Þjóðverjum. Upp úr þessu fengum við svo brezku samningana. Það var reynsla þeirra manna, er fylgzt höfðu með þessu, sem gerði það að verkum, hve deigir við vorum að heimta rétt okkar 1918, og varð til þess að sumir kapparnir nutu sín ekki í því máli. Að vísu var allhátt risið á þinginu, er það kom saman út af sambandslögunum, en lágkúrulegt var það að loknum samningsgerðum.

Ég sagði áðan, að viðhorfið gagavart utanríkismálunum í stríðsárunum hefði ráðið mestu um úrslitin 1918. Það er víst, að þá vorum við ekki færir um að taka þau í okkar hendur. Ég læt ósagt, hvort við erum það nú. En á hitt get ég fallizt, að við gerum aldrei of mikið að því að undirbúa okkur til þess. Því minni sem þjóð er, því meira mæðir á henni í þessum efnum og því betur þarf það að vanda, sem vel á að standa.

Ég get því fylgt þáltill. þeirri, sem hér liggur fyrir. Ég tel hana beint framhald á því, sem gerðist 1928, og tel rétt að halda áfram í því fari. En ég álít ekki ástæðu til þess að fara nú að samþ. ákvæði, sem fyrst eiga að koma til framkvæmda eftir sjö ár, því að margt getur breytzt á langri leið. Þannig gæti Evrópuófriður orðið þess valdandi, að við yrðum þá ekki lengur sérstakt ríki, og ekki Danmörk heldur. Ég tel allar slíkar yfirlýsingar óþarfar, og það því fremur, sem áður hafa komið fram skýrar yfirlýsingar frá öllum flokkum hér á þingi. Það eina, sem við höfum til Dana að sækja, eru fjárkröfur, og ekkert annað en fjárkröfur, og þær ætti utanríkismálanefndin að hafa með höndum. Ég veit að vísu vel, að sumir hafa talið, að 1918 höfum við gert upp allar slíkar fjárkröfur. En mín skoðun er, að þjóðin hafi aldrei samþ. slík málalok, hvað sem þinginu líður. En fjárhagslegar og menningarlegar kröfur þarf að leysa áður en nokkrir nýir samningar eru gerðir við Dani. Þær verða að vera undanfari þeirra.

Það var minnzt hér á það ákvæði um hæstarétt í sambandslögunum, að hæstiréttur Dana skyldi vera okkar æðsti dómstóll, þangað til við stofnuðum okkar eiginn hæstarétt, eins og bráðlega var gert. Þetta var talið sambærilegt við annað bráðabirgðaákvæði í lögunum, um strandgæzlu Dana hér við land, og fært til rökstuðnings þess, að við ættum einnig að taka hana að fullu í okkar hendur. En að mínu áliti er þetta tvennt ekki sambærilegt. Meðan Danir og Færeyingar hafa hér sama rétt til fiskveiða og við sjálfir, ber þeim líka skylda til að hafa strandgæzluna með höndum að nokkru leyti. Og því tel ég vafasamt, að rétt sé að létta af þeim með öllu þeirri kvöð, að gæta þeirra fiskimiða að nokkru, sem þeir hafa jafnan rétt til og við sjálfir. Og ég er þess jafnvel fullviss, að á næstu sjó árum geti vel sú breyting á orðið, að við verðum að heimta, að Danir gæti betur skyldu sinnar í þeim efnum hér eftir en hingað til. En hvað sem því líður, verður að leysa þetta mál með samkomulagi við Dani, því það, að ætla að fara að banna þeim að gæti landhelginnar, væri fjandsamleg athöfn, en slíkt eigum við að forðast við öll ríki.

Ég þarf ekki annað en að vitna til aðstöðu minnar áður til sönnunar því, að ég vil, að við tökum utanríkismálin í okkar hendur, enda væri ekki annað skynsamlegt. Eitt atriði tel ég þó vafasamt í þessu efni, og það er, hvort við eigum að slíta konungssambandinu 1943. Út í það mál fer ég ekki hér, en þar er þó um það að ræða, hvort við höllum okkur frekar að Norðurlandaþjóðum en öðrum. Um það hefir konungssambandið mikil áhrif. Að vísu hefi ég myndað mér mína eigin skoðun um þetta mál, en ég tel ekki ástæðu til að láta annað uppi um það nú en þá ósk, að það verði gaumgæfilega athugað.