05.03.1937
Sameinað þing: 5. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í D-deild Alþingistíðinda. (2304)

46. mál, meðferð utanríkismála o. fl.

Ólafur Thors:

Ég sé ekki þörf á að ræða margt um ummæli hv. stjórnarsinna. Þau lágu yfirleitt utan við aðalkjarna málsins. Þó vil ég taka til meðferðar nokkur atriði.

Hæstv. atvmrh. lét svo um mælt, að frá hans sjónarmiði væri till. okkar óheppileg lausn á málinu, því að málið ætti að vera til meðferðar í utanríkismn., en ekki n., sem ríkisstj. hefði ekki aðstöðu til að hafa áhrif á. Ég vil benda honum á, að þó að okkar ráð yrði tekið, er ekki loku fyrir það skotið, að stj. geti haft áhrif á störf n. Það er t. d. ekkert því til fyrirstöðu, að hæstv. ráðh. ætti sjálfur sæti í n. þessari eða ýmsir þeir menn, sem nú sitja í utanríkismn.

En að því er snertir aðferðir til að fullnægja kröfu Bændafl. um sæti í utanríkismn., get ég Iýst yfir því, að sú úrlausn, að Sjálfstfl. víki sæti og kjósi bændaflokksmann í staðinn, liggur ekki fyrir. Það er þegar búið að kjósa í n., og það verður ekki gert aftur á þessu þingi, nema þá að svo verði ákveðið, að fjölga skuli í n.

Ég get sætt mig við afstöðu hæstv. forsrh., en hann lét þau orð falla, að hann vildi athuga, hvort ástæða væri til að setja sig gegn því orðalagi, er Sjálfstfl. vill viðhafa til að þoldi klæða þá hugsun, sem virðist vaka fyrir öllum þingflokkunum. Ég skoða þetta að vísu ekki sem loforð frá hæstv. forsrh., en mér virðist svo sem orð hans bendi til þess, að hann vilji líta á till. okkar með allri sanngirni.

Ég er með þessu í raun og veru að svara hv. 1. flm. og get því leitt hjá mér ræðu hans að öðru leyti en því, að fyrir Sjálfstfl. er það ekki aðalatriðið, að komast hjá að vinna að þessu máli með ákveðnum manni, heldur að koma því til leiðar, að lausn fáist á málinu, er gefi sem gleggsta mynd út á við af þeirri samheldni, eindrægni og einbeittni, sem í því ríkir, þó án alls kala til nokkurrar þjóðar. Ég er, eins og hæstv. atvmrh., sannfærður um það, að sambandsslitin þurfa á engan hátt að verða til þess að draga úr vinarhug þeim, sem ríkir milli okkar og sambandsþjóðarinnar.

Þá vík ég fáum orðum að hv. 2. þm. Reykv. Hann sagði mig hafa ómaklega deilt á sig fyrir að hafa haft ógleggri afstöðu til málsins 1928 en umboðsmenn annara flokka. Ég gerði nú reyndar ekki svipað því eins mikið úr þessu og hann vill vera láta. En yfirleitt legg ég meira upp úr því, sem menn segja í dag, en því, sem þeir kunna að hafa sagt fyrir 9 árum. Einmitt þess vegna óskum við sjálfstæðismenn, að gefnu tilefni, að þingið láti nú koma skýrt fram, hvað fyrir því vakir, án tillits til þess, hvað einhverjir menn kunna áður að hafa gert eða sagt. En ástæðan til, að ég viðhafði áður sögð orð um ræðu hv. þm. 1928, er sú, að af 11/2 dálks ræðu hans í þingtíðindunum er ekki nema 1/4, sem fjallar um sjálft málið, en hinn hlutinn er um konungssambandið og aðra óviðkomandi hluti, eins og til að dylja, að honum hafi ekki verið kærkomin fyrirspurn sú, er fram kom. En það getur verið, að ég hafi þar ekki séð rétt í hug hans.

Það er ekki rétt hjá hv. 2. þm. Reykv., að till. stjórnarsinna gangi lengra en till. sjálfstæðismanna. Ég held, að það sé alveg öfugt. Mér finnst full ástæða til að krefjast þess, að stjórnarflokkarnir staðfesti nú að gefnu tilefni með nýrri yfirlýsingu, að þeir vilji það sama í dag og þeir vildu 1928, því að það er enganveginn ómögulegt, að flokkar, sem samanstanda nú að nokkru leyti af öðrum mönnum en þá, vilji nokkuð annað í dag en fyrir 9 árum. Auk þess hnígur okkar till. líka að því, að láta taka til athugunar, hvaða form ætti að vera á þeirri atkvgr., sem fram þarf að fara í sambandi við endanlega uppsögn samningsins, og það út af fyrir sig er verkefni, sem ég hygg, að þurfi mikillar athugunar við.

Ég skal svo að lokum segja það, að ég tel það aðalatriðið í þessu máli, að till. okkar sjálfstæðismanna gengur lengra og er í öllum efnum skýrari heldur en till. stjórnarsinna. Ég endurtek það, að verði henni vísað frá eða hún felld. þá geti það gefið öðrum aðiljum tilefni til að álykta, að þingviljinn sé eitthvað breyttur eða a. m. k. linari heldur en 1928.

Ég vil svo út af tilmælum beggja umboðsmanna stjórnarflokkanna um það, að við sjálfstæðismenn tökum aftur þessa till. til síðari umr., beina til hæstv. forseta, hvort honum þyki eðlilegt að fresta umr. og vísa till. til n. vilji hann það ekki, þá mun ég f. h. Sjálfstfl. verða við þeim tilmælum, að taka till. aftur, og geri það hér með, ef hæstv. forseti telur ekki rétt að verða við þeirri málaleitun, sem ég hefi beint til hans.

Ég skal svo geta þess, að enda þótt sú misklíð, sem valdið hefir samningsslitum milli Sjálfstfl. og stjórnarsinna, sé óútkljáð, þá telur Sjálfstfl., að í þessu sérstaka máli sé rétt, að Sjálfstfl. vinni með þeim mönnum, sem af stjórnarbendi eru í utanríkismálanefnd. Ég vona, að sá góði andi, sem ríkt hefir í þessum umr., megi einnig ríkja í n., og ég vænti, að hún beri gæfu til að ganga svo frá þessu máli, að orki orki tvímælis, hvað það er, sem íslenzka þjóðin vill og í framtíðinni ætlar sér.