16.03.1937
Sameinað þing: 7. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í D-deild Alþingistíðinda. (2309)

46. mál, meðferð utanríkismála o. fl.

*Jónas Jónsson:

Ég var ekki viðstaddur, þegar mál þetta var fyrst til umræðu, en ég vildi bæta við fáeinum orðum. Ég kem fyrst að brtt., sem flutt hefir verið á þskj. 71, af mönnum í utanríkismálanefnd, sem ekki hafa starfað þar upp á síðkastið. Till. gerir fyrst og fremst ráð fyrir því, að skipuð verði sérstök nefnd til að fjalla um málið, og þar að auki er till. töluvert mikið á annan hátt en frumtill., og tel ég óheppilegt, að hún hefir komið fram. Till. á þskj. 46 er framhald af máli því, sem var til umræðu í þinginu árið 1928, hvernig haga skyldi meðferð utanríkismála, og svöruðu allir þingflokkar því þá á sömu leið. Árið 1928 var hægt að taka fyrir færri af ákvæðum sambandslaganna, sem mestu skipta, fyrir utan það, sem hér er um að ræða, nefnilega sameiginlegan þegnrétt og rétt Dana til að nota okkar landhelgi og taka þátt í gæzlu hennar. Hefði það mál verið tekið fyrir 1928, er mér ekki kunnugt um, hvort það hefði farið eins. Ekki er mér kunnugt um, að í nokkrum flokki finnist maður, sem vilji, ef afnumin er sameiginleg þegnskylda við Dani, að þeir hafi þá rétt til veiða í landhelgi okkar og taka þátt í landhelgisgæzlu. Menn eins og Einar Arnórsson og Bjarni frá Vogi, meðan þeir áttu sæti í löggjafnaðarnefnd, voru á móti því, að Danir slyppu við að taka þátt í landhelgisræzlu á meðan þeir hefðu rétt til að veiða þar.

Virðist í þessari till. vera farið lengra um utanríkismálin en ætlazt er til með frumtill., og álít ég ekki ástæðu til að ræða hana meir að sinni.

Ég ætla að taka það fram, að ég álít mjög óheppilegt, að það fyrsta skref var ekki stigið, sem var verið að undirbúa 1930, því það var sjálfsagt, að Ísland gengi þá inn í Þjóðabandalagið, fyrst búið var að ákveða, að Íslendingar tækju sín utanríkismál í sínar hendur. Sá flokkur, sem nú stendur að till. á þskj. 71, hefði átt að skilja það 1930, að þörf var á því fyrir Íslendinga að setjast á bekk með öðrum þjóðum Evrópu og á þann hátt kynna sig og undirbúa sína menn til að taka þátt í alþjóðlegri starfsemi. Því hefir verið haldið fram, að vegur Þjóðabandalagsins fari minnkandi upp á síðkastið, og mun það vera rétt, en okkar not af því eru mun meiri en fyrir stærri smáþjóðir, eins og hinar Norðurlandaþjóðirnar. Okkar not af því eru, að kynna þjóðina og gefa mönnum tækifæri til að starfa með áhrifamiklum mönnum hinna ýmsu þjóða, sem við eigum skipti við. Væri það mikilsverður undirbúningur fyrir þá menn, sem eiga síðar að starfa að utanríkismálunum, og álít ég því, að ætti að taka til athugunar, hvort við ættum ekki að ganga í Þjóðabandalagið.

Því, sem ég vil næst minnast á, hefi ég hreyft í blöðum Framsfl. hér í bænum nú í byrjun þessa árs. Það er nauðsyn þess, að búa menn sérstaklega undir að geta komið fram fyrir okkar hönd eftir uppsögn sambandslaganna. Mér finnst ástæða til að geta þess, að ekki er til ein einasta fræðigrein á íslenzku um það, hvernig þjóðir skipa sínum utanríkismálum, og þetta tómlæti um þessi mál er svo alvarlegt, að einn af þekktustu mönnum þessa bæjar, sem er mjög gáfaður og menntaður maður, sagði við mig, að hann hefði aldrei hugsað út í það, hvaða munur væri á „ambassador“ og sendiherra. Ég tek þetta sem dæmi um það, hve lítil kunnátta manna er um, hvernig þjóðir koma þessum málum fyrir, þegar menn, sem forgöngu hafa um almenna menntun, hafa ekki vitneskju um það einfaldasta í þessu efni. Ungur maður, sem dvelur erlendis, hefir skrifað mér um þessi vandræði. Ég ætla að skrifa þessum unga manni, sem skrifaði mér frá öðru landi, og segja honum, að ungu mennirnir verði að læra og fræða okkur um það, sem við þurfum að læra í þessu efni. Ég álít, að það hafi meira að segja fyrir okkur nú en nokkuð annað, að byrjað sé á því að undirbúa unga menn undir að starfa fyrir okkur á þennan hátt, þegar þar að kemur. Ég hefi leyft mér að leggja fram till. um það, sem ég geri ráð fyrir, að verði athuguð í sambandi við þetta mál. Hún er um það, að hafizt verði handa strax næsta haust með að undirbúa kennslu ungra manna ber í bænum, og verði það deild, sem auðvitað starfar ekki í sambandi við háskólann meðan hann er húsnæðislaus, en kæmi síðar undir hann. Þangað væru valdir röskir og reglusamir menn og námið sé bæði hagfræðilegt og lögfræðilegt. Að tímalengd og dýrleik verði það álíka og lögfræðinám er nú, og þegar menn hafa lokið því námi, mundi vera hægt að nota þá til margra hluta. Þeir gætu tekið þátt í verzlun landsins við fjarlæg lönd betur en við höfum nú menn til. Þeir gætu setzt að í öðrum löndum sem kaupmenn og verið ræðismenn um leið, og sumir beinir starfsmenn landsins síðar meir. Ég álít ekki, að sú aðferð sé að öllu leyti heppileg, sem sumir láta sér detta í hug, að við ættum að koma okkar tilvonandi starfsmönnum inn í sendisveitir Dana eða annara þjóða. Það, sem er út á það að setja, er, að þjóð eins og Danir, sem er 35 sinnum stærri en við, hefir aðra meðferð á þessum málum en við. Stærri þjóðir hafa glögg skipti milli „diplomatíska“ starfsins og verzlunarstarfsins. Þjóðir eins og Norðmenn og Danir halda þessum skiptum svo miklum, að sendisveitir fást lítið við verzlunarstörf, þar sem hjá okkar sendimönnum yrði aðaláherzlan lögð á, að valdir væru menn, sem eru „praktiskir“ og duglegir, sem hefðu þekkingu á verzlunarmálum, en gætu jafnframt komið fram sem „diplomatar“, og við það hefi ég miðað mína tillögu. Það er því mjög vafasamur greiði, þótt einhver frændþjóð okkar vildi taka af okkur einhverja unga menn til þess að ala þá þannig upp. Sendimenn okkar eiga ekki að vera neinir tilhalds- eða veizlumenn, heldur starfsmenn. Ég hefi orðið var við, að menn álíta, að með því að halda veizlur og halda til kapps við stærri þjóðir þar um munum við auka okkar stærð og kraft. En við nánari athugun munu allir flokkar sjá, að við verðum að gera allt til þess að gera okkar menn bæði verzlunarmenn og „diplómata“.

Ég hefi heyrt sagt, að um hafi verið talað við 1. umr. þessa máls, að till. á þskj. 71 yrði tekin aftur, þar til við lokaumr., og að hún kæmi ekki til atkvæða nú, enda er það ekki hægt nema betur sé um hana jafnað, því annars getur hún ekki samræmzt till. á þskj. 46.