01.04.1937
Sameinað þing: 8. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í D-deild Alþingistíðinda. (2313)

46. mál, meðferð utanríkismála o. fl.

*Ólafur Thors:

Ég vil leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta og form. utanríkismálanefndar, hv. þm. Mýr., hvernig stendur á því, að enn hefir ekki verið kallaður saman fundur í utanríkismálanefnd til þess að ræða um þáltill. þá, sem fyrir þinginu liggur um væntanlega uppsögn sambandslaganna. Ef ég man rétt, þá eru liðar 3 eða 4 vikur síðan þessi þáltill. var hér á dagskrá og var þá vísað til n.

Eins og kunnugt er, gengur margvíslegur orðrómur um það, að þing muni að þessu sinni standa skemur en venjulega, og verður því að teljast nauðsynlegt að hraða meðferð þessarar till., ef það er meiningin að afgr. hana áður en þing verður rofið, ef svo skyldi fara.