15.04.1937
Sameinað þing: 10. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í D-deild Alþingistíðinda. (2317)

46. mál, meðferð utanríkismála o. fl.

Ólafur Thors:

Það er eins og hv. frsm. sagði, að það náðist samkomulag í utanrmn. um að breyta þeirri till., sem upphaflega var borin fram af stjórnarsinnum, í þá átt, sem nál. á þskj. 215 hér með sér. Við sjálfstæðismenn lýsum ánægju yfir því góða samkomulagi, sem varð um málið í utanrmn., og við sjáum ekki ástæðu til að eiga á hættu að gera nokkurn ágreining út af þessu þýðngarmikla máli út úr því atriði, hvort um málið skyldi fjalla sérstök 4 manna n., eins og við höfðum lagt til, þar sem einn maður væri kosinn af hverjum þingflokki, eða utanrmn. skyldi fjalla um það, úr því stjórnarsinnar gengu inn á að breyta aðalefni þeirrar till., sem þeir fluttu, í þá till., sem nú liggur hér fyrir.

Ég tók fram við fyrri umr., að ég teldi, að stjórnarsinnar ættu greiðan aðgang að gera þetta, vegna þess að þeir hefðu sjálfir lýst því yfir í sínum framsöguræðum, að þeir vildu þetta, enda þótt þeirra till. væri þannig orðuð, að hún fjallaði um utanríkismálin ein, og jafnvel gæti gefið tilefni til misskilnings vegna orðalags, sem ég þá þegar benti á, þess misskilnings, að stjórnarsinnar vildu að svo komnu máli ekki lýsa öðru yfir en því, að Ísland tæki stj. utanríkismálanna í sínar hendur, þegar það væri heimilt samkvæmt uppsagnarákvæði sambandslaganna.

Sjálfstfl. stendur því óskiptur að þessari brtt. eins og hún liggur fyrir, og með því að víst er um a. m. k. þrjá þingflokka, að þeir gera ekki ágreining um málið, þá ætti því að vera borgið. Get ég því endað þessi fáu orð með því að endurtaka, að við sjálfstæðismenn lýsum ánægju okkar yfir þeirri góðu samvinnu og samkomulagi, sem orðið hefir um þetta mál.