15.04.1937
Sameinað þing: 10. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (2321)

46. mál, meðferð utanríkismála o. fl.

Óafur Thors:

Það er aðeins örstutt aths. — Það er alveg ástæðulaust fyrir okkur sjálfstæðismenn að vera nokkuð að deila um það við hv. 2. þm. Reykv. eða við nokkurn annan, hvort þessi brtt., sem utanrmn. hefir nú flutt sameiginlega, er sama till. eins og upprunalega till., sem stjórnarliðið bar fram, eða önnur till., því að hver einasti maður, sem les till. báðar, hlýtur að sjá þann mikla mun, sem er á tillögunum. Í till. hv. stjórnarliða á þskj. 46 stendur skýrum orðum, að Alþ. álykti „að skora á ríkisstjórnina að undirbúa í samráði við utanríkismálanefnd skipulag á meðferð utanríkismála, innanlands og utan, sem bezt kann að henta, er Íslendingar taka alla stjórn þeirra mála í sínar hendur“ o. s. frv. Í þessari till. á þskj. 215 stendur, auk þess sem orðalag er nokkuð breytt í upphafi þáltill.: „er Íslendingar neyta uppsagnarákvæðis sambandslaganna og taka alla meðferð málefna sinna í eigin hendur“. Önnur þáltill. fjallar um það, að Íslendingar taki utanríkismálin í sínar eigin hendur. Og það hefir jafnvel tekizt svo óhönduglega að orða þá till., að orðalagið gefur tilefni til að ætla, að Íslendingar hafi í dag ekki ákveðið annað en það, að taka utanríkismálin í sínar hendur. Orðalag till. gefur tilefni til að halda, að stjórnarliðar hafi meint þetta eitt. Það er algert aukaatriði fyrir okkur sjálfstæðismönnum, hvort það erum við eða stjórnarliðar, sem hafa valdið því, að sú yfirlýsing er komin fram um þetta atriði, sem sjá má á rskj. 215. Aðalatriðið er hitt, að í utanríkismálan. var ágætt samkomulag um að breyta till. í það form, sem hún nú er komin í, og yfir því samstarfi erum við sjálfstæðismenn glaðir og ánægðir. En mér þótti bara ástæða til að vekja athygli á þessu, af því að hv. 2. þm. Reykv. taldi, að í raun og veru væri enginn mismunur á orðalagi þessara tveggja tillagna. Ég vil gera honum og öðrum stjórnarliðum það til geðs að telja, að þessi breyt., sem hér er á orðin orðalagi þáltill., sé í samræmi við það, sem alltaf hefir vakað fyrir þeim. Hitt get ég ekki viðurkennt, af því að það stríðir á móti réttri hugsun, að þáltill. sé eins og hún var.