15.04.1937
Sameinað þing: 10. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í D-deild Alþingistíðinda. (2322)

46. mál, meðferð utanríkismála o. fl.

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég ætla ekki að fara að deila við hv. þm. G.-K. um orðalag þessarar þáltill. Hinu skal ég ekki neita, að það er dálítil ástæða til þess sérstaklega fyrir Sjálfstfl. og Bændafl. að hafa óskað að koma fram yfirlýsingu um, að þeir séu því ákveðið fylgjandi, að við Íslendingar tökum árið 1943 stjórn allra okkar mála í okkar eigin hendur, þar sem þessir fl. hafa ekki áður gefið formlega yfirlýsingu um það sem slíkir á líkan hatt sem hér er um að ræða. En það hafa Framsfl. og Alþfl. gert að gefnu tilefni.

Annars vildi ég lýsa ánægju minni yfir því, að flokkarnir hafa getað orðið sammála um afgreiðslu þessa máls á þann veg, sem þáltill. felur í sér. Og ég vil þakka öllum hlutaðeigandi fl. þingsins fyrir að hafa komið sér saman um að sveigja svo til um orðalag þáltill., að allir megi við una, en stofna ekki til neins reipdráttar um þetta.

Vil ég svo mæla með því, að þáltill. þessi verði samþ., og lýsi ánægju minni yfir þessum málalokum.