16.04.1937
Neðri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í D-deild Alþingistíðinda. (2351)

127. mál, verkefni fyrir unga menn

*Gunnar Thoroddsen:

Eins og hv. síðasti ræðumaður gat um, þá liggja fyrir þessu þingi 2 frv. um atvinnulausa unglinga, sem sýnt er, að ekki ná fram að ganga að þessu sinni, þar sem komið er að þingrofi. Hv. 2. þm. Árn. hefi. borið fram þáltill. um að fela ríkisstj. að láta fara fram, svo fljótt sem við verður komið, ýtarlega rannsókn á því, á hvern hátt bezt verði ráðið fram úr atvinnuleysi ungra manna í landinu, með það fyrir augum sérstaklega, að starfskraftar þeirra notist í þágu framleiðslunnar. við þessa þáltill. hefi ég leyft mér að bera fram brtt., þar sem ég fer fram á, að í stað þess að stj. sé falið að athuga þetta, þá sé kosin til þess 3 manna n., hlutbundnum kosningum af sameinuðu Alþingi. Skal n. m. a. miða till. sínar við það, að unglingarnir hljóti verklega og bóklega kennslu og verði fyrir hollum uppeldisáhrifum, og að stofnað verði til sjálfboðavinnu við þjóðnytjaverk. Að sjálfsögðu væri það æskilegast, að hinir ungu atvinnulausu menn gætu komizt í atvinnu án þess að draga úr vinnu hinna fulltíða manna. verður því að miða þær ráðstafanir, sem gerðar yrðu til þess að leysa atvinnuspursmálið gagnvart unglingunum, við annað en það, sem gert er fyrir atvinnulausa menn, sem fulltíða eru orðnir. Unglingunum þarf að sjá fyrir kennslu, sem ekki gerist þörf fyrir hina.

Með því að samþ. brtt. mína og skipa nefndina fulltrúum frá öllum aðalflokkum þingsins, býst ég við, að fengist hagkvæmust og bezt lausn þessa máls.