06.04.1937
Sameinað þing: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í D-deild Alþingistíðinda. (2379)

115. mál, heilsubrunnar og hressingarhæli

*Flm. (Magnús Jónsson):

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta mál. — Fyrir nokkrum árum fór hér fram rannsókn á hveravatni, til þess að vita, hve ríkt það væri af geislamagni. Lengra náði sú rannsókn ekki. En víða um lönd hefir um langan aldur verið trúað á lækningarmagn hveravatns, og fjöldi fólks hefir safnazt á þá staði, þar sem slíkt vatn hefir verið að fá, sér til heilsubótar og notað vatnið bæði til baða og neyzlu. Ég held því, að sjálfsagt sé að rannsaka, að hvaða gagni okkar heitu laugar gætu orðið í þessu efni. Fyrir nokkru skrifaði landskunnur maður, Sveinn Björnsson sendiherra, um böðin í Karlsbad og benti á það í því sambandi, að ástæða væri til að rannsaka, hvort við ættum ekki slíka heilsubrunna, þar sem væru laugar okkar og hverir. Þetta hefir nú verið dálítið reynt hér, t. d. við gigt; menn hafa farið í volg leirböð og legið á heitum hellum. Hitt skal ég ekki segja um, hvort annað vatn en ölkelduvatn hefir verið drukkið hér í lækningarskyni eða er til þess hæft.

Þessi till. fer fram á að fá rannsókn á lækningarmætti hveravatns hér á landi. En þótt mikils virði væri fyrir okkur að geta fengið bót einhverra meina okkar af vatni þessu, þá er hitt sumt meira virði, að ef svo reyndist, að hveravatn okkar reyndist heilsusamlegt, hlyti það að verða til þess að draga hingað ferðamenn í stórum stíl, einkum ef heilsubrunnarnir lægju í fögru umhverfi og gestirnir gætu notið nútímaþæginda. — Eftir því sem ég bezt veit, myndi þessi rannsókn ekki kosta mikla peninga. Hún myndi einkum liggja í efnagreiningu, ef til vill í stórum stíl, en slíkt myndi aldrei valda miklum kostnaði. Hitt atriðið er það, hvar hentugast myndi vera, að undangenginni rannsókn á vatninu, að setja upp hressingarhæli. Má segja, að það sé aðalfjárhagsatriðið, því að víða eru slík hæli hinar glæsilegustu hallir og kosta of fjár. Það er því rannsóknarefni líka, að athuga, hvar bezt myndi vera að byggja slíkt hæli og hvað það myndi kosta.