19.04.1937
Neðri deild: 43. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í D-deild Alþingistíðinda. (2386)

158. mál, hafnarbætur á Raufarhöfn

*Finnur Jónsson:

Til viðbótar því, sem hv. fyrri flm. hefir sagt, vil ég taka það fram, að svo er ástatt um þessa höfn, að þangað fljóta ekki inn nema minnstu skip. Síldveiði er nú oft mikil við Langanes, og þetta er næsta höfnin. Það er því mjög bagalegt, að hin stærri síldveiðiskip skuli ekki komast þangað. Þetta stendur og í vegi fyrir því, að síldarverksmiðjan, sem er á Raufarhöfn, verði stækkuð. Út- og uppskipun er mjög dýr þarna, þar sem flytja verður langar leiðir á smábátum út í hin stærri skip, sem flytja þangað vörur og taka þar vörur, auk þess, sem mjög er stormasamt þarna.

Það væri því mjög nauðsynlegt að dýpka höfnina svo, að meðalstór flutningaskip gætu flotið hingað inn. Og þá myndi síldarverksmiðjan verða aukin um leið.