17.04.1937
Sameinað þing: 11. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í D-deild Alþingistíðinda. (2391)

147. mál, framkvæmdaleysi í jarðrækt

Páll Zóphóníasson:

Ég skal verða við tilmælum hæstv. forseta og vera stuttorður, enda mun vera liðinn sá tími, sem þessi fundur átti að standa.

Þrátt fyrir það, að ræða hv. 1. þm. Rang. gæfi tilefni til þess að segja ýmislegt um þetta mál, þá mun ég ekki gera það, heldur einungis benda á, að ég tel, að þessari till. þyrfti ofurlítið að breyta. Það er talað um það í till., að ef rannsókn leiði í ljós, að 4. liður þess, sem ætlazt er til, að rannsakað verði, sé valdur að framkvæmdaleysi bænda, þá geri Alþ. einhverjar ráðstafanir til úrbóta. En hvers vegna bara að taka þennan eina lið? Því ekki eins að taka 3. liðinn, óhagstæðan leigumála? Ég mun þess vegna leggja fram brtt. um það, að í síðustu málsgr. till. á eftir orðunum „að hér sé fátækt og úrræðaleysi um að kenna“ komi: eða óhagstæðum leigumála. — Og ef niðurstaðan leiðir í ljós, að annaðhvort af þessu tvennu eða hvorttveggja sé valdandi framkvæmdaleysi bænda, þá verði gerðar ráðstafanir til þess að kippa því öðruhvoru eða hvorutveggja í lag. — Ég geri ráð fyrir því, úr því þetta er fyrri umr., að nægur tími sé til þess að koma fram með brtt. síðar, en ég mun sjá um, að hún liggi fyrir við næstu umr. þessa máls.