19.04.1937
Sameinað þing: 12. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í D-deild Alþingistíðinda. (2413)

138. mál, brunaslys í Keflavík

*Bergur Jónsson:

Mér þykir vænt um, að till. er komin fram hér á þingi um að veita þeim mönnum einhverja hjálp, sem verst urðu úti af völdum brunans mikla í Keflavík um áramótin 1935–1936, en það er eitt atriði í sambandi við þetta mál, sem mér þykir leiðinlegt, atriði, sem kemur alloft fyrir hér á hv. Alþ. Það er, að einstakir menn á hv. Alþ. hafa sérstaka tilhneigingu til að stela málum frá öðrum mönnum, sem allir vita, að hafa ekki brjóstgæði til að bera; það veit ég. Ég var veikur í fyrra og þurfti á fjárhjálp að halda og sneri mér til nokkurra vina minna um hana. Þá sneri ég mér til eins af flm. þessarar till., ekki af því, að ég byggist við, að hann mundi greiða úr fyrir mér, heldur af því, að ég vildi staðfesta fyrir sjálfum mér, hvernig maðurinn væri sjálfur. Enginn efast um, að hann muni eiga nokkuð mikið fé, bæði hér á landi og erlendis. Ég vil geta þessa, til þess að menn gangi ekki að því gruflandi, að þessi maður ætlar með flutningi þessarar till. að afla sér kjörfylgis suður með sjó. Hefði mönnum þar verið óhætt að snúa sér til manna úr öðrum flokkum um þetta mál; þeir mundu fá eins góðan stuðning þaðan. Þeir, sem kunnugir eru í Keflavík, munu vita, að mönnum þar hefði verið kærara, að þessi till. hefði ekki verið borin fram sem kosningabeita. Ég vildi geta um þessi atriði hér vegna þess, að það er orðinn síður hér á Alþ. að raða ekki eingöngu um málin, sem fyrir liggja, heldur einnig um afstöðu flm. til málanna. Það kom fram í útvarpsumr., sem fram fóru fyrir nokkru, að hv. flm. þessarar till. ásakaði Thorsbræður fyrir að hafa skemmt fjárhag sinn með því að ganga of mikið í ábyrgðir fyrir aðra menn. Það getur verið, að svo hafi verið, en hvort menn almennt álíta, að þeim ríka manni, hv. 1. flm. þessarar till., hafi í því tilfelli farizt betur en þeim, ætla ég að láta alla siðferðislega heilbrigða menn dæma um.